Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Tveggja ára dæmi?

Svo ágætt sem það kann að virðast að vera laus við Gordon Brown úr stóli forsætisráðherra, þá þarf ekki að búast við að komnir séu til valda í Bretlandi aðilar, sem eigi eftir að vera við völd og vinna saman lengur en tvö ár.

Bretar hafa enga raunverulega reynslu af samsteypustjórnum og stefnumál Íhaldsmanna og Frjálslyndra Demókrata stangast um of á til að búast megi við langlífri stjórn.

Nýjustu hagtölur í Bretlandi eru ekki til þess fallnar að gefa nýrri stjórn mikinn vinnufrið: Byrja þarf á að skera niður útgjöld ríkisins vegna stórfellds halla á fjárlögum og varla verður sá niðurskurður til að valda miklum vinsældum. Ofan á það bætist að atvinnulausum fjölgar og á eftir að fjölga verulega þegar farið verður að krukka í útgjaldaliði ríkisins.

Spáin: 18 mánuðir; tvö ár hámark, því miður. Það hefði verið gaman að sjá Íhaldsmenn eiga við vandamál Bretlands, sérstaklega þegar haft er í huga að ekki er í myndinni að taka upp Evru og markmiðið er að fjarlægjast Evrópusambandið sem mest.


mbl.is Cameron og Clegg bjartsýnir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki hlátur í huga

Ég hlæ ekki, ég glotti ekki og mér er ekki á neinn hátt skemmt yfir því að Jón Ásgeir Jóhannesson og hans fylgifiskar þurfi nú loks að horfats í augu við óhjákvæmilegar afleiðingar glæpsamlegra gerða sinna. Til þess eru gerðir þeirra of stórvægilegar og hafa valdið of miklu tjóni vítt og breitt um samfélagið.

Mér fyndist eðlilegt að þessir fjármálafurstar gætu nú fundið hjá sér þá döngun, sem til þarf svo unt sé að líta á þá sem menn, en bera ekki því við að þeirra ógæfa sé allt öðrum að kenna en þeim sjálfum. Jón þessi segir í viðtali við erlenda fréttaveitu: „Þeir hafa náð markmiðum sínum. Þetta er hræðilegt."

Hverjir eru þessir „þeir“?

Voru það einhverjir „þeir“, sem tæmdu sjóði og banka til að hægt væri að halda áfram fjáraustri í fyrirtækjafléttur og gæluverkefni?

Ég bið þessa „þá“ að gefa sig fram.


mbl.is Ætlar ekki að taka til varna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brown: farið hefur fé betra

Þá er Gordon Brown horfinn yfir hina pólitísku móðu og við tekinn leiðtogi íhaldsmanna, David Cameron, nýr forsætisráðherra Breta. Fall Browns í kjölfar þingkosninganna í Bretlandi er orðið algjört; horfinn úr sæti æðsta stjórnanda pólitíkur og hrökklast úr forsæti Verkamannaflokksins.

Gordons Browns verður, a.m.k. hér á landi, minnzt um ókomna tíð sem fantsins, sem setti Ísland í skjóðu með helztu hryðjuverkasamtökum heims og lánaði ríkissjóði Bretlands fé til að greiða eigin skuldir og sendi Íslandi reikninginn fyrir herlegheitunum að viðbættum vöxtum, takk fyrir.

Það er ekki einfalt að sjá hvernig fer með þetta sjálflánaferli, sem Brown og hans menn settu af stað og markaðist af hroka og óbilgirni, en eitt ætti þó að vera víst; það getur ekki versnað. 


mbl.is Cameron verður forsætisráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Miðað við forsætisráðherra?

Þegar vinstri stjórnin ákvað að lækka launa forstjóra ríkisstofnana var það sett sem meginmarkmið að enginn þeirra hefði hærri laun en forsætisráðherra.

Það er nokkuð ljóst að sumir forstjóranna hafa meira en líklega verið stórvel haldnir af launum sínum og hvers kyns sporzlum, en að miða launin við það, sem núverandi forsætisráðherra fær til að spila úr er út í hött. Hvernig á að miða laun fyrir ærlega unna vinnu við „afköst“, sem snúast helzt um að segja sem mest en framkvæma sem minnst. Það fer ekki milli mála að forsætisráðherrann hefur verið brattur á talandanum (þó ekki erlendis), en minna hefur verið um efndir. Ekki þarf að hafa mörg orð um skjaldborgir og aðgerðir til að koma heimilum og fyrirtækjum til hjálpar.

Þeim, sem þannig yrðu settir í lægri launaskala en forsætisráðherra, væri þá í raun boðið uppá að gera helzt minna en ekkert.

 

 


mbl.is Laun seðlabankastjóra hækki um 400 þúsund
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekkert erindi í Brussel-klúbbinn

„Guð minn góður ég vildi ekki vera í þeirri stöðu sem þeir eru í," segir Steingrímur aðspurður um ástand mála í Grikklandi.

Að þessu sögðu ætti fjármálaráðherrann ekki að eiga erfitt með að beita sér af hörku og fullum þunga fyrir því að botn verði sleginn í þetta fáránlega ferli sem viðræður við Evrópusambandið eru. Það er/ætti að vera/ öllum fullljóst að Ísland á ekkert erindi í Brussel-klúbbinn og óhjákvæmilegt Evruklúður.

Sé Steingrímur J. Sigfússon Guði sínum þakklátur, þá blasir sú spurning við hvers vegna ráðherrann styður aðgerðir félaga sinna í Samfylkingunn um aðildarviðræður við ESB, þó ekki væri nema með þögninni og aðgerðaleysi einu saman. Hvað þarf til að maðurinn beiti sér fyrir að þessari vitleysu verði hætt?

 


mbl.is Steingrímur þakkar fyrir krónuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hallærislegt

Það er meira en sjálfsagt að gera húsleit hjá Símanum, leiki einhver minnsti grunur um að farið hafi verið á svig við lög og reglur.

Það er hins vegar einhver sú hallærislegasta handarbakaaðgerð, sem hægt er að láta sér detta í hug, að fá til aðstoðar við slíka húsleit starfsmenn keppinautar fyrirtækisins.

Séu einhverjir vanhæfir til að koma að aðgerð á borð við þessa eru það aðilar, sem hafa beinna hagsmuna að gæta af niðurstöðu rannsóknarinnar. Þetta veit hver heilvita maður. 

Að halda því fram í tilkynningu að „Þekking var sagt vera undirverktaki Samkeppniseftirlitsins við húsleitina,“ er einhver aumasti fyrirsláttur í arfaslakri stjórnsýslu, sem heyrzt hefur.

Rannsakið Símann sem mest þið megið, en gætið þess umfram allt að bjóða ekki uppá svona fyrirslátt. Móðgun við heilbrigða skynsemi.


mbl.is Stefnir Samkeppniseftirlitinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver talar hér?

Eftir að honum tókst að gera hið rétta, einu sinni, með því að vísa Icsave-hörmungarlögunum til þjóðarinnar, er forsetinn farinn að oftúlka hlutverk sitt svo hrikalega að það er engu líkara en Almættið sjálft hafi hafið upp raust sína.

Það eina sem vantar í yfirlýsingu Bessastaðabóndans er nákvæm tímasetning á upphafi næsta Kötlugoss ásamt með atvikalýsingu.

Eitthvað hefur blessaður karlinn misskilið þær sendingar, sem hann fékk eftir Icesave-kosninguna. Það er ekki búið að taka hann í goðatölu enn.

 


mbl.is Mun stærra íslenskt eldfjall „við það að springa“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rétt kona á réttum stað

Hér er á ferðinni einhver hæfasti þingmaður Sjálfstæðisflokksins og getur val hennar í starf formanns þingflokksins ekki verið til neins nema góðs.

Ragnheiður Elín hefur ítrekað sýnt pólitíska hæfileika og getu, auk þess að vera dyggur umboðsmaður kjósenda sinna í Suðurkjördæmi.

Rétt kona á réttum stað á réttum tíma.

 


mbl.is Ragnheiður Elín þingflokksformaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað segir Geiri í Goldfinger núna?

Við erum þá sennilega að borga fyrir súlustaðina með eldgosum og afleiddum hamförum.

Það kunni ekki góðri lukku að stýra að hafa þessi syndasvæði opin uppá gátt og storka þannig þeim í neðra.

Þessu ætti þó að fara að linna því hið háa Alþingi hefur tekið á sig rögg og bannað allan dónaskap.

 


mbl.is Kennir fáklæddum konum um jarðskjálfta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jóhanna að vakna?

„Samfylkingin var hluti af því samfélagi  sem lét það líðast að viðskiptablokkir stefndu þjóðarhag í stórkostlega hættu og töpuðu taflinu með hrikalegum afleiðingum fyrir landsmenn alla“ segir Jóhanna Sigurðardóttir á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar.

Svo virðist sem hennar heilagleiki sé að vakna til veruleikans. Hún áttar sig á því að það gengur ekki lengur að setja upp svip ábúðar og halda dimmar tölur um ábyrgð allra nema sína eigin.


mbl.is „Létum þetta líðast“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband