Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Jæja. Og hve oft hefur verið á þetta minnzt?

Það er ekki alveg á hreinu hve oft hefur verið á það minnzt á þessum vettvangi að þeir félagar Svavar Gestsson og Indriði H. Þorláksson hafi samið illa af sér, en það er oft.

Því hefur jafnoft verið haldið fram af stjórnvöldum að ekki hefði verið nokkur flötur á að ná betri samningum en þeir gerðu snillingarnir í umboði lands og þjóðar. Hæst hefur heyrzt í Steingrími J. Sigfússyni, sem ekki hefur látið neitt tækifæri ónotað til að lofsyngja þessa félaga sína fyrir einstaka hæfileika þeirra við að ná fram snilldarsamningum fyrir okkur hin.

Enn er Indriði hafður til brúks í Fjármálaráðuneytinu þar sem hann hefur það nú að aðalstarfi að eyðileggja staðgreiðslukerfi skatta.

En, hvað um það. Það munar um 185 milljarða.

Það er líka munur á 1,5% vöxtum og 5,5% vöxtum. Það þarf endilega að koma þessu á framfæri við þá vini í ráðuneytinu.

 


mbl.is Gæti sparað 185 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sá yðar, sem syndlaus er ...... 37% mæting

Þegar menn fara og segja öðrum til syndanna, að ekki sé talað um að það sé gert á opinberum vettvangi, með fyrirferð og bægslagangi, ættu viðkomandi að líta fyrst í eigin barm og kanna sína stöðu.

Við lauslega skoðun hefur komið í ljós að oddviti samfylkingarinnar í borgarstjórn Reykjavíkur hefur ekki beint verið einn þeirra, sem státað geta af 100% mætingu, t.d. í stjórn Faxaflóahafna. Af ellefu fundum, sem haldnir hafa verið, hefur varaformaður samfylkingarinnar setið fjóra.

Ég endurtek: Fjóra. Það reiknast sem 37% mæting. Á sjö fundi hefur orðið að kalla til varamann með þeim kostnaði, sem slíku fylgir.

Áður en menn fara að andskotast í öðrum með mætingu á fundi, sem þeir vissulega ættu þó að sinna, ættu þeir að líta í eigin barm og kanna eigin stöðu.

Mætingardæmi varaformannsins og oddvitans er engan veginn lokið.

 


mbl.is Mæting Sigmundar Davíðs gagnrýnd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Farið hefur fé betra!

Ekki átta ég mig á því ramakveini, sem rekið er upp vegna brotthvarfs McDonald´s frá Íslandi.

Þarna hafa verið seldir hamborgarar, sem, satt að segja, eru (voru) lítið til að hrópa húrra fyrir.

Þetta ættu að vera góðar fréttir þeim, sem geta boðið uppá raunverulega borgara.

Þar nægir að benda á hamborgarabúllu Tómasar. Þar fást alvöru borgarar!

 


mbl.is McDonald's hættir - Metro tekur við
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kontóristar að verki

Sjaldan hefur þurft jafn marga til að undirrita jafn ómerkilegan gjörning.

Það hefur þótt við hæfi að hafa fulltrúa Hollendinga og Breta á kontórnum í fjármálaráðuneytinu til að fullkomna siðleysið.

Samningur Svavars Gestssonar og Indriða H. Þorlákssonar er nú orðinn að veruleika; lítið breyttur.


mbl.is Kvittað fyrir Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hagar „gera upp lán“

Einhver furðulegasta frétt úr viðskiptalífinu (fyrir utan mettap Exista) var í þá átt að Hagar, móðurfélag meirihluta smásöluverzlunar á landinu, hefðu gert upp skuldir sínar.

Þannig var það látið hljóma í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Hvernig var lánið svo gert upp?

Jú, með því að taka annað lán, sem reyndar er háð áreiðanleikakönnun. Verið var að ganga frá skuld upp á litla sjö milljarða.

Þetta hefur líklega valdið miklum fögnuði hjá þeim Hagamúsum, en síðan kemur í ljós að móðurfélag móðurfélagsins skuldar enn um þrjátíu milljarða króna vegna kaupa á móðurfélaginu.

Snillingar.


mbl.is Endurfjármögnun Haga lokið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lúffað eins og hægt er

Lagalegur réttur Íslendinga er endanlega fokinn út í buskann.

Bretar og Hollendingar fá allt sitt kröfufé með vöxtum, sem er einsdæmi þegar gerð eru upp þrot aðila er lögðu fé sitt vísvitandi í áhættusamari ávöxtun en um var að ræða almennt.

Um hvað finnst mönnum að hafi verið samið og hvað er það, sem vinstri stjórnin sér ástæðu til að vera svo yfir sig hamingjusöm með?

Þegar upphaflegu samningarnir voru undirritaðir af snillingunum Svavari Gestssyni og Indriða H. Þorlákssyni var það ekki sízt vegna þess að þeir, a.m.k. Svavar Gestsson, „nenntu ekki að hafa þetta hangandi yfir sér lengur.“

Það sama hefur nú gerzt í framhaldinu. Hin ofursnjöllu, íslenzku stjórnvöld hafa einfaldlega gefizt upp fyrir Bretum og Hollendingum. Þau hafa komizt að þeirri niðurstöðu að það væri ekki hægt að hafa þetta hangandi yfir sér lengur. Þessi fullyrðing mín er síður en svo neinn hugarburður, því ljóst er að spunakringlur samfylkingarinnar eru allar komnar í gang með sama sönginn. Ráðandi lína í þeim söng er að „þessu verður að ljúka.“ Auðvitað varð þessu einhvern tíma að ljúka, en þurfti því endilega að ljúka með algjörri og smánarlegri uppgjöf? 

 

 


mbl.is Óviðunandi niðurstaða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aum og endanleg uppgjöf

Þá hefur vinstri teymið endanlega gefizt upp.

Enginn þarf svo sem að vera undrandi á þessum lokum því spunakringlur samfylkingarinnar hafa haft sig mikið í frammi.

Þeirra framleidda staða hefur verið sú að „þessu verði að fara að ljúka“. Í þá átt vældi formaður samfylkingarfélags Reykjavíkur, Helga Vala Helgadóttir í útvarpsþættinum á Sprengisandi í morgun.

Nú lýkur þessu með aumri uppgjöf.

 


mbl.is Lengra varð ekki komist
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Og enn er Steingrímur ánægður

Haft er eftir utanríkisráðherra að svo virðist sem flestir þeir lagalegu fyrirvarar, sem settir voru af Alþingi vegna ríkisábyrgðarinnar, hefðu haldið.

Það er gott að menn geti glaðst yfir litlu.

Steingrímur er, hins vegar, ánægður.

Það má ekki gleymast að Steingrímur hefur alltaf verið hæstánægður með þessa nauðungarsamninga við Hollendinga og Breta, allt frá því að hann lýsti því yfir að Svavar Gestsson og Indriði H. Þorláksson væru á leiðinni heim með glæsilega niðurstöðu.

Það var líka þessi sami Steingrímur, sem lýsti því yfir í fússi á Alþingi að fyrirvarana hefði átt að samþykkja þó fyrr hefði verið“. Úr þeim orðum mátti lesa að helzt hefði átt að samþykkja samningsgjörðir Svavars og Indriða óskoðaðar og óræddar, eins og til stóð að gert yrði.


mbl.is Lagalegir fyrirvarar halda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Niðurstaða: Auknar byrðar?

Forystumenn ríkisstjórnarflokkanna munu telja sig hafa meirihluta á þingi fyrir málinu segir í frétt þeirri, sem lagt er út af.

Einnig er frá því greint að íslenzk stjórnvöld hafi fallizt á að breyta fyrirvörum þeim, sem mánuði tók að berja saman á Alþingi sl. sumar og að Íslendingar taki á sig byrðar umfram það, sem þessir fyrirvarar gerðu ráð fyrir.

Ef þetta er niðurstaða, sem gert er ráð fyrir að þjóðin gleypi, þá held ég að ríkisstjórnin sé firrtari veruleika en nokkur hefur látið sér detta í hug.

 


mbl.is Icesave-fyrirvörum breytt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einmitt; hver er fréttin?

Í æðibunugangi spunakringla samfylkingarinnar hefur ekkert verið sparað til að koma höggi á Morgunblaðið eftir að nýir ritstjórar komu til starfa.

Meiningin með ráðningu nýju ritstjóranna var að koma skikki á rekstur blaðsins, sem var ekki á leið neitt nema niður á við undir stjórn þess, sem áður var við stjórnvölinn og réð einfaldlega ekki við sitt verk.

Svo láta fjórir blaðamenn af störfum þar sem þeir hafa fundið sér annan starfsvettvang, en spunakringlurnar hefja mikinn darraðardans og segja allt á leið til fjandans vegna þess að Davíð Oddsson hafi verið ráðinn annar tveggja ritstjóra blaðsins.

Spuninn heldur áfram.


mbl.is Yfirlýsing vegna fréttar RÚV
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband