Heimssýn, Hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum hefur kynnt helztu ástæður fyrir höfnun aðildar að Evrópusambandinu.
Fyrir okkur, sem höfnum þessari leið til óláns, segja þessar greinar allt, sem segja þarf um hugveilu Samfylkingarinnar og villu þeirra annarra, sem telja að við eigum eitthvert erindi í ofurveldið.
Ég ætla að birta þessar tólf greinar. Hér er grein nr. fimm:
Valdamiðstöðin er fjarlæg
Fjarlægð Íslands frá valdamiðstöðvum ESB og þekkingarleysi embættismanna þar á íslenzkum aðstæðum minnir okkur á hve fráleitt er að Íslandi sé stjórnað úr 2000 km fjarlægð. Hætt er við að brýnar ákvarðanir, sem varða okkur Íslendinga miklu, velkist oft lengi í kerfinu í Brussel og það gæti orðið okkur til mikils skaða, t.d. í sjávarútvegsmálum og á öðrum sviðum auðlindanýtingar.
Margar ESB-reglur henta Íslendingum alls ekki vegna smæðar íslenzks samfélags og ólíkra aðstæðna í fámennu landi.
Skemmst er að minnast ESB/EES-reglnanna um bankakerfið og ábyrgð íslenzkra skattgreiðenda á glórulausum rekstri einkabanka á erlendri grund. Það reyndist baneitrað regluverk fyrir smáþjóð eins og Íslendinga.
Við þurfum að geta sniðið okkur stakk eftir vexti og valið það, sem okkur hæfir bezt.
14.7.2009
Fyrr má nú rota en dauðrota
Ég hef haft mig í frammi á þessum vettvangi til þess, m.a. að mæla með og krefjast, að starfsmenn fyrirtækja á borð við SPRON, rúmlega 100 manns, fengju greidd í umsömdum uppsagnarfresti. Þar var um að ræða sjálfsagða og augljósa kröfu, sem loks hefur verið gengið að, þó til þess þyrfti lagasetningu.
Við lestur fréttar um að ákveðnir starfsmenn gömlu bankanna geri kröfur vegna vangoldinna launa og vísa til réttar á að fá árangsurstengdar greiðslur, þá var mér öllum lokið.
Ekki ætla ég mér að leggja dóm á kröfur þeirra, sem telja sig eiga lengri uppsagnarfrest en gengur og gerist.
Hámark veruleikafirringar hlýtur þó að birtast í greiðslur, sem tengdar séu árangri. Hvaða árangri? Getur það t.d. verið að um sé að ræða sölumenn peningamarkaðssjóðanna, sem héldu uppi öflugu sölu- og kynningarstarfi allt fram í rauðan dauðann?
Sé miðað við söfnun fjármuna í þessa sjóði, eiga starfsmennirnir sennilega ríkulega umbun skilið. Sé, hins vegar, litið til þess árangurs, sem sjóðirnir náðu í ráðstöfun og meðferð fjármuna almennings, fæ ég ekki séð að þeir eigi krónu skilið.
![]() |
Tugir launakrafna í farvatninu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
13.7.2009
Grafa hausinn í sandinn? Nei, nei
Nú, það er bent á að þetta sé mál, sem hverfi ekki. Þetta segir fjármálaráðherrann sjálfur.
Á þessum vettvangi hefur verið á það bent oft, og er það í raun að æra óstöðugan að færa það til bókar einu sinni enn, en málið snýst ekki um það að stinga hausnum í sandinn í þeirri von að þá gerist ekkert. Því hefur aldrei verið haldið fram af mér, né mörgum þeim, sem gagnrýnt hafa Icesave-samkomulagið harðlega.
Gagnrýnin hefur snúizt um það að verið var að semja um hluti, sem alls ekki var þörf að semja um, þegar haft er í huga að aldrei var um að ræða ríkisábyrgð á Icesave-reikningum Landsbankans.
Hins vegar hefur harðri gagnrýni verið beint að samningamönnum Íslands og þeirri arfaslöku frammistöðu, sem þeir höfðu við og leyfa sér síðan að kalla samning. Þetta var aldrei samningur. Þetta var krafa á Ísland, sem Hollendingar og Bretar skrifuðu sjálfir, að heita má, og snillingarnir okkar gengust síðan við sem raunverulegum samningum.
Við erum ekki að gera því skóna að Icesave-klúðrið sé mál, sem hverfi. Við viljum bara að því séu gerð eðlileg skil. Um meira er ekki beðið; réttara sagt, krafizt.
![]() |
EES-samningurinn var í húfi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Til þessa hefur enginn stjórnmálamaður, núverandi eða fyrrverandi (ef til er eitthvað, sem hægt er að kalla fyrrverandi stjórnmálamann) tjáð sig með jafn afgerandi hætti um Icesave-klúðrið og Davíð Oddsson. Svo afgerandi að núverandi fjármálaráðherra átti engin orð til að lýsa skoðun Davíðs í viðtali Við Agnesi Bragadóttur í Morgunblaðinu 5. júlí sl. nema þannig að hann hefði haldið að Davíð Oddsson væri hættur í pólitík.
Höfuðinntakið í málflutningi Davíðs Oddssonar er að íslenzk stjórnvöld hafi ekki leyfi til að setja íslenzku þjóðina á hausinn.
Það sagði hann í viðtalinu í Morgunblaðinu og það er hann enn að segja. Það er engin ríkisábyrgð á Icesave-reikningum Landsbankans; var ekki og verður ekki, þrátt fyrir að Svavar Gestsson og Indriði H. Þorláksson hafi látið blekkjast og samið í samræmi við það. Fyrir nú utan það að Svavar Gestsson nennti ekki að hanga í þessu lengur.
Það væri gott að sjá Davíð koma á ný inn í hringiðu íslenzkra stjórnmála.
![]() |
Engin ríkisábyrgð á Icesave |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
13.7.2009
Hámark ósvífninnar
Það er hámark ósvífninnar að ríkisstjórnin með Samfylkingarmenn í broddi fylkingar skuli predika um óþekktar stærðir hagtalna þegar að því kemur að ræða og meta efnahagslega óvissu og áhrif hennar á almenning og þjóðarbúið, í samhengi við skuldir.
Það er einmitt þessi sama ríkisstjórn, sem bjó til þessa óvissu með því að spila rassinn úr buxunum með arfaslökum samningum um Icesave-klúðrið við Breta og Hollendinga.
Það er einnig þessi sama ríkisstjórn, sem ákveður að verja dýrmætum tíma í þras um viðræður við Evrópusambandið í stað þess að vinna hörðum að því að koma bönkunum á lappirnar, að koma heimilunum til hjálpar og gera atvinnuvegunum kleift að sinna sínu hlutverki. Það er eytt dýrmætum tíma á Alþingi um mál, sem ekki er vissa fyrir að meirihluti sé fyrir í þinginu.
Það er eytt dýrmætum tíma í argaþras um mál, sem allar líkur eru síðan fyrir að hljóti ekki náð fyrir augum almennings ef til þjóðaratkvæðagreiðslu kemur.
![]() |
Efnahagsleg óvissa verri en skuldir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Heimssýn, Hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum hefur kynnt helztu ástæður fyrir höfnun aðildar að Evrópusambandinu.
Fyrir okkur, sem höfnum þessari leið til óláns, segja þessar greinar allt, sem segja þarf um hugveilu Samfylkingarinnar og villu þeirra annarra, sem telja að við eigum eitthvert erindi í ofurveldið.
Ég ætla að birta þessar tólf greinar. Hér er grein nr. fjögur:
Samþjöppun valds í ESB
Í ESB hefur mikið vald færzt til embættismanna í Brussel og til ráðherra, sem taka veigamestu ákvarðanir.
Þingið hefur fyrst og fremst staðfestingar- og eftirlitsvald. Almennir þegnar í aðildarlöndunum hafa því lítil áhrif á þróun mála og afar dræm kosningaþátttaka til þings ESB sýnir hve framandi og fjarlægt Brusselvaldið er þeim.
Lýðræðishallinn í ESB er, einn og sér, næg ástæða til að hafna ESB-aðild. Valddreifing er tímans kall, en vaxandi valdasamþjöppun í miðstýrðum stofnunum ESB, sem að litlu leyti lúta eftirlitsvaldi kjósenda, er tilræði við þróun lýðræðis í Evrópu. Á Íslandi geta kjósendur fellt ríkisstjórn, sem þeim líkar ekki við, en í ESB hefðu þeir engin áhrif á hverjir yrðu hinir nýju yfirboðarar landsmanna.
Heimssýn, Hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum hefur kynnt helztu ástæður fyrir höfnun aðildar að Evrópusambandinu.
Fyrir okkur, sem höfnum þessari leið til óláns, segja þessar greinar allt, sem segja þarf um hugveilu Samfylkingarinnar og villu þeirra annarra, sem telja að við eigum eitthvert erindi í ofurveldið.
Ég ætla að birta þessar tólf greinar. Hér er grein nr. þrjú.
Völd litlu ríkjanna fara minnkandi
Völd lítilla ríkja í ESB fara smám saman minnkandi, en völd hinna stóru vaxandi.
Stefnt er að meirihlutaákvörðunum í stórauknum mæli með hliðsjón af íbúafjölda aðildarríkjanna. Ísland fengi 3 atkvæði af 350 í ráðherraráðinu, þar sem mikilvægustu ákvarðanirnar eru teknar, og 5 atkvæði af 750 á ESB-þinginu.
Sjálfstæð rödd Íslands myndi að mestu þagna á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.
Því fámennari og áhrifaminni sem aðildarríki eru, þeim mun meiri er skerðing sjálfstæðisins og hvergi yrði sú skerðing jafn tilfinnanleg og hér, m.a. vegna þess hve sjávarútvegur vegur þungt í efnahagslífi okkar og orkuauðlindirnar eru miklar og vannýttar.
Hætt er við að Ísland verði eins og hreppur á jaðri risaríkis þegar fram líða stundir.
12.7.2009
Helmingi fleiri, takk
Var að lesa frétt um að Norðmenn hefðu ákveðið að láta bólusetja alla norsku þjóðina og að heilbrigðisyfirvöld í Bretlandi hafa einnig byrjað undirbúning fyrir bólusetningu á allri bresku þjóðinni gegn H1N1.
Þá berst frétt um að ákveðið hafi verið að bólusetja helming Íslendinga.
Væri nú ekki ráð að hafa samband við GlaxoSmithKline og tvöfalda pöntunina; jafnvel þó um sé að ræða stórar fjárhæðir.
Orð sóttvarnalæknis um að bólusetja helming þjóðar [sé] gríðarlega mikil bólusetning og myndi örugglega hafa veruleg áhrif til að draga úr faraldrinum duga ekki. Málið er ekki að reyna að draga úr faraldrinum. Málið hlýtur að snúast um að reyna að koma í veg fyrir faraldurinn.
Við þurfum ekki, á þessu annus horribilis, að bæta á okkur ígildi spænsku veikinnar. Það er eiginlega komið nóg.
![]() |
Bóluefni á leið til Íslands |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 13:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.7.2009
Samningamenn, sem kunnu ekki til verka
Það er orðið alloft sem hreyft hefur verið mótmælum á þessum vettvangi við því að láta fyrrverandi atvinnupólitíkus, nú sendiherra, og embættismann á eftirlaunum, þó úr skattkerfinu sé, leiða jafn flóknar viðræður og þær, sem voru undanfari samnings um lausn á Icesave-klúðrinu.
Það er ekki einfalt að leiða til lykta deilur, sem snúast um hundruð milljarða, og varða þjóðarheill. Til þess þarf þrautþjálfaða og öfluga samningamenn, ekki aðila, sem hafa dundað sér við prótokollmiðað snakk. Enn síður þarf samningamen, sem lýsa því yfir að þeir hafi viljað hespa þessu af því þeir nenntu ekki að hafa þetta hangandi yfir sér lengur, svo vitnað sé óbeint í orð nefndarformannsins.
Jón Daníelsson orðaði þetta sennilega bezt þegar hann lýsti samningaviðræðunum við Hollendinga og Breta við fótboltaleik, þar sem við ættust Grótta og Manchester United. Menn verða að nota ímyndunaraflið til að komast að því, hvorir hafi verið Grótta.
Ég held það liggi nokkuð beint við að allra ráða verði leitað til að taka þennan samning upp og síðan verði fengnir alvöru menn til verka.
![]() |
Starfsmenn AGS mótmæltu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Það virðist sem ekkert ætli að ganga upp þrautalaust hjá þessari blessuðu ríkisstjórn. Ef síðan fæst loks botn í málin, er það eftir endalaust japl, jaml og fuður. Engin ríkisstjórn á Íslandi hefur átt jafn þversagnakenndan feril og þessi vinstristjórn Samfylkingar og Vinstri grænna. Þetta er eins ótrúverðug stjórn og hugsazt getur.
Ekki hefur það gengið þrautalaust að vinna Icesave-hörmunginni brautargengi. Hver höndin upp á móti annarri og alls ekki víst að málið komist í gegnum þingið.
Varðandi aðildarviðræður við ESB, þá hefur Samfylkingunni þóknazt að hafna tillögu um tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu. Ástæða þessarar höfnunar er óskiljanleg þegar hafður er í huga alvarleiki þess, sem þjóðin þarf að taka afstöðu til.
Landsfundur Vinstri grænna, haldinn næst síðustu helgina í marz, lagðist gegn aðild að ESB og Steingrímur J. Sigfússon lét hafa það eftir sér að rök gegn aðild hefðu styrkzt nýlega.
Nú ætla Vinstri grænir samt að leggjast í gólfið og lúffa fyrir samstarfsflokki sínum þótt það kosti að gengið sé gegn nýlegri landsfundarsamþykkt og að þingmenn kjósi gegn sannfæringu sinni.
Það er Steingrími J. greinilega mikils virði að fá að sitja í ríkisstjórn.
![]() |
Hjáseta kann að ráða úrslitum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)