Færsluflokkur: Lífstíll

Bretar að gagnrýna aðra túrista!!! - Kemur vel á vondan

Það að bjóða Bretum að setja fram gagnrýni á ferðafólk á erlendri grund er á við að bjóða fyllibyttum að leggja mat á aðrar fyllibyttur.

Ég hef komið víða við á sumarferðum og skiptir ekki máli hvert var farið til að öðlast frið og ró ef brezkir ferðamenn voru nærri. Skipti ekki máli hvort um var að ræða dvalarstaði, veitingastaði eða svæði, sem ætluð voru til almennrar notkunar.

Undantekningalítið voru þeir homo sapiens til háborinnar skammar með tillitsleysi, frekju, dónaskap, hávaða og ruddaskap.

Séu nú til komnir einhverjir, sem gera Bretum lífið leitt á ferðum þeirra, eiga þeir brezku það skilið, þó ekki væri nema til að verða fyrir óþægindum og leiðindum, sem þeira sjálfir hafa valdið öðrum.


mbl.is Rússar eru verstu ferðamennirnir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skila kjötbollunum?

Það var í einhverju bríaríi sem ég keypti dós af Ora kjötbollum í dag. Ætlaði endilega að prófa, enda aldrei bragðað kjötbollur úr dós.

Frúnni fannst lítið til þessara innkaupa koma; eins og verið væri að lýsa vantrausti á kjötbollugerð undanfarinna áratuga.

Bauðst til að láta dolluna hverfa, en því var tekið með dæsi og þess getið að ekki væri við hæfi að farga matvælum á þessum síðustu of verstu.

Nú hafa forlögin tekið í taumana og ég verð að skoða strikamerkið til að hegðan mín sé í samræmi við gæða- og öryggisstefnu Ora.


mbl.is Ora innkallar kjötbollur í brúnni sósu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Obama alltaf flottur

Fór að skoða myndina af Obama, forseta, og komst að raun um að þetta eru svo til nákvæmlega eins gallabuxur og ég klæðist þegar þægindin eru í fyrirrúmi. Ekkert við þær að athuga.

Annað; það er sama hvað þessi maður gerir eða tekur sér fyrir hendur. Hann er alltaf flottur.


mbl.is Obama ver buxurnar sínar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dauðans alvara

Það fer ekki á milli mála að notkun farsíma er stórhættuleg. 

Við þessari óáran má bregðast með því að setja í alla bíla búnað, sem ryfi sjálfkrafa samband farsíma við þjónustuaðila.

Þetta er mér sagt að sé hvorki flókið né dýrt og hef ég fyrir mér aðila, sem er vel að sér á sviði fjarskipta.


mbl.is Farsímanotkun í bílum lífshættuleg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Helmingi fleiri, takk

Var að lesa frétt um að Norðmenn hefðu ákveðið að láta bólusetja alla norsku þjóðina og að heilbrigðisyfirvöld í Bretlandi hafa einnig byrjað undirbúning fyrir bólusetningu á allri bresku þjóðinni gegn H1N1.

Þá berst frétt um að ákveðið hafi verið að bólusetja helming Íslendinga.

Væri nú ekki ráð að hafa samband við GlaxoSmithKline og tvöfalda pöntunina; jafnvel þó um sé að ræða stórar fjárhæðir. 

Orð sóttvarnalæknis um „að bólusetja helming þjóðar [sé] gríðarlega mikil bólusetning og myndi örugglega hafa veruleg áhrif til að draga úr faraldrinum“ duga ekki. Málið er ekki að reyna að draga úr faraldrinum. Málið hlýtur að snúast um að reyna að koma í veg fyrir faraldurinn.

Við þurfum ekki, á þessu „annus horribilis“, að bæta á okkur ígildi spænsku veikinnar. Það er eiginlega komið nóg.

 


mbl.is Bóluefni á leið til Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Opinber rassskelling

Við komumst, vona ég, aldrei á það stig að farið verði að aflífa glæpahunda opinberlega, eða aflífa þá yfirleitt.

Það næsta, sem unnt væri að komast Sharia-lögum hér á Fróni væri að húðstrýkja misyndismenn opinberlega. Þessari refsingu ætti þó eingöngu að beita þegar í hlut ættu dýraníðingar. Þá skiptir ekki máli hvort í hlut eiga hestar, kindur eða hundar. 

Slík óbermi skal færa á torg, kalla borgarana til vitnis, og hýða síðan ótæpilega. 


mbl.is Handtekinn fyrir illa meðferð á hundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grindavík á Mars

Eigandi ættir að rekja til Grindavíkur hefur mér alltaf fundizt nóg að Grindavík væri bara til á Reykjanesskaga; þarna suður með sjó.

Nú, þegar ég les frétt um að Grindavík sé líka til á plánetunni Mars, vex hróður þessa draumastaðar bernskunnar um mörg margfeldi, sé hægt að nota slíkt orðalag við mælingar á ánægju með að heyra af heimabæ afa og ömmu úti í himingeimnum.

Sú Grindavík, sem ég þekkti, og þekki, er samt enginn gígur, heldur geymsla minninga um veiðar af bryggjum, kartöflugarða og saltfiskverkun. 

Mín Grindavík er miklu merkilegri Grindavík en sú, sem varð til árið 2006 á fjórðu reikistjörnu frá sólu, 78 milljón kílómetra frá jörðu þegar þessar tvær plánetur eru næst hvor annarri skv. upplýsingum á vísindavefnum.


mbl.is Grindavík á Mars
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í einhvern menntaskóla

Frúin er ekki sátt við að barnið komist bara inn í „einhvern menntaskóla... við vitum að þeir eru jafn misjafnir og þeir eru margir“.

Ja hérna. Ég finn sárlega til með stúlkubarninu, sem þó náði þriðja valkostinum, sem var Menntaskólinn við Sund. Og hún, sem kemur úr Hagaskóla.

Við þessa ofuræstu móður get ég bara sagt eitt: Slappaðu af kona góð. Afkvæmið hefur vafalaust fengið það, sem því bar. 


mbl.is Foreldrar bálreiðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verðskuldaður heiður

Það er sérlega vel til fundið að stofna til listaverðlauna í nafni Errós.

Með þeim verður með þökkum haldið á lofti nafni þessa örláta listamanns, sem gefið hefur Reykjavíkurborg stóran hluta listsköpunar sinnar og er enn að.

Það var kominn tími til að viðurkenna í verki örlæti þessa eins hins fremsta listamanns, sem landið hefur alið.


mbl.is Ný verðlaun kennd við Erró
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það skelfur og skelfur

Þegar litið er á kort Veðurstofunnar er ekki annað að sjá en Reykjanesskaginn leiki á reiðiskjálfi. 438 skjálftar sl. tvo sólarhringa!

Ein konukind lét hafa eftir sér: „Það er svo gaman þegar enginn meiðist“. 

Mér er ekki skemmt.

 

 

 


mbl.is Enn skelfur jörðin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband