Færsluflokkur: Lífstíll

Óhugnaður

Ég hef ekki fundið marga jarðskjálfta um ævina. Man ekki eftir nema tveimur, sem einhverju nemur. Þeir voru báðir hressilegir og ég er ekkert spenntur fyrir því að finna fleiri.

Í fyrra skiptið var ég ungur maður (já, þetta var fyrir löngu síðan) við vinnu á skrifstofum Reykjavíkurborgar. Skjálftinn kom, anzi snarpur, en mér fannst ekki viðeigandi að hlaupa út. Yfirmaður minn kom þá, náfölur og greinilega hálfsturlaður af hræðslu, stormandi með pappíra í hendinni og skipaði mér að yfirgefa bygginguna án tafar. Hún myndi örugglega hrynja. Lét ég ekki segja mér það tvisvar, en minningin um þennan, annars rólega og yfirvegaða mann, hlaupandi eins og hann ætti lífið að leysa, sýnir mér, enn í dag, mér hvaða ótta og skelfingu jarðskjálftar geta vakið með fólki. 

Hinn skjálftinn kom 17. júní árið 2000. Sá var myndarkippur, en einhvern veginn hafði ég ekki tíma til að verða sleginn ótta. Það var ekki fyrr en eftirá að þessi óhugnanlega og óvænta bylgjukennda hreyfing gerði mér ljóst að jarðskjálftar eru ekki eitthvað, sem ég mun nokkurn tíma geta tekið sem sjálfsögðum hlut.

Sennilega er það vegna þess að þarna er um að ræða fyrirbæri, sem enginn fær ráðið við eða stjórnað.

Mannskepnunni er víst ekki ljúft að vera í stöðu, sem hún veit fyrirfram að hún hefur enga stjórn yfir og er dæmd til að tapa. 

 

 

 


mbl.is Skjálftinn mældist 4,7 stig
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjármálasukk brezkra þingmanna

Horfði í kvöld á viðtöl við brezka þingmenn, þ.á.m. einn ráðherra, Shahid Malik, dómsmálaráðherra, engjast sundur og saman undir einföldum, en beinskeyttum, spurningum.

Malik þessum tókst að slá öllum öðrum við í svindli og svínaríi, a.m.k. enn sem komið er. Malik var kosinn á þing árið 2005 og síðan þá hefur honum tekizt af hafa af brezkum skattborgurum um 67.000 pund vegna kostnaðar við rekstur á heimili sínu í London. Það gera litlar 13 milljónir króna á núverandi gengi. Að heyra fullorðinn mann, sem kosinn var af samborgurum sínum til að gegna trúnaðarstöðu á þingi þeirra Breta, réttlæta sukkið er næstum grátlegt. Það var sama hvað spurt var um; allt var innan marka hófsemdar og fullkomlega eðlilegt. Það tók þó smá tíma að útskýra hvers vegna skattborgarar hefðu átt að standa undir kostnaði við heimabíó uppá 2.600 pund (500.000 kr.), en að lokum komst heiðursmaðurinn að þeirri niðurstöðu að þetta væri langt innan velsæmismarka. Þetta hlyti sjónvarpsmaður að skilja, þó hann væri greinilega að leitast við að ata sárasaklausan þingmanninn auri og ræna hann mannorðinu með andstyggilegum dylgjum og úrúrsnúningum.

Svo er það Elliot Morley, fyrrverandi ráðherra í stjórn Verkamannaflokksins, sem tókst að kría út lítil 16.000 pund (3 millj. kr.) úr sameiginlegum sjóðum þeirra Breta til greiðslu á húsnæðisláni. Það, sem helzt var aðfinnsluvert við þessar greiðslur, var að lánið hafði verið greitt upp 18 mánuðum áður.

Bær yfirvöld í Bretlandi telja þetta varða við lög um fjársvik og þjófnað. Þá er bara að vona að ofangreindur Shahid Malik komi hvergi að undirbúningi málsins.


SÁÁ og spilakassarnir

Í undirfyrirsögn á baksíðu Morgunblaðsins á dag segir: „Það skiptir engu máli hvort ég er hress og kátur eða hvort ég er mjög þungur og í niðursveiflu: Ég spila,“ segir spilafíkill. Fjallað er um spilafíknina með þessum venjulegu hryllingssögum til að koma því til skila að um sjúkdóm er að ræða; sjúkdóm á borð við áfengisfíkn, fíkn í önnur eiturlyf, fíkntengdan lífsstíl. Það fer ekki á milli mála að um sjúkdóm er að ræða, því hægt er að leita til SÁÁ eftir hjálp við að reyna að vinna bug á fíkninni.

Þegar fréttin er lesin, og síðan innblaðsskýring, kemur hinn skelfilegi sannleikur í ljós. Spilakössunum er semsé haldið út af SÁÁ (ásamt öðrum, Rauða krossinum og Landsbjörg!).

Ég man eftir að hafa séð í sjónvarpi einhvern framámann í afeitrunargeiranum reyna að bera af sér skömmina af því að hirða ágóða af rekstri spilakassa. Helzt man ég eftir að hafa, með þeirri upplifun minni, þurft að horfa upp einhverja þá aumkunarverðustu réttlætingu á óafsakanlegri starfsemi, sem ég hef orðið vitni að.  

Skömm SÁÁ er óendanleg fyrir að hirða ágóða af þessari starfsemi. Það nægir ekki að afsaka sig með þörf á rekstrarfé. Þeirri þörf væri hægt að fullnægja endanlega með því að setja upp bari (ég tala nú ekki um vínbúð) á Vogi, þar sem seldir væru áfengir drykkir í góðu úrvali. Enginn eðlismunur væri á slíkri sölustarfsemi og því að halda úti spilakössum fyrir spilafíkla.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband