Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Markaðsráðandi

Ég ætla að leyfa mér að vitna í Jóhannes Jónsson, kenndan við Bónus, en árið 1991 lét hann hafa eftir sér í viðtali við Tímann um virkni frjáls markaðar að „[þ]að er afar óhollt í kapítalísku þjóðfélagi að eitt fyrirtæki verði svo stórt að það nái kannski 30-40% markaðshlutdeild. Það á sér hvergi hliðstæðu í nágrannalöndum okkar að eitt fyrirtæki ná slíkum tökum“.

Og áfram heldur Jóhannes: Það eru rosaleg völd fólgin í því að vera smásali. Náir þú góðum tökum á smásölumarkaði, þá nærð þú líka kerfisbundið tökum á ákveðnum iðnaði. Það er mjög hættulegt bæði framleiðendum og innflytjendum verði einn smásali mjög stór. Hann ræður þá ekki aðeins miklu um vöruval á markaðnum, heldur getur hann líka farið að framleiða verðbólgu í þjóðfélaginu.“

Svo mörg voru þau orð.

Jóhannes fór mikinn og hneykslaðist þegar samkeppnisyfirvöld felldu úrskurð sinn og fram kom að á landinu öllu hefði markaðshlutdeild Haga verið yfir 50%. Tölur hafa verið á floti um 50-60% markaðshlutdeild.

Mér er ekki kunnugt um að Jóhannes í Bónus hafi tjáð sig fjálglega um 30-40 prósentin uppá síðkastið. 


mbl.is Hagar ætla að áfrýja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fnykur

Ef um er að ræða tilboð „sem Íslendingar geta ekki hafnað“, þá er ljóst hvert Bretar og Hollendingar hafa sótt ráðgjöf um samningagerð.

Það eru ekki nema ein samtök, sem beita slíkum forsendum við samninga.

Það er ekki leiðum að líkjast.


mbl.is Undirbúa nýtt Icesave tilboð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fara skal að lögum

Það hefur ekkert að segja hvort slitnað hafi upp úr viðræðum við Breta og Hollendinga eða ekki. Lögum samkvæmt skal halda þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave-lagaklúður ríkisstjórnarinnar 6. marz.

Engu máli skiptir heldur hvort skýrsla rannsóknarnefndarinnar verður komin út fyrir þann dag. Sú skýrsla kemur út þegar hún kemur út.

Þjóðin vill, og þarf að segja hug sinn til samningsins, sem gerður var við Breta og Hollendinga. Hún gerir það ekki með formlegum hætti nema í atkvæðagreiðslu.

Það er einfaldlega forkastanlegt að þessi, um margt furðulega, ríkisstjórn skuli vera að velta því fyrir sér að fresta, eða slá af, þjóðaratkvæðagreiðslu um eitt erfiðasta mál, sem verið hefur til umræðu frá stofnun lýðveldisins.

 


mbl.is Óbreytt áform um kosningu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sei, sei

Það getur ekki verið mikil ástæða til þess að missa sig í fögnuði yfir því að Bretum skuli þóknast að vilja rýmka aðeins til með vaxtagreiðslur af lánum, sem stjórnvöld þar í landi greiddu eigin þegnum að eigin frumkvæði. Lánum, sem þeir veittu sjálfum sér.

Því hefur verið haldið fram með öflugum rökum að ríkissjóður Íslands skuldi hvorki Bretum né Hollendingum eina aukatekna krónu, hvað þá vexti. 

Síðast í dag er greint frá því að norski innistæðutryggingasjóðurinn, sem um flest er eins upp settur og sá íslenzki, telji sig ekki baktryggðan af norska ríkinu. Vísar forstjóri sjóðsins til ákvæða EES-samningsins og bendir á að bætur umfram eignir sjóðsins kæmu ekki til greina.

Hvernig væri nú að menn færu að taka mið af einföldum staðreyndum og lýstu því einfaldlega yfir að ekki stæði til að greiða það sem enginn fótur væri fyrir.


mbl.is Bretar fallast á eftirgjöf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ýtt undir atvinnurekstur

Þau vantaði ekki loforðin um að slegin yrði skjaldborg um heimilin í landinu og séð til þess að atvinnutæki landsins, fyrirtækin, yrðu aðnjótandi hagstæðs rekstrarumhverfis.

Það hefur heldur ekki vantað loforð og yfirlýsingar um að fjöldi starfa væri um það bil að verða til, jafnvel þúsundir. Lítið hefur sézt af nýjum störfum, sem orðið hafa til fyrir atbeina ríkisvaldsins, enda varla við því að búast. Það er ekki ríkisins að sjá til þess að til verði ný störf. Þess hlutverk er að sjá um að þokkalegur grundvöllur sé til staðar fyrir atvinnulífið og vera svo ekki að flækjast fyrir meira en góðu hófi gegnir.

Framtak athafnamanna við að koma á fót einkareknu sjúkrahúsi á Miðnesheiðinni er lofsvert, hvernig sem á það er litið.

Þá er bara að vona að þetta verði látið í friði og leyft að þróast, en verði ekki fyrir barðinu á ofursósíalistum á borð við núverandi ráðherra heilbrigðismála.

 


mbl.is Framkvæmdir við einkasjúkrahús
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aukin óvissa

Auðvitað eykur það á óvissu um framvindu í efnahagsmálum að enn á ný skuli setzt að borðum til að leitast við að finna lausn á Icesave-ævintýri furstanna í Landsbankanum. Enn á ný er verið að freista þess að ná fram viðunandi lausn í þessu mesta viðskiptavandamáli, sem þjóðin hefur glímt við frá upphafi.

Réttara væri þó að segja að loks væri þess freistað að finna viðunandi laus.

Hálfkák og afsamningar þeirra félaga Svavars Gestssonar og Indriða H. Þorlákssonar eru ekki þess virði að teljast með sem tilraunir við að ná fram mannsæmandi lausn.


mbl.is Enn að skiptast á hugmyndum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Við Ögmundur erum sammála - að vissu marki

Það eru ekki margir hverra málflutningi ég er jafn ósammála og Ögmundar Jónassonar. Það má hann þó eiga, kallinn, að hann er sjálfum sér samkvæmur og gengur hreint til verks.

Eitt er það, sem við Ögmundur eigum sameiginlegt, en það er botnlaus andúð okkar á aðild Íslands að Evrópusambandinu.

Það, sem skilur á milli okkar í ESB-umsókninni og öllu því, sem hana varðar, er að ég hefði aldrei greitt atkvæði með aðildarumsókninni eins og Ögmundur gerði þó. Skýringu Ögmundar á þeirri afstöðu afstöðu sinni segir hann vera að hann vilji sjá hver afstaða þjóðarinnar verður við slíkri umsókn í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ég leyfi mér að benda þingmanninum á að það hefði verið afskaplega einfalt að fá úr því skorið hjá þjóðinni, hver vilji hennar væri í málinu, og það án alls þess ofurkostnaðar og fyrirhafnar, sem þarf að leggja í til að þóknast skrifveldinu í Brussel. Það hefði verið að boða til kosninga um málið fyrirfram; málið dautt. 

 


mbl.is Aldrei andvígari ESB-aðild
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvers vegna á móti?

Það eru einkum þrjár ástæður fyrir andstöðu við að koma svo mikið sem nálægt Evrópusambandinu. Þær eru:

1. Fiskimiðin.

2. Fiskimiðin.

3. Fiskimiðin.

Það þarf enginn að láta sér detta í hug að sú höfuðatvinnugrein, sem byggir á fullri og óheftri stjórn Íslands á fiskimiðunum, verði neitt annað en skugginn af sjálfri sér fái Evrópusambandið heimild til að fara með stjórn helztu auðlindar landsins.

Við þurfum sízt á Bretum, Spánverjum og Þjóðverjum að halda til að skrapa hafsbotninn upp í landssteina.

 


mbl.is Munu mæla með aðildarviðræðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Furðulegur fjármálaráðherra

Það er bæði furðulegt og niðurdrepandi að sjá fjármálaráðherra Íslands tjá sig með neikvæðum hætti um þá möguleika, sem kunna að vera í stöðunni í Icesave-málum, dag eftir dag.

Fúll og hálf önugur lætur hann hafa eftir sér að ekki sé við miklu að búast m.v. framvindu mála hjá nýrri samninganefnd til þessa. 

Hvað gengur fjármálaráðherranum til?  Það er engu líkara en hann leitist við að ljá málstað Breta og Hollendinga lið með úrdrætti og neikvæðni.

Já, hvað gengur honum til? Getur hann kannski ekki sætt sig við að það sé ekki útilokað að ný samninganefnd gæti náð lengra, hugsanlega miklu lengra, en lærimeistarinn Svavar Gestsson? Að ný samninganefnd gæti náð lengra en „glæsilegheitin“, sem þeir félagar Svavar og Indriði H. Þorláksson létu sig hafa að koma með heim og áttu að vera allra meina bót.

Það væri erfitt að þurfa að afneita endanlega svonefndum árangri þeirra félaga, sem stöðugt fleiri benda á með sterkum rökum að hafi ekki verið neitt nema afsamningur af verstu gerð.

Það væri ljóta málið.


mbl.is Furðar sig á ummælum fjármálaráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ef aðeins hefði verið samið betur áður

Það er orðið allnokkuð síðan að Steingrímur J. Sigfússon sagði að pólitískur lærifaðir hans, Svavar Gestsson, væri á leið heim með „glæsilega“ afurð samninga við Breta og Hollendinga.

Öllum er nú kunnugt um glæsileikann á þeirri útkomunni, en óneitanlega leitar hugurinn til þessarar yfirlýsingar fjármálaráðherrans nú þegar hann telur sig vera minna en hóflega bjartsýnan á það, sem fengizt gæti úr þessari hugsanlegu þriðju samningalotu.

Hann verður að hafa það hugfast að hann þyrfti ekki að vera á kafi í áhyggjum í dag ef hann aðeins hefði haft döngun í sér til til að láta raunverulega og reynda samningamenn annast ferlið í heild sinni, ekki pólitískan læriföður, sem í ljós hefur komið að réð engan veg við verk það, sem honum var falið.


mbl.is Hóflega bjartsýnn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband