Ummæli ársins á Svavar Gestsson

Það skiptir skelfing litlu máli þó formanni fjárlaganefndar, samfylkingarmanninum Guðbjarti Hannessyni, sé misboðið.

Það skiptir yfir höfuð engu máli hvað stjórnarliðum finnst um framgang þess mesta hneykslis Íslandssögunnar, sem Icesave-klúðrið er.

Um það er ekki deilt að það voru forkólfar Landsbankans, sem komu þjóðinni í þá verstu fjárhagsklípu, sem hún hefur lent í frá upphafi vega. Það féll hins vegar í hlut stjórnmálamanna að reyna að losa þjóðina úr þessari klípu, eða a.m.k. að gera hana eins bærilega og unnt væri.

Þeir pólitíkusar, sem tóku að sér að sinna björgunarstarfinu féllu eins illa á þeirri prófraun og unnt er að ímynda sér og hafa frá upphafi gert lítið annað en berjast við eitt klúðrið þegar öðru lýkur.

Klúður ársins átti þó formaður samninganefndar þeirrar, sem hafði það hlutverk að lágmarka tjón Íslendinga, Svavar Gestsson, fyrrverandi þingmaður og ráðherra Alþýðubandalagsins. lærifaðir Steingríms J. Sigfússonar. Þegar ljóst var að Bretar og Hollendingar höfðu teflt fram raunverulegum og hörðum samningamönnum, mönnum, sem kunnu til verka, sá íslenzki nefndarformaðurinn engan kost annan í stöðunni en að gefast upp. Í stað þess að berjast til síðasta blóðdropa lét þessi snillingur á sviði samningamála hafa þessi orð eftir sér í Morgunblaðinu í júní sl.: „Ég var nú bara orðinn leiður á að hafa þetta hangandi yfir mér.“

Þarna lét hann orð falla, sem munu lifa í samhengi mannleysis og ræfildóms svo lengi sem land byggist. Þetta eru einnig ummæli ársins, sem er að líða. Þess er örugglega langt að bíða að önnur eins fíflska heyrist eða sjáist á prenti.  


mbl.is Guðbjarti misboðið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband