Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
9.4.2010
Tekur ekki við þýfi
Ég læt ekki stinga undir mig þýfi. Ég hef enga lyst sem hluthafi í Glitni að taka við þessu er haft eftir Vilhjálmi í viðtali við Pressuna.
Það þarf enginn að vera hissa á þessum viðbrögðum Vilhjálms Bjarnasonar við því að vera boðið gjafabréf frá Iceland Express/Fons/Pálma Haraldssyni fyrir aðild í útsvarssigri Garðbæinga á Reykjavík í kvöld.
Hér er prinsippmaður, sem marga hildi hefur háð við fyrirtæki og banka útrásarvíkinganna.
Það er óheppilegt að vera settur í þá stöðu að þurfa að neita opinberlega að taka við verðlaunum fyrir þátttöku í skemmtiþætti í útvarpi allra landsmanna.
Afþakkaði gjafabréf í Útsvari | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
7.4.2010
Legíó af lókal þrjótum
Við kennum ekki vondum útlendingum um vandamál okkar" er haft eftir viðskiptaráðherranum í grein í mbl.is.
Þetta er hárrétt hjá ráðherranum. Við eigum legíó af lókal þrjótum, sem sáu um að rústleggja íslenzkt efnahagslíf án teljandi aðstoðar að utan.
Þrátt fyrir yfirstandandi erfiðleika og þref við Breta og Hollendinga skulum við ekki láta okkur í hug detta að upphaf erfiðleikanna hafi verið neinum að kenna nema innfæddum spámönnum og sérfræðingum.
Við þetta má svo bæta að lókal sjéníum var falið að leitast við að leysa hluta vandans. Yfirséníið lýsti yfir að fyrirsjáanleg væri glæsileg niðurstaða, sem síðan reyndist aðeins magurri en við var búizt. Þarna voru ekki neinir útlendingar á ferð. Viðskiptaráðherrann hefur á réttu að standa.
Ekki vondum útlendingum að kenna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Það mun ekki á hverjum degi sem forstöðumenn stofnana leiti til Ríkisendurskoðunar eftir vinnureglum, sem tryggja myndu eðlilega meðferð opinberra fjármuna.
Ríkisendurskoðandi fær sendan tölvupóst þar sem farið er fram á leiðbeiningar. Svarar hann eins og honum ber. Þá bregður svo við að ráðherrann sturlast af bræði, hellir sér yfir embættismanninn og ber því við að hann hafi brotið gegn góðum starfsháttum með því að leita ráða hjá Ríkisendurskoðun.
Ég hvet hvern einn og einasta ráðvandan mann að lesa bréf Ríkisendurskoðanda til forseta Alþingis vegna þessa ólíðandi upphlaups óhæfs ráðherra. Það hangir í frétt þeirri, sem hér er lagt útaf. Meiri niðurlægingu er erfitt að ímynda sér að nokkur ráðherra geti fengið framan í sig en hér hefur gerzt.
Ákvörðun Álfheiðar ólíðandi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.4.2010
Sumir eru gleggri en aðrir
Þeir, sem kunna gott að meta, kunna að meta þetta sker okkar.
Þá skiptir ekki máli þó okkur, og skerinu með, hafi verið úthúðað fyrir ávirðingar útrásarvíkinga.
Ég hefði nú samt aldrei trúað því að þetta fjall karlmennskunnar hefði gaman af að klæða sig í kjól. Það er fokið í flest skjól.
Ísland uppáhaldsstaður Gerards Butlers | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
6.3.2010
Það gat varla orðið betra
Niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar gátu ekki orðið miklu betri.
Yfir 95% Íslendinga höfnuðu gjörningi Steingríms J. Sigfússonar og Jóhönnu Sigurðardóttur.
Það skyggir samt óneitanlega á ánægjuna að þurfa að horfa upp á forystumenn ríkisstjórnar Íslands tuða og tauta yfir niðurstöðum, sem ekki voru aðeins nauðsynlegar til að hafna formlega samningum, sem reyndust vera hrein svik við þjóðina heldur var það ekki síður nauðsynlegt að hafna gjörningnum til að gera gagnaðilum okkar það hreint og klárt hver afstaða Íslendinga væri til kúgunartilburða gamalla nýlenduvelda.
Álit margra á þessum tvímenningum hefur færst úr pólitískri andúð yfir í ómengaða fyrirlitningu.
Nær allir segja nei | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
1.3.2010
Skuldajöfnun?
Skuldajöfnunarhugtakið er vel þekkt úr máli verzlunar og viðskipta, en ég held að hér hafi verið fleytt einhverri frumlegustu hugmynd, a.m.k. sem ég veit um, um beitingu þessa ágæta uppgjörstækis.
Auðvitað á að taka þessa hugmynd til rækilegrar skoðunar.
Í báðum tilvikum, Tyrkjaráninu og Icesave, má segja að ræningjar hafi verið að verki.
Í báðum tilvikum voru það einstaklingar, sem eiga skömmina.
Í báðum tilvikum urðu óbreyttir borgarar fyrir barðinu á téðum ræningjum.
Sé krafa Íslendinga um bætur vegna athafna Jans Janzoon van Haarlem ekki fyrnd, er rétt að koma henni á framfæri við bær yfirvöld í Hollandi með það í huga að skuldajafna.
Síðan hljótum við að geta grafið upp eitthvert viðlíka dæmi til að brúka gegn Bretum. Þar hafa verið á ferðinni öldum saman sjóræningjar, sem líklegt er að hafi einhvern tíma framið álíka brot og vinur þeirra Jan von Haarlem.
Skulda Íslandi fyrir Tyrkjaránið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
1.3.2010
Afneitun og hroki
Þegar ekki er lengur unnt að væna Davíð í Seðlabankanum um ofsóknir á hendur Bónusveldinu er gripið til þess að væna Davíð á Morgunblaðinu um ofsóknir á hendur Bónusveldinu, þó nú sé Snorrabúð stekkur.
Ekki kemur fram hvað það er við fréttina um eignakaup Jóhannesar í Bandaríkjunum, sem gerir hana ranga. Hún er bara röng. Það kemur heldur ekki fram hvað rangt sé við frétt um að stór fasteign hafi verið færð á milli félaga til að koma henni undan örmum réttvísinnar og bærra yfirvalda. Fréttin er bara röng.
Það er óneitanlega notalegra til þess að vita að eignir séu vel geymdar í öðru landi þar sem þær eru í skjóli laga viðkomandi lands. Kannski í friði fyrir Davíð.
Þetta væl gengur ekki lengur.
Ljóminn, hafi hann nokkurn tíma verið til, er orðinn að leiðindaskugga.
Menn, sem héldu því eitt sinn fram að það væri argasti ósómi að þurfa að búa við 30 - 40% markaðshlutdeild, en brugðust ókvæða við þegar samkeppnisyfirvöld sektuðu þá fyrir 50 - 60% hlutdeild, eru orðnir illa lens með röksemdafærslur. Það er ekki hlustað á þá lengur, sama hvað þeir segja og hvað þeir tjá sig um.
Lét einhver sér virkilega detta í hug að Jóhannes í Bónus stæði í verzlunarrekstri vegna einskærs áhuga hans á aðstæðum þeirra, sem minna mega sín? Jú, kannski Bubbi Morthens.
Jóhannes sagði árið 1991: Það eru rosaleg völd fólgin í því að vera smásali. Með þessu var viðmælandi Tímans í raun að segja að menn, sem stunduðu þá iðn og kæmust síðan í markaðsráðandi stöðu, 30 - 40% markaðshlutdeild, væru hættulegir.
Stafar minni hætta af þeim, sem ná 50 - 60 prósentum, eða hvað?
Jóhannes segir fréttina ranga | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.2.2010
Fyrirsláttur
Nú er engu líkara en Steingrímur J. Sigfússon sé búinn að fá Breta (og Hollendinga) í lið með sér við að reyna að koma í veg fyrir að þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave 2.
Þetta skilgetna afkvæmi Svavars Gestssonar og Indriða H. Þorlákssonar, sem getið var í umboði Steingríms, verður að skjóta í kaf svo ekki fari á milli mála hver vilji þjóðarinnar raunverulega er í þessu máli.
Fréttaleki Breta sprakk framan í þá. Fjölmiðlaumfjöllun er svo til alls staðar jákvæð Íslendingum eftir í ljós kom að Bretar og Hollendingar hafa stillt dæminu upp sem hreinni og klárri fjárplógsstarfsemi.
Sé raunin sú að sett verði fordæmi með atkvæðagreiðslu á Íslandi, sem síðan gæti haft það í för með sér að aðrar þjóðir sjái sér leik á borði og heimti viðlíka ferli, þá er það einungis af hinu góða.
Leynifundur um Icesave | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
27.2.2010
Allir á móti öllum?
Hinn djúpstæði klofningur Vinstri-grænna er ekki ný staðreynd, en af einhverjum orsökum hefur mönnum ekki þótt taka því að fjalla til þessa náið um þann klofning, sem flengríður flokknum.
Það er nánast ekkert, sem flokksmenn geta verið sammála um, hvað þá að ljá eyra þeim skoðunum, sem hæst ber í samstarfsflokknum í ríkisstjórn. Þar er líka hver höndin upp á móti annarri.
Hversu bagalegt það er fyrir hag lands og þjóðar að stöðug illindi séu í fyrirrúmi innan annars stjórnarflokksins, þegar menn þurfa að einbeita sér að endurreisn og uppbyggingu, þarf ekki að tíunda.
Vinnubrögðum Steingríms J. Sigfússonar er þannig háttað, að hann hefur greinilega lítinn sem engan áhuga á að sinna starfi í þágu þjóðar; það eina, sem skiptir máli er að halda völdum. Þráhyggjupot hans í Icesave-málinu, þar sem hann taldi það skipta öllu máli að styðja við hörmulega illa grundaða ákvarðanatöku hins gamla lærimeistara, Svavars Gestssonar og félaga hans, Indriða H. Þorlákssonar, er öllum kunn og verður honum og flokki hans til ævarandi skammar. Þar hefur það skipt meira máli að hanga eins og hundur á roði í stað þess að gera sér grein fyrir einföldum staðreyndum.
Ekki er langt síðan Vinstri-grænir héldu flokksráðsfund, sem að hætti flokka af þeirri gerð lauk í mikilli einingu þar sem samkomulag tókst um afreiðslu allra ályktana.
Eitt var það þó, sem mönnum þótti vanta í ályktanasyrpu fundarins, því einhvern veg æxluðust hlutir þannig að ekki var einu aukateknu orði varið í umfjöllun um Icesave-málið. Ekki einu.
Þetta stærsta mál nútímans fékk ekki nokkra umfjöllun á meðan lopapeysudeildin fékk góðan tíma til að fjalla um líf og heilsu vaðfugla í Afríku.
Þeir eru sennilega ekki margir, sem vilja vaðfuglum í Afríku illt, en hefði ekki verið ástæða til að fjalla einnig um það mál, sem hæst ber um þessar mundir.
Hrunið var skelfilegt, en það, sem á eftir kemur, með Vinstri-græna í ráðandi hlutverki, er litlu betra.
Djúpstæður klofningur hjá VG | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.2.2010
Þegar skýrslan kemur, þá kemur hún...
Mikil lifandis ósköp á ég erfitt að átta mig á þessum taugatitringi vegna seinkunar á úrkomu skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis.
Það er ljóst að hún kemur út og hvort það verður a morgun, eftir viku, tvær vikur, jafnvel mánuð, held ég að skipti akkúrat engu máli. Skipti a.m.k. það litlu máli að lítil sem engin ástæða sé fyrir einn eða neinn að fara á taugum útaf málinu. Helzt virðast það nú vera ljósvakamiðlarnir, sem sturlast af forundran og heilagri vandlætingu yfir seinkun plaggsins.
Það er nú einu sinni þannig að ekki er verið að véla um einhver smámál; hrun íslenzks hagkerfis og aðdraganda þess með öllu því, sem kom í kjölfar hrunsins og varðar okkur öll.
Heldur vil ég sjá vel unna skýrslu, sem kemur kannski einhverjum vikum síðar út en lofað var í upphafi, en eitthvert bráðræðisplagg, gefið út í ofboði.
Hér er vandað fólk að sinna vandaðri vinnu.
Eigum við ekki að halda ró okkar?
Skýrslunni enn frestað | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |