Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Sjálfsögð aðgerð; löngu tímabær

Kyrrsetning eigna aðila þar sem rökstuddur grunur er fyrir hendi um að efnahagsbrot hafi verið framið er svo sjálfsagður hluti réttarkerfis siðaðra landa, að ekki ætti að þurfa að velta slíku fyrir sér sem einhverjum möguleika. Hér er um að ræða aðgerð, sem telja verður svo sjálfsagða, að heimildir til að beita kyrrsetningu ættu fyrir löngu að vera orðnar hluti af lagarammanum.

Af hverju ábúðarfullir ráðamenn eru að velta þessu fyrir sér sem einhverjum fjarlægum möguleika tæpu ári eftir hrun banka- og fjármálakerfisins er mér hulin ráðgáta.

Í Bandaríkjunum, Kanada, Bretlandi og flestum löndum Evrópu er þetta svo sjálfsagður hluti réttarkerfisins, að það kallar ekki á neina umræðu. Menn vinda sér í þetta sem sjálfsagðan hlut. 

Það er svo aftur allt annað mál hver áhrif slíkra heimilda yrðu á Íslandi, löngu eftir að meint brot voru framin.

Það er hætta á að eftirtekjan verði rýr.


mbl.is Skatturinn fær að kyrrsetja eignir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fallandi í verðuga gleymsku

Þessi fjögurra manna hópur komst á þing í skjóli glamurs á Austurvelli.

Ekki verður hægt að segja að yfir honum hafi ríkt reisn, sama hvernig á hann er litið.

Við fyrsta tækifæri, sem gafst, gekk hópurinn á bak orða sinna og loforða, sem gefin voru kjósendum.

Þessa lítt gæfulega liðs bíður ekki annað en að falla í gleymsku. Það gerist með rifrildi, og án reisnar. Farið hefur fé betra.

 


mbl.is Enginn þingmaður mætti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kaþólskari en páfinn

Ef ég vissi ekki betur, þá færi ég að halda að fjármálaráðherra Íslendinga sé á mála hjá Bretum og Hollendingum, slíkur er ákafi hans við að gera veg þeirra sem mestan í verstu milliríkjadeilu, sem landið hefur átt í. Deilu, sem snýst um það, hvort Íslendingar haldi efnahagslegu sjálfstæði sínu þegar til lengri tíma er litið.

Það er sama, hvað hefur verið nefnt á nafn og lagt til að reynt yrði til að draga úr hrikalegum áhrifum Icesave-samnings þeirra félaga Svavars Gestssonar og Indriða H. Þorlákssonar. Það er ekki ljáð máls á því einu sinni að ræða lausnir eða möguleika. Staðið er á því fastar en fótunum að Bretum og Hollendingum skuli borgað ekki minna en það, sem aulasamningur Svavars og Indriða kveður á um. 

Nú síðast segir hann „enga innistæðu fyrir sjónarmiði Ragnars H. Hall hæstaréttarlögmann sem  telji að Tryggingasjóður innstæðueigenda eigi að eiga forgangskröfu í þrotabúið og mistök hafi verið gerð í samningnum.“

Við hvað er ráðherrann hræddur? Óttast hann reiði læriföður síns, Svavars Gestssonar, ef hann dirfist að fara þá einu leið, sem réttlætanleg er og sú er að varpa samningnum fyrir róða eða setja við hann svo róttæka fyrirvara, að honum væri í raun hafnað.

 

 

 


mbl.is Svigrúm til að setja skilyrði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvort er verra, Sovétríkin eða ESB?

Það á ekki af Eystrasaltsríkjunum að ganga.

Eftir að hafa selt ESB sálu sína, er staða Litháens nú litlu betri en þegar landið var að sleppa úr járngreipum Sovétríkjanna sálugu.

Seðlabanki landsins gerir ráð fyrir verðhjöðnun, lækkun launa og meira en 19% atvinnuleysi.

Samfylkingin hlýtur að telja að eftir einhverju sé að slægjast með því að binda trúss sitt við Brussel-veldið, eða hvað.


mbl.is Staða Litháen sú versta innan ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Litlir karlar erum vér

Stjórn Kaupþings hefur, með því að skjóta bankastjórann í bakið, sýnt af sér dusilmennsku, sem á sér fá dæmi.

Það má vel vera að bankastjórinn hafi farið fram með öðrum hætti en stjórnin telur æskilegt, þegar litið er um öxl og ljóst er að framgangurinn var ekki til þess fallinn að afla bankanum velvilja og vinsælda.

Að mínu mati var krafan um lögbann fáránleg, en opinber aftaka aðila, sem að öllum líkindum taldi sig vera að vinna stofnuninni vel, er engum til sóma.

Svona nokkuð gerir maður ekki, eins og einhver sagði.


mbl.is Stjórn Kaupþings harmar skaðann af lögbanninu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Uppgjöf og aumingjaskapur

Nú er svo komið að aðdáendur Samfylkingarinnar, þó vissulega sé þar lítið að dást að, eru farnir að halda því fram að skynsemin sé „að ná yfirhöndinni“.

Ekki fæst séð, hvað átt er við með þessu nákvæmlega, en þegar talað er um að það sé „gott að þingmenn eru að komast að þeirri niðurstöðu að ljúka þessu máli“, skýrist málið.

Þetta er röksemdafærslan, sem Svavar Gestsson hefur gert ódauðlega með þeirri yfirlýsingu sinni að hann „nennti ekki að hafa þetta hangandi yfir sér lengur“.

Það getur verið að Samfylkingarmenn séu sáttir við að gera hvað sem er til að komast í náðina hjá Evrópusambandinu. Þá skiptir ekki máli að lélegir samningamenn, sem ekki virðast hafa vitað hvað þeir voru að gera, skili af sér samningi til afgreiðslu Alþingis, sem binda myndi þjóðina á klafa vesældar um ótalda áratugi.

 


mbl.is Styðja Icesave með fyrirvara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í rannsókn hjá Bretum

Á meðan við snúumst í hringi og virðumst ekki hafa hugmynd um hvað við eigum að gera, hvað þá að við vitum hvernig á að vinna hlutina, fara Bretar af stað með alvöru rannsókn á íslenzku bönkunum. Ég er ekki í minnsta vafa að sú stofnun, sem fer með þessa rannsókn, Serious Fraud Office, mun skila af sér raunverulegri afurð, sem við Íslendingar erum, því miður, ekki færir um að vinna.

Það er ekki að við viljum ekki sinna verkefninu. Staðreyndin er einfaldlega sú að við höfum enga reynslu í að sinna rannsóknum af þessari gerð og stærðargráðu. Til þess vantar okkur þekkingu og til þess vantar okkur hæfan mannskap. Bretar, Bandaríkjamenn og ýmsar stærri Evrópuþjóðir hafa mótað aðferðir og verkferla, sem gerir þeim kleift að sinna stórum svikamillum og gera þær upp á fáum mánuðum. Við verðum, hins vegar, mörg ár að koma okkur af stað, hvað þá að sinna raunverulegum rannsóknum, sem ná til flestra heimshorna.

Það er vel að þessir kvalarar okkar taka nú að sér að kanna gjörðir fjármálafurstanna. Kannski komast þeir þá að raun um hverja á að krefja um greiðslur vegna Icesave.  

 

 

 


mbl.is Rannsaka íslensku bankana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allir nema stjórnvöld reiðubúnir

Það er eins gott að InDefence samtökin reyni að „ná eyrum alþjóðasamfélagsins“, eins og segir í fréttatilkynningu samtakanna.

Þeir, sem helzt ættu að hafa sig í frammi, stjórnvöld, gera það ekki. Þar þegja menn þunnu hljóði gagnvart alþjóðasamfélaginu, en láta samt sem allt sé á útopnu við að kynna málstað Íslendinga.

Það væri svo til að kóróna skömmina ef einstaklingar, eða samtök einstaklinga, tækju að sér verkefni, sem engum ber frekar að sinna en opinberum aðilum.

Þar væri þá einstaklingsframtakið að sýna sig í verki og sanna svo um munaði.


mbl.is Átak til kynningar á málstað Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dapurlegt sjónarspil Kristjáns Kristjánssonar og Hrannars B. Arnarssonar

Eftir brillians Evu Joly í þremur erlendum dagblöðum var það grátlega dapurlegt að sjá, og hlusta á, fjölmiðlafulltrúa forsætisráðuneytisins, Kristján Kristjánsson lýsa því yfir að í raun væri ekki um að ræða neina opinbera skoðun stjórnvalda á efnahagsvandanum.

Álit Kristjáns á skoðun Íslendinga er óhugsað og kjánalegt: Að skoðanirnar væru eiginlega jafn margar og Íslendingar vegna þess að við gætum ekki komið okkur saman um nokkurn skapaðan hlut.

Ekki voru skrif Hrannars B. Arnarssonar betur til þess fallin að ýta undir þá vonarglætu að stjórnvöld væru  að gera eitthvað til að halda úti vörnum fyrir málstað Íslendinga.

Öllum er ljóst, eða ætti að vera ljóst, að þessi dapurlega ríkisstjórn leyfir sér að láta landið og miðin fljóta að feigðarósi og gera ekkert af viti til að láta í sér heyra. Hafi nokkurn tíma verið nauðsyn á að haldið væri úti öflugri baráttu fyrir réttlátum málstað, þá er það nú. 

Ekkert heyrist nema aulalegar afsakanir.

Hvernig má það vera að fjölmiðlafulltrúinn láti sér detta í hug að halda fram þeirri vitleysu, sem hann gerir.

Til hvers var hann ráðinn til starfa og hvað er hann að gera?

 


mbl.is Joly tókst það sem öðrum tekst ekki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta er farið að verða þreytandi

Aumingjaskapur ríkisstjórnar Íslands er orðinn yfirþyrmandi. Ríkisstjórnin hefur nú haft fimm mánuði frá því að annar hluti láns AGS átti að hafa borizt til að vinna að framkvæmd ríkisfjármála á fullnægjandi hátt, en lítið virðist hafa miðað.

Í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu segir að „AGS hefur staðreynt að fjármögnun efnahagsáætlunarinnar með greiðslum frá utanaðkomandi aðilum, m.a. Norðurlöndunum, hafi ekki verið tryggð“.

Hér virðist fara fram heiftarleg barátta um keisarans skegg, því svo virðist sem „vinaþjóðir“ á Norðurlöndunum taki ekki í mál að ganga endanlega frá lánsloforðum sínum fyrr en fyrir liggi hvernig hagað verði framhaldi á lánafyrirgreiðslu AGS.

Það er á þessu sviði sem ríkisstjórnin gæti sýnt hvað í hana er spunnið með því að taka af skarið um forgangsröðun þessara aðila og ganga þannig frá málum að þeir sjái sér ekki báðir hag í því að neita að standa við loforð sín fyrr en hinn hefur gert það.

Ég spyr í einfeldni minni hvort menn hafi talið að ekki hafi verið nein verkefni til að sinna nema að eyða dýrmætum tíma í ESB-maníu Samfylkingarinnar.

Sú þráhyggja ætlar að verða okkur dýr. 

 


mbl.is Vonast eftir láni í lok ágúst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband