Engisprettufaraldur

Það er ekki að sjá annað en að þetta tríó, sem flutti með sér bjórpeninga frá Rússlandi, hafi farið sem engisprettufaraldur um íslenzkan efnahag.

Svo mikil var trúin á fjármálafurstana að allir helztu lífeyrissjóðir landsins kepptust við að eiga við þá viðskipti og fengu ekki nóg.

Eins kepptust peningamarkaðssjóðir bankanna við að kaupa skuldabréf af snillingunum.

Eftir yfirreið þessara herramanna verður það að teljast kraftaverk að eftir standi, yfir höfuð, nokkrir virkir sjóðir á landinu; slíkur var ákafinn við að ryksjúga hvern krók og kima, sem telja mátti að væri hægt að plata til að kaupa skuldabréf.

Að láta sér svo detta í hug að fara þess á leit við íslenzkan banka að fá allt að helmings afslátt af skuld, sem stofnað var til vegna kaupa á öðrum banka er með slíkum endemum að það tekur ekki nokkru tali. 

Það er komið nóg af ykkur, ágætu herramenn. Greiðið ykkar skuldir og látið ykkur síðan hverfa.

 

 


mbl.is Sýndu Samson mikið traust
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óheppnir Rússar

Það á ekki af herjum Rússlands, þessa fyrrverandi heimsveldis, að ganga.

Í lok maí bárust fréttir af því að rússneski sjóherinn hefði orðið fyrir því að einn af tundurspillum hans hefði gert stórskotaliðsárás á lítið þorp í eigin landi.

Nú berast fréttir af því að Rússar hafi sjálfir verið valdir að því að skjóta niður helming þeirra flugvéla, sem var grandað í stríði þeirra við Georgíu fyrir tæpu ári síðan.

Ég held það fari að verða lítil þörf á að æsa sig yfir komu rússnesku bjarnanna inn í íslenzka lofthelgi nema þá helzt að hafa áhyggjur af því að þeir fljúgi hver á annan.

Þeir gætu þá orðið þess valdir að kalla þurfi út þyrlu frá Landhelgisgæzlunni til að kanna slysstað og reyna björgun vaskra rússneskra herflugmanna.

 

 


mbl.is Rússar skutu niður eigin vélar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hvers er eiginlega ætlazt

Er virkilega einhver, sem ætlast til þess að maður ræði í alvöru hungur heimsbyggðarinnar á fastandi maga?

Það er alveg lágmark að hafa fengið a.m.k. fimm rétti, og að sjálfsögðu viðeigandi vín með, til að geta byrjað að ræða erfiðleika þriðja heimsins við að brauðfæða sig.

Framboð á fæðu í Afríku á borð við einfalda mjölgrauta og kornbrauð með vatni er krefjandi umræðuefni, sem ekki er hægt að fá neinn botn í nema að snæddri staðgóðri máltíð.

Þetta vita allir. 

 


mbl.is G8: Fimm rétta máltíð áður en rætt verður um hungur heimsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver hjálpar henni og hennar líkum?

Við lestur fréttar um stórfellda hækkun á mjólkurvörum, dettur mér helzt í hug meðfylgjandi blogg. Það birtist í dag.

 

 


mbl.is Mjólkin hækkar um 10 krónur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Við hverju var búizt?

Kattarþvottur hollenzka þingsins á fjármálaeftirleitinu þar í landi er hálf dapurlegur. Því er, hins vegar, slegið föstu að allt það, sem misfórst í hollenzku samfélagi varðandi Icesave sé íslenzku fjármálaeftirliti að kenna. Nú bíðum við bara eftir því að fundin verði fleiri mistök í Hollandi (og væntanlega víðar), sem stjórnsýslan gerði og klínum þeim svo á Ísland. Það er af nógu að taka.

Ég hef margoft haldið því fram, og stend við það gallharður, að hefðu vitund og vilji verið til staðar hjá hollenzkum stjórnvöldum, hefðu þau hlaupið til varnar eigin borgurum.

Við erum ekki hissa á þessari niðurstöðu þingsins í Hollandi, en, ég endurtek: Skelfing er hún aumkunarverð.


mbl.is Icesave rætt á hollenska þinginu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hafði ekki alveg á réttu að standa

Nei, ég hafði ekki alveg á réttu að standa þegar ég spáði því að vinstri grænir myndu komast að akkúrat þessari niðurstöðu eftir „einhverja fáeina daga“. Það tók þingflokksformann vinstri grænna innan við sólarhring að komast að því að í raun skiptu þau engu loforðin, sem kjósendum voru gefin fyrir kosningar. Þetta var ekki spurning um einhverja daga. Það þurfti ekki 30 silfurpeninga; einn var látinn duga.

Málamyndagjörningurinn frá í gær, þar sem óskað var eftir upplýsingum um kostnað vegna aðildarviðræðna við ESB, var akkúrat það og hvorki meira né minna; málamyndagjörningur til að slá ryki í augu kjósendanna.

 


mbl.is Skrifar undir með fyrirvara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Líklega er enginn hissa

Enn er þessi furðulega ríkisstjórn að koma sjálfri sér á óvart. Nú átti að fara að afgreiða stjórnartillögu um aðildarumsókn að ESB frá utanríkismálanefnd, en málið lagðist á hliðina þegar þingflokksformaður vinstri grænna óskaði eftir frekari upplýsingum um kostnað við umsóknina.

Eitt er ég þó fullviss um, en það er að Samfylkingin þarf ekki að óttast að hér sé á ferðinni nein ógn við æðsta draum sósíaldemókratanna, viðræðurnar við Brussel-veldið. 

Það, sem er að gerast er fyrirsláttur vinstri grænna af ódýrustu gerð. VG verður að geta staðið frammi fyrir kjósendum sínum, sem lofað var fyrir síðustu Alþingiskosningar, að barizt yrði gegn aðild að ESB. Og það verður „barizt“ í einhverja fáeina daga með hefðbundnu japli, jamli og fuðri, en síðan deyr sú barátta drottni sínum og fram verður haldið í áttina að Brussel.

Trúið mér.


mbl.is Fundi utanríkismálanefndar um ESB-mál frestað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lágkúruleg aðför að starfsmönnum

Það er sennilega fátt lágkúrulegra en að ógna starfsfólki, á einn eða annan máta, fyrir afglöp, eða meint afglöp, vinnuveitanda.

Í tilefni af þessari frétt eru menn svo að blogga um hina furðulegustu hluti eins og þá að Björgólfur Thor eigi nóg af peningum,  Raunhæft tilboð?!, Afskriftir handa öllum, o.s.frv. Koma þessu máli ekkert við.

Við skulum hafa í huga að ákvörðun hefur ekki verið tekin í þessu máli og þó hún verði tekin, þá væri rétt að beina reiði sinn að ríkisstjórninni sem fulltrúa eiganda bankans, ríkisins. 

Ákvörðun af þessu tagi verður aldrei tekin af starfsmönnum bankans án fulltingis æðstu fulltrúa eiganda bankans. Ákvörðunin yrði aldrei tekin án fulltingis ráðherra bankamála. 

 


mbl.is Öryggi starfsmanna ógnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjóvá komið á hausinn

Það er semsagt ljóst að snillingunum í Milestone og þeirra starfsmönnum hefur tekizt að setja Sjóvá á hausinn. Fyrirtæki með blómlega tryggingastarfsemi á Íslandi, en taumlaust brask með bótasjóði félagsins erlendis.

Þegar ríkisbanki þarf að leggja tryggingafélagi til eigið fé til að það sé starfhæft sem slíkt og gera síðan reka að því að skilja vátryggingastarfsemi frá „fjárfestingu tengdri fasteignaverkefnum“ er ljóst að mikið hefur farið úrskeiðis.

Það verður fróðlegt að heyra í forsvarsmönnum Milestone og öðrum þeim, sem tóku þátt í að keyra Sjóvá í þrot, þegar þeir birtast fyrir dómi. 

En, enn á ný spyr ég: Hvar voru endurskoðendurnir? Þeir höfðu viðamiklu hlutverki að gegna í rekstri tryggingafélagsins.

 

 


mbl.is 16 milljarðar inn í Sjóvá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eðlileg málsmeðferð

Það er aldeilis að staða Íslands sem lýðræðis- og réttarríki hefur farið vaxandi á augum hollenzkra stjórnvalda.

Þetta auma samfélag hér norður í Dumbshafi, sem þar til fyrir stuttu síðan var ekki á vetur setjandi, er nú sagt búa við sjálfstætt og óháð réttarkerfi. Þessu lýsir fjármálaráðherra Hollands yfir samhliða því að taka fram að svo mikil sé trúin á hið íslenzka samfélag og alla þess kosti, að ekki sé nein ástæða til að hollenzk yfirvöld hafi nein afskipti af málshöfðunum þegna sinna gegna íslenzka ríkinu.

Lái mér nú hver sem vill, en hvar var þessi mikla trú á Íslandi, hinum virta þátttakanda í alþjóðasamfélaginu, þegar leitazt var eftir því að Icesave-deilurnar yrðu reknar fyrir dómstólum? Að málinu skyldi vísað til dóms; skipti ekki máli hvaða dóms, bara að það fengi eðlilega og réttmæta meðferð, líkt og aðilar sammælast gjarnan um þegar upp kemur ágreiningur. 

 


mbl.is Hollensk stjórnvöld afneita afskiptum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband