Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Eigum við þetta skilið?

Það ganga margar sálir daprar til rekkju í kvöld.

Þeir voru allnokkrir þingmennirnir, sem glottu við tönn þegar þeir greiddu atkvæði með þeim óskapnaði, sem Icesave-frumvarpið (nú Icesave-lög) var. Einn þeirra, sem hvað stærsta glottinu flaggaði var utanríkisráðherrann, Össur Skarphéðinsson.

Sumir aðrir samfylkingarmenn voru hófstilltari í afgreiðslu sinni og báru þess merki að þeir gengu gegn samvizku sinni með því að ljá frumvarpinu atkvæði sitt. Þar fór ekki á milli mála að ofbeldi flokksforyztu samfylkingarinnar hafði haft betur en samvizkan.

Enn aðrir stjórnarþingmenn höfðu í sér þá döngun að greiða atkvæði gegn frumvarpinu.

Sjálfstæðismenn og Framsóknarmenn stóðu gegn þessu þinglega afstyrmi, allir sem einn. Þeirra hróður mun lengi lifa. 

 

 

 


mbl.is Alþingi samþykkti Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ummæli ársins á Svavar Gestsson

Það skiptir skelfing litlu máli þó formanni fjárlaganefndar, samfylkingarmanninum Guðbjarti Hannessyni, sé misboðið.

Það skiptir yfir höfuð engu máli hvað stjórnarliðum finnst um framgang þess mesta hneykslis Íslandssögunnar, sem Icesave-klúðrið er.

Um það er ekki deilt að það voru forkólfar Landsbankans, sem komu þjóðinni í þá verstu fjárhagsklípu, sem hún hefur lent í frá upphafi vega. Það féll hins vegar í hlut stjórnmálamanna að reyna að losa þjóðina úr þessari klípu, eða a.m.k. að gera hana eins bærilega og unnt væri.

Þeir pólitíkusar, sem tóku að sér að sinna björgunarstarfinu féllu eins illa á þeirri prófraun og unnt er að ímynda sér og hafa frá upphafi gert lítið annað en berjast við eitt klúðrið þegar öðru lýkur.

Klúður ársins átti þó formaður samninganefndar þeirrar, sem hafði það hlutverk að lágmarka tjón Íslendinga, Svavar Gestsson, fyrrverandi þingmaður og ráðherra Alþýðubandalagsins. lærifaðir Steingríms J. Sigfússonar. Þegar ljóst var að Bretar og Hollendingar höfðu teflt fram raunverulegum og hörðum samningamönnum, mönnum, sem kunnu til verka, sá íslenzki nefndarformaðurinn engan kost annan í stöðunni en að gefast upp. Í stað þess að berjast til síðasta blóðdropa lét þessi snillingur á sviði samningamála hafa þessi orð eftir sér í Morgunblaðinu í júní sl.: „Ég var nú bara orðinn leiður á að hafa þetta hangandi yfir mér.“

Þarna lét hann orð falla, sem munu lifa í samhengi mannleysis og ræfildóms svo lengi sem land byggist. Þetta eru einnig ummæli ársins, sem er að líða. Þess er örugglega langt að bíða að önnur eins fíflska heyrist eða sjáist á prenti.  


mbl.is Guðbjarti misboðið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svavar klikkar eins og venjulega

Það æti ekki að koma neinum á óvart að fyrrverandi formaður samninganefndar um Icesave-mál komi ekki á fund fjárlaganefndar.

Þessi fyrrverandi þingmaður Alþýðubandalagsins, sem vældi út stöðu sendiherra þegar hann nennti ekki að sitja lengur á Alþingi, er án efa sá Íslendingur, sem „samið“ hefur verst fyrir hönd Íslendinga. Þessi guðfaðir vinstri-grænna og lærimeistari núverandi fjármálaráðherra lauk ekki „samningagerð“ um Icesave-mál vegna þess að málið væri í höfn eða þá að ekki varð lengra komizt. Hann ákvað að láta málinu lokið, í samkrulli með núverandi aðstoðarmanni fjármálaráðherra, Indriða H. Þorlákssyni, vegna þess að hann „nennti ekki að hafa þetta hangandi yfir sér lengur“.

Þessi viðvarandi leti lærimeistara Steingríms J. Sigfússonar ætlar að verða Íslandi dýr. Mér  dettur helzt í hug að lærimeistarinn telji sér ekki fært að verja letiköst sín og afleiðingar þeirra fyrir þingnefnd.

Lærimeistarinn ætti erfitt með að gera grein fyrir sinni eilífu skömm þegar til þess kæmi að hann yrði að honum væri gert að gera grein fyrir þeim alvarlegu ávirðingum, sem á hann eru bornar.

Hann á sér enga vörn.

 


mbl.is Svavar neitaði að mæta á fundinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvers vegna ekki íslenzka?

Það er nú ekki oft sem ég sé ástæðu til að vera sammála núverandi forseta Alþingis, sem hefur haft einstakt lag á að brussast í stjórnunarstörfum sínum á þingi með yfirgangi og látum.

„Slettur“ eiga hvergi við og ef menn vilja segja meiningu sína, sérstaklega á Alþingi, eru þeir ekkert of góðir til að nota til þess góða og gilda íslenzku.

Ég er sammála Tryggva Þór um álit hans á málflutningi margra stjórnarliða; ég er hins vegar ekki sammála honum um orðavalið við að lýsa þessum hráskinnaleik.

Es. Ég stend í þeirri trú að sögnin að „brussast“ sé ásættanleg íslenzka!


mbl.is Bannað að segja „djók“ á þingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skjaldborg um heimilin ... helferðarstjórn

Var það ekki akkúrat í anda „velferðarstjórnarinnar“, sem hafði það að leiðarljósi að stefna að „norrænu velferðarsamfélagi“, hvað sem það nú þýðir, að hækka neyzluskatta. Hækka skatta á grunnþarfir heimilanna, sem heitið var að slegin skyldi skjaldborg um.

Hefur þá „velferðarstjórninni“ tekizt að setja heimsmet í sköttun neyzluvarnings.

Betur væri við hæfi að nefna þetta ráðlausa gengi, sem nú situr í stjórnarráðinu Helferðarstjórnina.

 


mbl.is Heimsins hæsti skattur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óviðjafnanlegir jafnaðarmenn ... og Egill Helgason

Fyrirsögn þessarar færslu er fengin að láni frá Staksteinum Morgunblaðsins í gær, föstudaginn 18. desember. Ekki var beðið sérstaklega um lánið, en vonandi verður sú yfirsjón virt til betri vegar.

Ástæða þess að fjallað er um þessa sérlega beittu útgáfu Staksteina er sú að skrifari á Facebook sá ástæðu til að birta niðurlag greinarinnar á heimasvæði sínu. Dáðst er jafnt að stíl sem innihaldi Staksteina.

Á þessu stigi málsins kemur Egill Helgason til sögunnar eins og hver önnur Silfurskotta og fer mikinn, en inntak viðbragða hans er taugatitringur og svekkelsi þegar fjallað er um jötusækni samfylkingarfólks. Segir hann að það sé „sorgleg blinda og furðulegt að einhver skuli lepja þetta upp.“

Það er nú svo. Hver er sú sorglega blinda, sem myndbirtist í því að m.a. er um það fjallað að einn af fyrrverandi starfsmönnum Landsbankans (hann sá um fjárstýringu á þeim bænum, góðu heilli) sé búið pláss á jötunni hjá samfylkingunni og því er velt upp hvort verið geti að sá hinn sami sérfræðingur í fjárstýringu hafi verið fenginn til að skrifa ræður fyrir ráðherra sinn, Árna Pál Árnason.

Ég fæ ekki stillt mig um að birta þetta niðurlag Staksteina, sem virðast hafa farið svo illa fyrir brjóstið á Agli Helgasyni, sérstaks hagsmunagæzlumanns samfylkingarinnar:

„Skemmtilegast þætti þó Staksteinum að vita hver skrifar ræðurnar fyrir Árna Pál. Það þætti útgerðarmönnum og bændum gaman að vita líka. Skyldi það vera Yngvi Örn, sem sá um fjárstýringu fyrir Landsbankann gamla og þáði ekki nema sex milljónir á mánuði fyrir samkvæmt tekjublaðinu? Það hljóta að teljast bærileg laun, ekki síst með hliðsjón af því hvernig fór. Það er verulega gaman að því að sjá hvað þessir jafnaðarmenn hafa að jafnaði haft það jafnvel betra en almenningur og hvað þeir voru að jafnaði fljótir að jafna sig og rata á jötuna aftur. Það er eitthvað svo sætt og jólalegt við það að sækja svona fast í jötuna.“

Svo mörg eru nú þau orð, sem eiga líklega eftir að valda ofannefndum Agli svefnleysi.

 


Kæru landsmenn ... brandari ársins

Sjálfsagt er ekki nema gott eitt við það að Landsbankinn skuli vera formlega kominn á lappirnar aftur. Þessi banki allra landsmanna, sem átti stærstan þátt í að setja þjóðfélagið, alla landsmenn, á hausinn með Icesave-ævintýri sínu.

Í tilefni „endurreisnar“ Landsbankans hafa svo verið keyptar heilsíðuauglýsingar og er þar farið fögrum orðum um hve uppbyggilegur Landsbankinn ætli sér að vera í framtíðinni; að sjálfsögðu er ekkert minnst á fortíðina.

Fyrir sína hönd, stjórnar og starfsfólks ritar svo bankastjórinn nafn sitt af mikilli vandvirkni. 

Það er þessi yfirlýsing bankastjórans, sem vekur ekki endilega kátínu (það er ekkert fyndið við Landsbbankann), heldur miklu fremur forundran. Þessi forundran, sem fljótt umhverfist í hrossahlátur, er til komin vegna þeirra faguryrða, sem stjórinn lætur falla á prenti. 

Þessi Norður Kóresku faguryrði eru einkum þau „[g]ildi sem starfsfólkið hefur sameinast um að gera að leiðarstefi sínu...“

Gildiseiningarnar í leiðarstefinu eru semsé Virðing, Heilindi (!), Fagmennska (sic) og, nú skulið þið halda ykkur, Eldmóður. Ég myndi fara varlega þegar starfsmenn Landsbankins fara að sýna eldmóð. Síðast þegar eldmóður greip starfsfólkið var verið að selja peningamarkaðsbréf af mikilli fagmennsku í slagtogi við heilindi og virðingu.


mbl.is Fjárbinding upp á 184 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Traustur maður

Kjartan er traustur maður, sem unnið hefur af krafti og heilindum.
mbl.is Kjartan stefnir á annað sætið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ættargleymska

Betra er seint en aldrei. Eða hvað?
mbl.is Bók skilað 99 árum of seint
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er fagnað á fullveldisdegi?

„Icesave-samningarnir við Breta og Hollendinga  og meðferð þeirra í höndum ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar er alvarlegasta glappaskot íslenskra stjórnvalda í samskiptum við aðrar þjóðir frá 1918. Ástæðulaust er að deila um ástæður eða aðdraganda samninganna.  Málsmeðferð fram að 1. febrúar 2009, þegar þau Jóhanna og Steingrímur J. settust að völdum, er ekki hulin neinum leyndarhjúpi. Hvað svo menn segja um hana, verða þeir að hafa burði til að greina á milli þess og síðan hins, sem birtist í samningum Svavars Gestssonar og félaga, sem voru kynntir fyrir alþingi 5. júní 2009 og þau Jóhanna og Steingrímur J. vildu og virtust sannfærð um, að rynnu þegjandi og hljóðalaust í gegnum þingið. Að minnsta kosti þótti þingflokki Samfylkingarinnar varla taka því að ræða málið.“

Hér vísa ég í skrif Björns Bjarnasonar um æviminningar séra Sigurðar Stefánssonar, prests og alþingismanns, Vigurklerkurinn, sem Sögufélag Ísfirðinga gefur út.

Undir lok greinar sinnar segir Björn:

„Ríkisstjórnin stefnir að þrennu: 1) að blóðmjólka þjóðina og fyrirtæki með háum sköttum í því skyni að örva hagkerfið; 2) treysta stöðu Íslands í alþjóðasamfélaginu með því að leggja ofurþungar Icesave-byrðar á þjóðina; og 3) styrkja fullveldið með því að afsala sér því innan Evrópusambandsins undir Lissabon-stjórnarskránni, sem tekur gildi 1. desember 2009.

Sigurður prestur sagði um sambandslögin frá 1. desember 1918:  „Máttu þetta teljast hin mestu og bestu tíðindi, sem nokkurn tíma höfðu gjörst í stjórnmálasögu Íslands.“

Nú 1. desember 2009 stöndum við frammi fyrir verstu ótíðindum stjórnmálasögunnar og verður skömm þeirra, sem knýja þau fram, jafnmikil og þakklætið til þeirra, sem stóðu að sambandslögunum 1918.“

Það er ekki miklu við þetta að bæta.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband