Afneitun og hroki

Þegar ekki er lengur unnt að væna Davíð í Seðlabankanum um ofsóknir á hendur Bónusveldinu er gripið til þess að væna Davíð á Morgunblaðinu um ofsóknir á hendur Bónusveldinu, þó nú sé Snorrabúð stekkur.

Ekki kemur fram hvað það er við fréttina um eignakaup Jóhannesar í Bandaríkjunum, sem gerir hana ranga. Hún er bara röng. Það kemur heldur ekki fram hvað rangt sé við frétt um að stór fasteign hafi verið færð á milli félaga til að koma henni undan örmum réttvísinnar og bærra yfirvalda. Fréttin er bara röng.

Það er óneitanlega notalegra til þess að vita að eignir séu vel geymdar í öðru landi þar sem þær eru í skjóli laga viðkomandi lands. Kannski í friði fyrir Davíð.

Þetta væl gengur ekki lengur. 

Ljóminn, hafi hann nokkurn tíma verið til, er orðinn að leiðindaskugga.

Menn, sem héldu því eitt sinn fram að það væri argasti ósómi að þurfa að búa við 30 - 40% markaðshlutdeild, en brugðust ókvæða við þegar samkeppnisyfirvöld sektuðu þá fyrir 50 - 60% hlutdeild, eru orðnir illa lens með röksemdafærslur. Það er ekki hlustað á þá lengur, sama hvað þeir segja og hvað þeir tjá sig um.

Lét einhver sér virkilega detta í hug að Jóhannes í Bónus stæði í verzlunarrekstri vegna einskærs áhuga hans á aðstæðum þeirra, sem minna mega sín? Jú, kannski Bubbi Morthens.

Jóhannes sagði árið 1991: „Það eru rosaleg völd fólgin í því að vera smásali“. Með þessu var viðmælandi Tímans í raun að segja að menn, sem stunduðu þá iðn og kæmust síðan í markaðsráðandi stöðu, 30 - 40% markaðshlutdeild, væru hættulegir.

Stafar minni hætta af þeim, sem ná 50 - 60 prósentum, eða hvað? 


mbl.is Jóhannes segir fréttina ranga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrirsláttur

Nú er engu líkara en Steingrímur J. Sigfússon sé búinn að fá Breta (og Hollendinga) í lið með sér við að reyna að koma í veg fyrir að þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave 2.

Þetta skilgetna afkvæmi Svavars Gestssonar og Indriða H. Þorlákssonar, sem getið var í umboði Steingríms, verður að skjóta í kaf svo ekki fari á milli mála hver vilji þjóðarinnar raunverulega er í þessu máli.

Fréttaleki Breta sprakk framan í þá. Fjölmiðlaumfjöllun er svo til alls staðar jákvæð Íslendingum eftir í ljós kom að Bretar og Hollendingar hafa stillt dæminu upp sem hreinni og klárri fjárplógsstarfsemi.

Sé raunin sú að sett verði fordæmi með atkvæðagreiðslu á Íslandi, sem síðan gæti haft það í för með sér að aðrar þjóðir sjái sér leik á borði og heimti viðlíka ferli, þá er það einungis af hinu góða.

 


mbl.is Leynifundur um Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allir á móti öllum?

Hinn djúpstæði klofningur Vinstri-grænna er ekki ný staðreynd, en af einhverjum orsökum hefur mönnum ekki þótt taka því að fjalla til þessa náið um þann klofning, sem flengríður flokknum.

Það er nánast ekkert, sem flokksmenn geta verið sammála um, hvað þá að ljá eyra þeim skoðunum, sem hæst ber í samstarfsflokknum í ríkisstjórn. Þar er líka hver höndin upp á móti annarri.

Hversu bagalegt það er fyrir hag lands og þjóðar að stöðug illindi séu í fyrirrúmi innan annars stjórnarflokksins, þegar menn þurfa að einbeita sér að endurreisn og uppbyggingu, þarf ekki að tíunda.

Vinnubrögðum Steingríms J. Sigfússonar er þannig háttað, að hann hefur greinilega lítinn sem engan áhuga á að sinna starfi í þágu þjóðar; það eina, sem skiptir máli er að halda völdum. Þráhyggjupot hans í Icesave-málinu, þar sem hann taldi það skipta öllu máli að styðja við hörmulega illa grundaða ákvarðanatöku hins gamla lærimeistara, Svavars Gestssonar og félaga hans, Indriða H. Þorlákssonar, er öllum kunn og verður honum og flokki hans til ævarandi skammar. Þar hefur það skipt meira máli að hanga eins og hundur á roði í stað þess að gera sér grein fyrir einföldum staðreyndum.

Ekki er langt síðan Vinstri-grænir héldu flokksráðsfund, sem að hætti flokka af þeirri gerð lauk í mikilli einingu þar sem samkomulag tókst um afreiðslu allra ályktana.

Eitt var það þó, sem mönnum þótti vanta í ályktanasyrpu fundarins, því einhvern veg æxluðust hlutir þannig að ekki var einu aukateknu orði varið í umfjöllun um Icesave-málið. Ekki einu.

Þetta stærsta mál nútímans fékk ekki nokkra umfjöllun á meðan lopapeysudeildin fékk góðan tíma til að fjalla um líf og heilsu vaðfugla í Afríku.

Þeir eru sennilega ekki margir, sem vilja vaðfuglum í Afríku illt, en hefði ekki verið ástæða til að fjalla einnig um það mál, sem hæst ber um þessar mundir.

Hrunið var skelfilegt, en það, sem á eftir kemur, með Vinstri-græna í ráðandi hlutverki, er litlu betra.

 


mbl.is Djúpstæður klofningur hjá VG
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar skýrslan kemur, þá kemur hún...

Mikil lifandis ósköp á ég erfitt að átta mig á þessum taugatitringi vegna seinkunar á úrkomu skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis.

Það er ljóst að hún kemur út og hvort það verður a morgun, eftir viku, tvær vikur, jafnvel mánuð, held ég að skipti akkúrat engu máli. Skipti a.m.k. það litlu máli að lítil sem engin ástæða sé fyrir einn eða neinn að fara á taugum útaf málinu. Helzt virðast það nú vera ljósvakamiðlarnir, sem sturlast af forundran og heilagri vandlætingu yfir seinkun plaggsins.

Það er nú einu sinni þannig að ekki er verið að véla um einhver smámál; hrun íslenzks hagkerfis og aðdraganda þess með öllu því, sem kom í kjölfar hrunsins og varðar okkur öll.

Heldur vil ég sjá vel unna skýrslu, sem kemur kannski einhverjum vikum síðar út en lofað var í upphafi, en eitthvert bráðræðisplagg, gefið út í ofboði.

Hér er vandað fólk að sinna vandaðri vinnu.

Eigum við ekki að halda ró okkar?


mbl.is Skýrslunni enn frestað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Erum við hissa á því?

Eftir afrek þeirra félaga Svavars Gestssonar og Indriða H. Þorlákssonar, sem unnið var í umboði Steingríms J. Sigfússonar, er ekki við öðru að búast en menn gangi af fundi þegar til raunverulegra samningaviðræðna kemur, en Bretar og Hollendingar virðast standa í þeirri trú að enn sé unnt að nota gamla garminn sem viðmið.

Nú taka við kosningar á landsvísu um „afrekið“, sem þeir félagar Svavar og Indriði skildu eftir sig. Þar mun þjóðin láta í ljós sína skoðun og þarf enginn að efast um hver hún verður.

Hitt er að verða ljóst að skipta þarf um forystu í fjármálaráðuneytinu. Meðan Steingrímur J. hangir þar enn, verður engan veg unnt að sannfæra Breta og Hollendinga um hver vilji Íslendinga sé. Steingrímur hefur alltof oft látið að sér kveða sem sérstakur hagsmunagæzlumaður þeirra sem við er loks reynt að semja. Það er ekki annað að sjá en að hann verði að hverfa.

Hans tími er kominn. Heldur betur kominn - og liðinn.

 

 


mbl.is Íslendingar sagðir hafa gengið af fundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hinn stjórnarskrárvarði réttur

Það kemur stöðugt betur í ljós að ískenzk stjórnvöld ætluðu sér að nota hvert það tækifæri, sem gæfist til að komast hjá því að þurfa að fá skilaboð þjóðarinnar í hausinn.

Það átti að gera allt til að komast hjá því að halda þjóðaratkvæðagreiðslu, sem er stjórnarskrárvarinn réttur okkar til að segja álit okkar á klúðri Steingríms J. Sigfússonar og félaga, samningnum við Breta og Hollendinga.

Fjármálaráðherrann lætur nú hafa eftir sér að „allt bendi til þess“ að atkvæðagreiðslan verði haldin þann 6. marz. Greinilegt er, hins vegar, að flest hefði verið ákjósanlegra fyrir fjármálaráðherrann en að sjá þessar kosningar verða að veruleika.

Það hefði margt verið til vinnandi fyrir fjármálaráðherrann að koma í veg fyrir að samningur félaga Svavars og félaga Indriða yrði boðinn undir þjóð í atkvæðagreiðslu og felldur þar.

Félagi Svavar „nennti ekki að hafa þetta hangandi yfir [s]ér lengur“.

Hann nennti því ekki og verður nú að horfast í augu við afleiðingarnar. Letin getur verið dýrkeypt.

 

 


mbl.is Fundi lokið án niðurstöðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sannir framverðir

Það er ekki ofmælt að ef ekki hefði þessi hreyfing, InDefence, komið til, væri nú, fyrir tilstuðlan Steingríms J. Sigurðssonar, búið að gangast undir einhverja þá hörmulegustu afsamninga, sem um getur í Íslandssögunni.

Ég held það sé ekki brýnt að endursegja hér inntak hinna „glæstu“ afurða samninganefndar þeirra félaga Svavars Gestssonar og Indriða Þorlákssonar. Þess má þó geta að hefðu ósköpin verið látin dynja á okkur, yrðum við og afkomendur okkar skríðandi í efnahagslegri for um ótalda áratugi.

Öllum ætti að vera kunnur árangur feigðarfarar þeirra félaga, en engu að síður má, í leikhúsi fáránleikans, sjá upphrópanir og skæting, sem benda ekki aðeins til skammsýni og heimsku, heldur beinlínis til forpokunar, sem jaðrar við óheilindi.

Ég get ekki stillt mig um að birta eftirfarandi, sem sjá má á bloggsvæði eins aðdáenda snillinganna frá Vinstri-grænum:

„Þessi félagsskapur [InDefence] sem samanstendur aðallega af flokksbundnum framsóknarmönnum á stóran þátt í því að hér er enn allt í hers höndum útaf Icesave málinu.  Það er búið að benda á að tafir málsins kosta þjóðina tugi milljarða á mánuði en því miður virðist fólk ekki skilja það.“

Síðan segir: „Takk stjórnarandstaða, forseti og indefence fyrir að viðhalda kreppunni hér.“

Það þarf ekki að segja mikið meira. 

 

 


mbl.is InDefence til Hollands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gott bú?

Með fullri virðingu fyrir Jóni Kaldal sem einstaklingi, er erfitt að sjá hvernig hann getur réttlætt það að segjast hafa skilað „góðu búi“. Það er ekki einfalt að sjá hvernig Jón getur verið „ánægður með [...] rekstrarlega þáttinn“.

Þetta „góða bú“, sem er svo vel rekið að mati Jóns Kaldal er afurð taumlauss fjárausturs í formi (oft) inntakslítilla auglýsinga frá eigendum Fréttablaðsins, svo ekki sé minnst á þann óbeina styrk, sem fengizt hefur með sérstakri meðferð í bankakerfinu, aðallega Landsbankanum og Íslandsbanka, sem sætta sig við það að ekki sé greitt af skuldum vegna erfiðleika í rekstri.

Það er lítill vandi að reka blað, sem getur gengið að rekstrarfé sem gefnu hjá eigendum sínum, en borgar ekki af skuldum.

„Góða búið“ er skuldsett svo nemur milljörðum króna í kompaníi við aðra miðla þess, sem áður var vitnað í sem Baugsveldið. Um það „veldi“ er ekki þörf að fara mörgum orðum í dag. Um miðlana má hins vegar láta það fljóta með að í desember sl.voru skuldir þeirra í nánd við tólffaldan rekstrarhagnað.

Talandi um gott bú.


mbl.is „Ég var rekinn“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnarskrárvarinn réttur

„Bæði fjármála-og utanríkisráðherra telja þjóðaratkvæðagreiðslu óþarfa ef nýir samningar nást.“

Flest láta menn sér detta í hug til að koma í veg fyrir að þjóðin segi álit sitt á afsamningum vinstri stjórnarinnar.

Hafa verður í huga að  í 26. gr. stjórnarskrárinnar er kveðið á um að þjóðaratkvæðagreiðsla skuli haldin ef forseti synjar lagafrumvarpi staðfestingar.

Það hefur gerzt og við viljum okkar atkvæðagreiðslu og ekkert múður!

Það skiptir engu þó vinstri mönnum finnist þeir setja ofan við að lagaklúður þeirra eigi ekki upp á pallborðið hjá þjóðinni.

 

 


mbl.is Þjóðaratkvæði um nýjan samning?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í alla staði óaðgengilegt

Hortugheit og frekja eru tveir þættir, sem ekki gefast vel í viðræðum og samningu milli aðila. Það er nokkuð ljóst hvað það er, sem Hollendingar (og Bretar) vilja að gengið sé ut frá áður en haldið er áfram í þeirri lotu, sem nú er hafin.

Ríkisábyrgð er sá þáttur, sem hvað þyngst vegur í kröfum viðsemjenda okkar og er alfarið óásættanlegur.

Þá er þess krafizt að skuld sú, sem Hollendingar og Bretar stofnuðu við sjálfa sig, án nokkurs samráðs við Íslendinga, verði að fullu greidd, án sérstaks tillits til uppgjörs á þrotabúi Landsbankans. Þessi krafa er svo einstrengingsleg og fjarri öllu því, sem sanngjarnt má telja, að hana má ekki virða viðlits. 

Haldi Hollendingar og Bretar kröfum sínum til streitu, verður að sýna fram á það í eitt skipti fyrir öll með þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave-samninginn hver vilji þjóðarinnar er. Vel má vera að niðurstaða þeirrar atkvæðagreiðslu (fjármálaráðherra ætlar að greiða atkvæði með stöðu Hollendinga og Breta) vegi ekki þungt hjá viðsemjendunum, en þeim skilaboðum hefur þó verið komið á framfæri að stjórnvöld væru ekki að vinna í umboði þjóðarinnar ef svo færi að þeim dytti í hug að lúta í gras fyrir erlendum hagsmunum.


mbl.is Ísland fallist á forsendurnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband