Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Góður listi

Sjálfstæðismenn á Akureyri hafa stillt upp flottum lista fyrir bæjarstjórnarkosningarnar í vor. Sigurstranglegur listi.

Nú er bara að vona að það sama gangi eftir í Kópavogi. 


mbl.is Mikil nýliðun á listanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það tekst seint að gera rétt

Hvað það var í þessari frétt RÚV, sem var rangt, eða ekki byggt á staðreyndum, skiptir ekki höfuðatriði, en það verður að viðurkennast að maður hrökk við í forundran við að heyra eitthvað, sem skilja mætti sem fyrirhugaða samningataktík útlistað í smáatriðum í ljósvakafréttum.

Það er einsog þessum blessuðum fjármálaráðherra sé fyrirmunað að gera neitt nema að beitt sé einhverjum handabakavinnubrögðum. 

Fúskvinna Steingríms Joð er yfirmáta þreytandi. Það er greinilegt að skilvirk og áreiðanleg stjórnsýsla á ekki uppá pallborðið hjá þessum æðsta presti lopapeysuliðsins.

Það klikkar allt.

 

 


mbl.is Bað RÚV að birta ekki fréttina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lopapeysuliðið

Þessir samherjar og trúnaðarvinir Steingríms Joð láta ekki að sér hæða.

Það er svindlað í prófkjöri/forvali, sem hefði þótt fréttir úr öðrum búðum, svo ekki sé meira sagt.

Af því að þeir, sem stóðu að svindlinu töldu sig ekki vera að svindla, þó ljóst ætti að vera hverjum heilvita manni að slíkt nokkuð gerir maður ekki í kosningum af því að það er svindl, þá eru svindlararnir látnir komast upp með glæpinn vegna þess „að ljóst [er] að enginn frambjóðenda braut reglur enda störfuðu þeir í góðri trú.“

Þetta lið á sér ekki viðreisnar von. 

 


mbl.is Kjörstjórn víkur og forvalsreglur VG verða skoðaðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fræknir félagar, Steingrímur, Indriði og Svavar

Það hefur verið hreint með ólíkindum að fylgjast með þeim fóstbræðrum Steingrími J. Sigfússyni og Indriða H. Þorlákssyni undanfarna daga.

Nú þegar möguleikar, þó óljósir séu, virðast vera að koma í ljós á að hugsanlegt sé að unnt verði að komast hjá obbanum af því stórtjóni, sem Svavar ég-nennti-ekki-að-hafa-þetta-hangandi-yfir-mér-lengur Gestsson og téður Indriði hafa valdið þjóð sinni með einhverri þeirri verstu frammistöðu í samningagerð, sem sögur fara af, lætur fjármálaráðherrann sig hafa það að birtast í sjónvarpsfréttum, afundinn, fúll og fámáll. Það er greinilega fjandanum erfiðara að þurfa að viðurkenna að samningsstaðan, ef stöðu skyldi kalla, sem þeir félagar og vinir ráðherrans komu okkur öllum í var eins langt frá því að vera boðleg og hægt er að láta sér detta í hug.

Svo fer Indriði H. á kreik og dreifir gömlum samningsdrögum, sem enginn kannast við að hafi verið neitt nema hugmyndavinna síns tíma, hvorki kynnt sem drög einu sinni, fyrir þingi eða ríkisstjórn, og heldur því gleiður blákalt fram að það, sem félagi Svavar og hann hafi barið saman og fengið félaga Steingrím til að reyna að berja í gegnum þingið, hafi verið ígildi testamentis og beri að umgangast af eintómri virðingu. Einhverjum datt í hug að spyrja í skrifum sínum hvaða liði þessi maður léki með.

Er það nema von að mönnum ofbjóði „makalaust innlegg“ aðstoðarmanns þeirra Steingríms J. og Svavars. Dómgreindarleysið er algjört, vaðallinn ámælisverður og tímasetningin til þess eins að eyðileggja það, sem þó hefur verið gert til að hreinsa upp eftir hann og félaga hans.


mbl.is „Makalaust innlegg“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flestum misboðið

Fjármálagerningar að undanförnu hafa ekki orðið til að auka trú manna á núverandi ríkisstjórn, sem setti sér það markmið að allt skyldi vera uppi á borðinu og vel gagnsætt. Þessi markmið voru vel auglýst framan af og þess sérstaklega getið að einkum og sér í lagi væri átt við bankakerfið.

Nú liggur fyrir að menn, sem settu fyrirtæki sín á hausinn og áttu ríkan þátt í helför viðskipta, fá ráðandi hlut í þessum sömu fyrirtækjum og þar með greiðan aðgang að því, sem eftir stendur. 

Það hefði verið hægur vandi fyrir stjórnvöld að sjá til þess að Hagar, og allt, sem að þeim snýr, hefðu farið þá einu leið, sem ásættanleg getur verið, gjaldþrot.  

 

 


mbl.is Ákvörðun Arion banka misbýður samfélaginu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvaða tilgangi á Byr að þjóna?

Einsog önnur þau fjármálafyrirtæki, sem komin eru að fótum fram vegna græðgi og óstjórnar og hafa verið látin róa, á Byr að fara í gjaldþrot.

Tilgangurinn með því að púkka undir fyrirtæki, sem engum tilgangi þjónar öðrum en þeim að vera, og verða, dragbítur á opinbera fjármuni, er engum skiljanlegur. Akkur ríkissjóðs af því að halda Byr gangandi er nákvæmlega enginn.

Alltof fyrirferðarmikið bankakerfi á Íslandi hefur löngum verið talið illskiljanlegt. Hér gefst gullið tækifæri til að grisja aðeins frumskóg útibúanetsins, svo ekki sá talað um þann sparnað sem hlýzt af því að leyfa þeim, sem skellinn eiga skilið að taka hann. 


mbl.is Ríkið vill eignast Byr
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ættu að borga með sér

Svo vel hafa bankamenn reynzt í sínum vísindum undanfarin ár að sanngjarnt væri að þeir greiddu með sér til að fá að halda vinnunni. Ekki verður þeim hrósað fyrir afkomu fyrirtækja sinna, svo ekki sé meira sagt, þegar litið er yfir vígvöllinn í dag og litið til átaka liðinna ára.

Í fréttinni, sem lagt er útaf kemur fram að forstjóri Goldman Sachs hafi fengið í kaupauka hlutabréf að virði 9 milljóna dollara, en sá galli fylgi gjöf Njarðar að hann megi ekki selja bréfin næstu fimm ár. Okkur á að blæða fyrir hans hönd.

Vegna þessa reka bankamenn upp ramakvein og segja að þetta komi þeim verulega á óvart, enda hafi þeir búist við margfalt rausnarlegri verðlaunum fyrir rekstrarárangur sl. árs.

Þessir herramenn mættu hafa í huga að sá árangur, sem kann að hafa orðið á árinu 2009 er skilgetið afkvæmi hrunsins, sem varð á árinu þar á undan, vogunarstarfsemi og verzlun með eignir úr rústum fallinna banka og illa staddra sjóða.

Bankamenn ættu sem heild að skammast sín í stað þess að rífa kjaft og flækjast um í forundran.

 

 


mbl.is Uppnám vegna lágra bónusa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Feðgarnir fá sitt

Það hefur sennilega ekki nokkur maður efazt um að reynt yrði af fremsta megni að koma Högum aftur í hreiður þeirra feðga, Jóhannesar og Jóns Ásgeirs.

Að sjá bankastjóra Arionbanka lýsa því fjálglega yfir að framundan sé gagnsætt og opið söluferli var heldur dapurlegt því tekið var fram að Jóhannes og félagar koma til með að halda það stórum hlut í Högum að hann hlýtur að teljast ráðandi.

Slíkur ráðandi hlutur vekur upp spurningar um það hverjir gætu hugsað sér að ganga til sængur með fyrrverandi eigendum Baugs Group. 

Reynslan af rekstrinum þar á bæ er ekki beint hvetjandi fyrir þá, sem eiga kynnu einhverjar krónur aukreitis til að láta í kaup á hlutabréfum. Það gleymist líklega seint hvernig farið var með Baug sem einkafyrirtæki, þrátt fyrir meinta dreifða eignaraðild. Það voru ekki margir, sem fengu að leika sér í sandkassanum. Þeir, sem það fengu, sáu vel um sitt.

 


mbl.is Óvissu um framtíð Haga eytt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Líkt við mið-asískan einræðisherra

Það er orðspori Íslands ekki ónýtt að sjálfum forsætisráðherranum skuli líkt við einræðisherra frá Mið-Asíu.

Konan vissi, eða mátti vita, að héldi hún sér við þann kúrs að tjá sig ekki við útlendinga, sem eru þekktir fyrir að spyrja krefjandi spurninga, jafnvel á útlenzku, yrðu gerðar harðorðar athugasemdir.

Nú hefur það komið á daginn. Samanburðurinn er glæsilegur, eða hvað?

Enn eitt tækifærið til að láta til sín taka og tala máli Íslands er fokið út í veður og vind.


mbl.is Óvenjulegt tilvik
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hvers að ræða umsókn?

Vandamál Íslands eru mörg og flókin um þessar mundir.

Nægir að minna á Icesave-mál, vandamál heimilanna, enn án skjaldborgarinnar, sem lofað var fyrir ári síðan og vandamál fyrirtækja, sem ekki ráða við fjármögnun vegna tröllslegra vaxtakjara.

Til að sinna þeim af heilindum þarf öll stjórnsýslan að vera virk, en ekki að miklum hluta upptekin við draumóraverkefni Samfylkingarinnar, umsókn um aðild að Evrópusambandinu. Þessi umsókn er hvergi tekin alvarlega nema innan raða Samfylkingarinnar, ekki einu sinni innan ríkisstjórnarinnar, hvað þá meðal almennings í landinu. Þetta er umsókn, sem verður kolfelld í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Það vita forystumenn Samfylkingarinnar, en engu að síður er hráskinnaleiknum haldið til streitu, rétt eins og um raunverulegt hagsmunamál þjóðarinnar væri að ræða. 

Væri ekki nær að snúa sér af alvöru að þeim málum, sem lofað var fyrir ári síðan að fengju forgang, heimilunum í landinu og atvinnurekstri. Tómstundaiðja kratanna er orðin slíkur dragbítur (auk þess að vera rándýr) á raunveruleg verkefni og vinnu stjórnvalda að hún er orðin ríkisstjórninni til stórskammar og er ekki miklu bætandi á fátæklega ferilskrá hennar.


mbl.is Ræða aðild Íslands í febrúar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband