Sjóvá komið á hausinn

Það er semsagt ljóst að snillingunum í Milestone og þeirra starfsmönnum hefur tekizt að setja Sjóvá á hausinn. Fyrirtæki með blómlega tryggingastarfsemi á Íslandi, en taumlaust brask með bótasjóði félagsins erlendis.

Þegar ríkisbanki þarf að leggja tryggingafélagi til eigið fé til að það sé starfhæft sem slíkt og gera síðan reka að því að skilja vátryggingastarfsemi frá „fjárfestingu tengdri fasteignaverkefnum“ er ljóst að mikið hefur farið úrskeiðis.

Það verður fróðlegt að heyra í forsvarsmönnum Milestone og öðrum þeim, sem tóku þátt í að keyra Sjóvá í þrot, þegar þeir birtast fyrir dómi. 

En, enn á ný spyr ég: Hvar voru endurskoðendurnir? Þeir höfðu viðamiklu hlutverki að gegna í rekstri tryggingafélagsins.

 

 


mbl.is 16 milljarðar inn í Sjóvá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Og af hverju var félagið ekki bara látið rúlla eins og önnur gjaldþrota fyrirtæki? Þetta skapar slæmt fordæmi, því nú geta önnur tryggingafélög væntanlega farið í mál við ríkið til að krefjast sambærilegs ríkisstyrks sem myndi gera þeim betur kleift að gæta hagsmuna viðskiptavina sinna (=lægri iðgjöld eða meiri hagnaður af rekstri). Annars er bara verið að taka peninga úr mínum vasa og setja þá í vasa viðskiptavina Sjóvár (ég er í viðskiptum við TM).

Guðmundur Ásgeirsson, 8.7.2009 kl. 17:29

2 Smámynd: Gunnar Gunnarsson

Þegar stórt er spurt, Guðmundur, verður, að vanda, fátt um svör. Af hverju var félagið ekki látið rúlla er spurning, sem á fullan rétt á sér, en mér dettur í hug að við séum enn að gæla við það að halda úti starfsemi, sem lætur okkur halda að við búum við normal ástand. Mönnum er, sennilega, illa við að setja í endanleg þrot fyrirtæki, sem hefur rekið ábatasama starfsemi áratugum saman. Sennilega nostalgía. Nú, eða þá hræðsla við að auka enn á atvinnuleysi.

Annars er það mín skoðun (þar erum við að vissu leyti sammála) að, rétt eins og með bankana, þá hefði verið færi á hagræðingu. Það er ekki þörf á mörgum, tiltölulega stórum tryggingafélögum í þessu örsamfélagi okkar. Rétt eins og það er engin þörf fyrir þrjá stóra banka með sitt kraðak af útibúum, sem skarast víða hvert við annað.     

Gunnar Gunnarsson, 8.7.2009 kl. 18:05

3 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Tryggingastarfsemi er rétt eins og bankastarfsemi, dæmi um atvinnugrein sem skapar þjóðfélaginu í heild engin raunveruleg verðmæti (a.m.k. ekki ef þau eru rekin með hagnaði). Það eina sem þau geta gert við verðmætin er að flytja þau úr einum vasa í annan, frá greiðendum iðgjalda til tjónþola (með bótagreiðslum) og eigenda sinna (með arðgreiðslum). Á heildina litið væri líklega ódýrara (á pappírunum a.m.k.) að leggja niður allar skyldutryggingar og setja þess í stað ríkisábyrgð á þau tjón sem undir þær heyra, ekki síst nú þegar þessi félög eru hvort eð er öll meira eða minna í ríkiseigu hvort sem er.

Guðmundur Ásgeirsson, 8.7.2009 kl. 18:51

4 Smámynd: Gunnar Gunnarsson

Á meðan við trúum því að það, sem hefur gerzt, sé frávik (aberration) frá eðlilegu viðskiptaferli, gengur þetta ekki. Komi, hins vegar, í ljós að kapítalisminn hafi gengið sér til húðar, má gera því skóna að færa beri t.d. skyldutryggingar í einn ríkispott með ríkisábyrgð. Ég trúi því, hins vegar, að viðskipti á borð við tryggingastarfsemi, sem bera með sér ákveðinn og töluverðan áhættuþátt, eigi heima í rekstri hjá einstaklingum, ekki ríki. Ég er ekki reiðubúinn til þess að gangast við ósigri kapítalismans þó aðilar á borð við Milestone-menn hafi farið á skjön við lög og látið greipar sópa um bótasjóði, sem njóta vissrar lögverndar.  

Hvað svo eru „raunveruleg verðmæti“ fáum við ekki útkljáð á þessum vettvangi. Við gætum þá þurft að endurhugsa hugtök á borð við VLF, hvernig þau eru samsett og hvort þau eigi rétt á sér.

Gunnar Gunnarsson, 8.7.2009 kl. 20:17

5 Smámynd: Einar Guðjónsson

Er mikið sammála Guðmundi. Að öðru leyti er þetta bara dýr brandari þar sem haltur leiðir blindan. Íslandsbanki-sem er hvergi til nema á heimasíðu FME- dælir loftpeningum inn í Sjóvá sem er ekki heldur til.

Einar Guðjónsson, 8.7.2009 kl. 21:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband