Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
26.7.2009
Sammála Jóni í fyrsta sinn
Ég man ekki eftir neinu tilviki þar sem ég hef verið sammála Jóni Bjarnasyni, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, en það hlaut að koma að því. Er karlinum hjartanlega sammála að öðru leyti en því að ég hika ekki við að láta í ljósi þá skoðun að ferlið eigi að slá af fyrir fullt og allt. Þykist nú vita að Jón mundi taka undir það.
Og nú hafa Evrópusinnarnir sturlazt úr svekkelsi og láta móðan mása, hver á sínum vettvangi, um ómögulegheitin í Jóni Bjarnasyni.
Ég segi bara: Mæltu manna heilastur, Jón Bjarnason. Það er nokkuð ljóst að annað hvort hangir þessi blessuð vinstristjórn ekki saman mikið lengur, nú eða þá að fenginn verður nýr maður í stól sjávarútvegs- og landbúnaðarmála. Njóttu þín meðan þú getur, Jón.
Vill fresta umsóknarferli ESB | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
25.7.2009
Nýjar leikreglur
Er það viðunandi að reglunum sé breytt í miðjum leik?
Er það ósanngjarnt að krefjast þess að farið sé eftir þeim reglum, sem settar voru í upphafi?
Hver er það, sem krefst þess að reglunum sé breytt?
Vill að AGS leggi spilin á borðið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
25.7.2009
„Tær snilld“ - lifum við þetta af?
[Þ]að dregur mjög mikið úr lífsgæðum, segir Daniel Gros, framkvæmdastjóri Center for European Policy Studies.
Í Morgunblaðinu eru átta aðilar spurðir fimm spurninga um afleiðingar þess að staðið verði við Icesave-samninginn, sem þeir snillingar Svavar Gestsson og Indriði H. Þorláksson, gerðu á dögunum við ofjarla sína í Hollandi og Bretlandi.
Þessum fimm spurningum er stillt upp með stóru letri og í þessum óþægilegu Icesave-litum, þvert yfir síðu og svara sérfræðingarnir þeim svo lið fyrir lið á þremur síðum.
Svar Daniels Gros við spurningu númer eitt er m.a. að það dragi mjög mikið úr lífsgæðum og allir eru svarendur nokkurn veginn sammála í svörum sínum um það, hver áhrifin verði á lífskjör í landinu - daglegt líf landsmanna, spurningu númer fjögur.
Lífskjör munu versna og af svörunum má ráða að lakari lífskjör með hærri sköttum og lægri ríkisútgjöldum verði viðvarandi um allmörg ár. Ekki reyna menn að tíunda þetta árabil, enda væri slíkt fásinna, en ljóst er að um verður að ræða langt tímabil verulega mikið lakari lífskjara en Íslendingar voru orðnir vanir.
Spurt er, hvort lífeyrissjóðirnir yrðu þjóðnýttir. Allir nema einn svarenda telja það ólíklegan eða afleitan kost. Sá eini, sem ekki lagði í að svara þessu, sagði þetta vera vandamál, sem væri á borði stjórnmálamanna og ekki væri um að ræða nokkrar forsendur til að svara slíkri spurningu. Heldur klént af hálfu hagfræðings að reyna ekki einu sinni að leggja mat á inntak þessarar spurningar.
Hér er um að ræða forvitnilega umfjöllun um afleiðingar Icesave. Mat sérfræðinganna er, í stuttu máli, að þær séu slæmar; mjög slæmar.
Þannig er nú komið fyrir okkur. Það er mat svarenda Morgunblaðsins að, jú, líklega munum við lifa þetta af, en ekkert má útaf bera. Aflabrestur gæti t.d. alveg farið með okkur. Léleg hagstjórn væri ávísun á hörmungar. Lífinu verður lifað alveg úti í kanti.
Þá væri gaman að heyra í þeim bankastjóra Landsbankans, sem nefndi þessar innlánaveiðar tæra snilld. Hann er líklega enn bara nokkuð brattur, eða hvað?
Icesave: Gæti stefnt í óefni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Það er viðtal við Indriða H. Þorláksson, annan helzta Icesave-samningamanninn, í Morgunblaðinu í dag. Í viðtalinu lýsir Indriði undrun sinni á því að Íslendingar kunni ekki að greina aukaatriði frá aðalatriðum. Með viðtalinu er mynd þar sem samninganefndarmaðurinn virðist horfa góðlátlega til þessara kjána, sem hafi látið leiðast út í sparðatíning, upphrópanir og órökstuddar fullyrðingar.
Það má vel vera að tveir til þrír milljarðar króna, sem pukrazt hefur verið með, séu sparðatíningur í huga samninganefndarmannsins; aðrir, raunar flestir, deila ekki þessari skoðun með honum. Það er kannski þess vegna sem menn hafa lagzt í upphrópanir og séu með órökstuddar fullyrðingar.
Landsmenn eiga erfitt með að skilja hvers vegna mál á borð við þetta ríflega uppgjör við Breta er að koma upp á yfirborðið, svona rétt fyrir hendingu. Þess vegna koma upphrópanir.
Samninganefndarmanninum svíður það að sáð hafi verið tortryggnisfræjum um hæfileika nefndarmanna á veikum grunni og í reynd rógsígildi.
Ég get varla stillt mig um að spyrja samninganefndarmanninn hvað eigi að halda um öfluga og reynda nefndarmenn, sem láta bjóða sér aðra eins vitleysu og þennan gjörning. Hæfileika á hvaða sviði er samninganefndarmaðurinn að tala um?
Niðurlægjandi ákvæði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
24.7.2009
Meirihlutinn gengst við sjálfsögðum hlut
Það var mikið að Alþingi verður við áður fram komnum kröfum um að meta áhrif Icesave-skelfingarinnar á faglegan máta.
Ég man ekki betur en að Pétur H. Blöndal, alþingismaður, hafi þegar lagt fram spurningar um hvort gerð hafi verið næmnisgreining á endurheimtuhlutfalli útistandandi lána Landsbankans.
Aðrir þeir þættir, sem líta verður til, og Hagfræðistofnun Háskóla Íslands hefur tekið að sér að vinna, eru af slíkri grundvallargerð, að ekki hefði átt að taka í mál að afgreiða Icesave fyrr en á hreint væri komið, hvernig þeir féllu að íslenzku efnahagslífi í nútíð og framtíð.
Þetta er ósk minnihlutans og við urðum við henni. Töldum það vera mikilvægt fyrir málið að ná sátt. Það er auðvitað forsendan, segir Guðbjartur Hannesson, formaður Fjárlaganefndar Alþingis.
Auðvitað á að fara að kröfu minnihlutans þegar fram koma sanngjarnar kröfur um málsmeðferð, en er formaðurinn með þessu að segja, að þessi leið sé ekki líka leið meirihlutans? Getur það verið, að meirihlutinn í Fjárlaganefnd sé sáttur við að láta Icesave-málið fara í gegnum þingið án þess að allar hliðar þess hafi verið kannaðar til þrautar?
Það er erfitt að trúa því, en líklega er það nú samt satt.
Rýnir í gögn vegna Icesave | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.7.2009
Banki hverra?
Norræni fjárfestingabankinn (NIB) er, að sjálfsögðu, rekinn með hagnaðarsjónarmið í huga, þegar til heildar og lengri tíma er lítið. Enginn gerir ráð fyrir að bankastofnun sé rekin sem góðgerðastofnun.
Hagnaður NIB á fyrsta ársfjórðungi þessa árs nam 91 milljónum evra, eða rúmum 16 milljörðum króna. Í tilkynningu, sem kom með uppgjöri bankans var gert ráð fyrir stöðugleika á afkomu hans það sem eftir lifði árs.
Bankinn tapaði 280 milljónum evra á síðasta ári eða rúmlega 50 milljörðum króna. Helmingur tapsins eða um 145 milljónir evra, er rakinn til viðskipta við Ísland.
Ísland er greinilega talið vera of hættulegur kostur fyrir lánasafn þessarar fjölþjóðlegu, norrænu fjármálastofnunar, en einhvern veginn læðist að manni sá óþægilegi grunur að frekar sé litið til Íslands sem verkefnis, sem þurfi að lemja til hlýðni við ESB og AGS, en að litið sé til raunverulegra og eðlilegra þarfa landsins sem lántakanda við erfiðar aðstæður.
Tímasetningin á yfirlýsingu bankans er með ólíkindum.
Telja verður meira en líklegt að NIB hafi séð ástæðu til að taka undir með sósíalistunum á Íslandi og bæta þannig við enn einni hótuninni.
Hættir að lána Íslendingum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.7.2009
Minn banki hvarf líka
Ég átti líka viðskipti við banka, sem hvarf, þannig að fréttin um bankahvarfið í Úganda kemur mér ekkert sérlega mikið á óvart.
Í mínum banka voru líka svikahrappar á ferð.
Ég var búinn að eiga viðskipti við þennan banka frá því skömmu eftir fæðingu; þetta var orðin löng viðskiptasaga.
Minn banki hefur líka verið færður á nýjan stað. Hann er nú hjá ríkinu.
Ég og mínir líka töpuðum miklu fé á bankanum mínum; tugþúsundir Íslendinga og við höldum áfram að tapa. Nú bendir allt til að við töpum miklu meira fé en sem nam innstæðunum okkar.
Bankinn sem hvarf | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
22.7.2009
Leysa beri Icesave á siðmenntaðan hátt
Steingrímur J. Sigfússon kveðst telja að finna verði leiðir til að leysa Icesave-málið á siðmenntaðan hátt.
Þessi siðmenntaða afstaða til meðferðar mála hefur þó verið lítt sýnileg innan veggja Alþingis þar sem fjármálaráðherrann hefur beitt samflokksmenn sína slíkum kúgunum að þeir þora ekki að fylgja yfirlýstri sannfæringu sinni, bóka sig út og kalla inn varamann til að greiða atkvæði í nefnd.
Þetta er siðmennt ráðherrans, sem síðan, sama dag, kvartar yfir yfirgangi Breta við brezkt dagblað.
Fjallað um reiði Íslendinga | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
22.7.2009
Efnahagsleg örorka
Loftfimleikaæfingar til heimabrúks segir leiðtogi vinstri-grænna.
Það getur vel verið að utanríkisráðherra Hollendinga telji sig geta notað ræfildóm íslenzku ríkisstjórnarinnar sér til gagns og frama, en hann lítur fram hjá þeirri einföldu staðreynd að verið er að hóta Alþingi Íslendinga, hvaða nafni sem hann kýs að nefna þessi ummæli Hollendingsins.
Steingrímur J. kýs líka að líta fram hjá þeirri staðreynd að sá hollenzki hringdi í starfsbróður sinn á Íslandi og gerði honum það deginum ljósara að ef menn ekki gjörðu svo vel og gerðu það, sem til væri ætlazt, væri loku fyrir það skotið að umsóknin fína fengi neina þá meðferð, sem greinilega væri óskað eftir af íslenzkri ríkisstjórn.
Mér er nákvæmlega sama um það, hver áhrif þessi orð hafa á umsóknarferlið; vildi helzt að þau yrðu til að kæfa það fyrir fullt og allt. Mér er, hins vegar, ekki sama þegar farið er að hóta Íslendingum því að ef þeir geri ekki það, sem Hollendingar (og Bretar) leggja fyrir, og verður þess valdandi að landið fer á hausinn; getur ekki greitt og verður efnahagslega farlama um aldur og ævi.
Verði efnahagslegur öryrki.
Loftfimleikar til heimabrúks | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Það getur ekki verið auðvelt að vera stjórnarþingmaður þessa dagana vitandi að verið er að keyra áfram ómögulegan samning, sem lýkur með því að setja landið endanlega á hausinn.
Nú virðist það vera hlutverk Samfylkingarinnar, og beygðra þingmanna vinstri-grænna, að taka við þar sem fjármálafurstarnir urðu að láta staðar numið.
Þingmönnum vinstri-grænna, sem ætla má að hafi manndóm í sér til að vera á öndverðum meið við boðvald Steingríms J. er get að vera heima, svo hægt sé að kalla inn þá, sem greiða honum þóknanlega atkvæði.
Alþingi er hótað af erlendri ríkisstjórn, en stjórnarliðar virðast ætla að láta slík smáatriði sér í léttu rúmi liggja.
Því allt snýst þetta um að gera Samfylkingunni til geðs og greiða leiðina í Evrópusambandið.
Sama hvað það kostar.
Óttaslegin utanríkismálanefnd | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |