Uppgjöf og aumingjaskapur

Nú er svo komið að aðdáendur Samfylkingarinnar, þó vissulega sé þar lítið að dást að, eru farnir að halda því fram að skynsemin sé „að ná yfirhöndinni“.

Ekki fæst séð, hvað átt er við með þessu nákvæmlega, en þegar talað er um að það sé „gott að þingmenn eru að komast að þeirri niðurstöðu að ljúka þessu máli“, skýrist málið.

Þetta er röksemdafærslan, sem Svavar Gestsson hefur gert ódauðlega með þeirri yfirlýsingu sinni að hann „nennti ekki að hafa þetta hangandi yfir sér lengur“.

Það getur verið að Samfylkingarmenn séu sáttir við að gera hvað sem er til að komast í náðina hjá Evrópusambandinu. Þá skiptir ekki máli að lélegir samningamenn, sem ekki virðast hafa vitað hvað þeir voru að gera, skili af sér samningi til afgreiðslu Alþingis, sem binda myndi þjóðina á klafa vesældar um ótalda áratugi.

 


mbl.is Styðja Icesave með fyrirvara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í rannsókn hjá Bretum

Á meðan við snúumst í hringi og virðumst ekki hafa hugmynd um hvað við eigum að gera, hvað þá að við vitum hvernig á að vinna hlutina, fara Bretar af stað með alvöru rannsókn á íslenzku bönkunum. Ég er ekki í minnsta vafa að sú stofnun, sem fer með þessa rannsókn, Serious Fraud Office, mun skila af sér raunverulegri afurð, sem við Íslendingar erum, því miður, ekki færir um að vinna.

Það er ekki að við viljum ekki sinna verkefninu. Staðreyndin er einfaldlega sú að við höfum enga reynslu í að sinna rannsóknum af þessari gerð og stærðargráðu. Til þess vantar okkur þekkingu og til þess vantar okkur hæfan mannskap. Bretar, Bandaríkjamenn og ýmsar stærri Evrópuþjóðir hafa mótað aðferðir og verkferla, sem gerir þeim kleift að sinna stórum svikamillum og gera þær upp á fáum mánuðum. Við verðum, hins vegar, mörg ár að koma okkur af stað, hvað þá að sinna raunverulegum rannsóknum, sem ná til flestra heimshorna.

Það er vel að þessir kvalarar okkar taka nú að sér að kanna gjörðir fjármálafurstanna. Kannski komast þeir þá að raun um hverja á að krefja um greiðslur vegna Icesave.  

 

 

 


mbl.is Rannsaka íslensku bankana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allir nema stjórnvöld reiðubúnir

Það er eins gott að InDefence samtökin reyni að „ná eyrum alþjóðasamfélagsins“, eins og segir í fréttatilkynningu samtakanna.

Þeir, sem helzt ættu að hafa sig í frammi, stjórnvöld, gera það ekki. Þar þegja menn þunnu hljóði gagnvart alþjóðasamfélaginu, en láta samt sem allt sé á útopnu við að kynna málstað Íslendinga.

Það væri svo til að kóróna skömmina ef einstaklingar, eða samtök einstaklinga, tækju að sér verkefni, sem engum ber frekar að sinna en opinberum aðilum.

Þar væri þá einstaklingsframtakið að sýna sig í verki og sanna svo um munaði.


mbl.is Átak til kynningar á málstað Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dapurlegt sjónarspil Kristjáns Kristjánssonar og Hrannars B. Arnarssonar

Eftir brillians Evu Joly í þremur erlendum dagblöðum var það grátlega dapurlegt að sjá, og hlusta á, fjölmiðlafulltrúa forsætisráðuneytisins, Kristján Kristjánsson lýsa því yfir að í raun væri ekki um að ræða neina opinbera skoðun stjórnvalda á efnahagsvandanum.

Álit Kristjáns á skoðun Íslendinga er óhugsað og kjánalegt: Að skoðanirnar væru eiginlega jafn margar og Íslendingar vegna þess að við gætum ekki komið okkur saman um nokkurn skapaðan hlut.

Ekki voru skrif Hrannars B. Arnarssonar betur til þess fallin að ýta undir þá vonarglætu að stjórnvöld væru  að gera eitthvað til að halda úti vörnum fyrir málstað Íslendinga.

Öllum er ljóst, eða ætti að vera ljóst, að þessi dapurlega ríkisstjórn leyfir sér að láta landið og miðin fljóta að feigðarósi og gera ekkert af viti til að láta í sér heyra. Hafi nokkurn tíma verið nauðsyn á að haldið væri úti öflugri baráttu fyrir réttlátum málstað, þá er það nú. 

Ekkert heyrist nema aulalegar afsakanir.

Hvernig má það vera að fjölmiðlafulltrúinn láti sér detta í hug að halda fram þeirri vitleysu, sem hann gerir.

Til hvers var hann ráðinn til starfa og hvað er hann að gera?

 


mbl.is Joly tókst það sem öðrum tekst ekki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta er farið að verða þreytandi

Aumingjaskapur ríkisstjórnar Íslands er orðinn yfirþyrmandi. Ríkisstjórnin hefur nú haft fimm mánuði frá því að annar hluti láns AGS átti að hafa borizt til að vinna að framkvæmd ríkisfjármála á fullnægjandi hátt, en lítið virðist hafa miðað.

Í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu segir að „AGS hefur staðreynt að fjármögnun efnahagsáætlunarinnar með greiðslum frá utanaðkomandi aðilum, m.a. Norðurlöndunum, hafi ekki verið tryggð“.

Hér virðist fara fram heiftarleg barátta um keisarans skegg, því svo virðist sem „vinaþjóðir“ á Norðurlöndunum taki ekki í mál að ganga endanlega frá lánsloforðum sínum fyrr en fyrir liggi hvernig hagað verði framhaldi á lánafyrirgreiðslu AGS.

Það er á þessu sviði sem ríkisstjórnin gæti sýnt hvað í hana er spunnið með því að taka af skarið um forgangsröðun þessara aðila og ganga þannig frá málum að þeir sjái sér ekki báðir hag í því að neita að standa við loforð sín fyrr en hinn hefur gert það.

Ég spyr í einfeldni minni hvort menn hafi talið að ekki hafi verið nein verkefni til að sinna nema að eyða dýrmætum tíma í ESB-maníu Samfylkingarinnar.

Sú þráhyggja ætlar að verða okkur dýr. 

 


mbl.is Vonast eftir láni í lok ágúst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brussel-vinir í raun

Það er ekki til þess vitað að sú liðlega tveggja miljarða dala aðstoð, sem AGS samþykkti að leggja Íslandi til í formi láns, hafi á sínum tíma verið tengd uppgjöri á Icesave-klúðrinu.

Nú hefur verðandi sessunautum í Brussel-klúbbnum tekizt að fá þessum nauðsynlegu lánalínum ýtt út af borðinu.

Við getum seint þakkað vinum okkar í Evrópu nógsamlega fyrir veittan stuðning.

Lifi ESB!

 

 


mbl.is Afgreiðslu AGS frestað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það trúir enginn þér heldur, Björgólfur Thor

Það, sem ég lét frá mér fara um Jón Ásgeir Jóhannesson var í þá átt að enginn legði lengur trúnað á það, sem hann segði. Það á nákvæmlega við um Björgólf Thor.

Menn geta ekki búizt við að vera teknir trúanlegir eftir að hafa valdið hundruðum þúsunda á Íslandi og í Evrópu stórfelldu tjóni með engisprettutilburðum sínum.

Sviðin jörð varð ekki til vegna sérlegrar sannleiksástar útrásarvíkinganna.

 

 


mbl.is Björgólfur Thor: Skipulagður óhróður, véfréttir og lygar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trúi ekki einu aukateknu orði

Ég vona að Jón Ásgeir Jóhannesson virði mér það til betri vegar, en ég trúi einfaldlega ekki einu einasta orði, sem frá honum kemur.

Það sama á raunar við um aðra þá útrásarvíkinga, sem hafa komið okkur á kaldan klakann.

Mér dettur í hug að það sé sama hve margar yfirlýsingar Jón Ásgeir sendir frá sér; það trúir honum enginn.

Maðurinn virðist hafa farið endanlega á taugum og dreifir nú furðusögum um „ósannindi annarra“, hringingar „drukkinna blaðamanna“, o.s.frv.

Hann ætti að leita sér hjálpar við hæfi.

 


mbl.is Yfirlýsing frá Jóni Ásgeiri Jóhannessyni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er skömm að því að þiggja hjálp?

Íslenzka ríkið á í vök að verjast á mörgum sviðum. Eitt af þeim er Landhelgisgæzlan, sem hefur verið sett undir sama niðurskurðarhatt og aðrar ríkisstofnanir.

Það hefur meira að segja komið til tals að leigja nýja flugvél gæzlunnar til verkefna í Svíþjóð til að sarga inn einhverjar krónur í kassann.

Ég læt mér detta í hug að yfirmenn Landhelgisgæzlunnar hafi ekki verið par ánægðir með að geta ekki komið Slökkviliði Grindavíkur til hjálpar við að slökkva eld í þykkum mosa í fjallshlíð og þurfa að bera því við að ekki væri unnt að sinna útkallinu vegna fjárskorts.

Fyrir einu ári síðan hefði þetta ekki verið talið mikið mál og efa ég ekki að þyrla hefði verið send með hraði og ekki kölluð til baka fyrr en eldurinn hefði verið slökktur.

Nú höfum við ekki efni á að slökkva elda í viðkvæmum óbyggðum. 

Þyrluþjónustan á heiður skilinn fyrir að koma að þessu verki. Fyrirtækinu bar engin skylda til að sinna því, en rétt eins og okkur ber öllum að koma til hjálpar þegar á bjátar, hafa forsvarsmenn þess sýnt lofsvert framtak. 

Það er sannarlega engin skömm að því að þiggja hjálp, sem boðin er af slíkum höfðingsskap.


mbl.is Þyrluþjónustan til bjargar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skila kjötbollunum?

Það var í einhverju bríaríi sem ég keypti dós af Ora kjötbollum í dag. Ætlaði endilega að prófa, enda aldrei bragðað kjötbollur úr dós.

Frúnni fannst lítið til þessara innkaupa koma; eins og verið væri að lýsa vantrausti á kjötbollugerð undanfarinna áratuga.

Bauðst til að láta dolluna hverfa, en því var tekið með dæsi og þess getið að ekki væri við hæfi að farga matvælum á þessum síðustu of verstu.

Nú hafa forlögin tekið í taumana og ég verð að skoða strikamerkið til að hegðan mín sé í samræmi við gæða- og öryggisstefnu Ora.


mbl.is Ora innkallar kjötbollur í brúnni sósu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband