Svipar til Milestone

Fréttin um sölu eigna Soffoníasar Cecilssonar í Grundarfirði til annars félags, SC hf., færsla eigna á nýja kennitölu, skuldir skildar eftir á þeirri gömlu, minnir óneitanlega á tilburðina hjá Milestone þegar búið var að spila allt í rúst. Setja átti upp blekkingardæmi til að halda eignunum undir yfirráðum vanhæfra eigenda, en komast hjá að standa skil á skuldum.

Það gekk ekki og nú er ekkert eftir af Milestone. Tilburðir meirihlutaeigenda þessa áður gagnmerka útgerðarfyrirtækis eru dæmdir til að fara sömu leið. Það verður ekkert eftir af fyrirtækinu. Það virðist eins og stjórnendur fyrirtækisins átti sig ekki á þeirri einföldu staðreynd að rekstur þess er alfarið upp á náð Landsbankans. Veiðiheimildir eru veðsettar þar og gott betur. Skuldsetningin er svo yfirgengileg, að engin velvild nægði til að leyfa rekstrinum að halda áfram, hvað þá að kljúfa eignir frá og láta skuldir verða eftir í órekstrarhæfri einingu.

Þetta er allt hið ævintýralegasta dæmi, sem á ekki möguleika á að ganga upp, hvorki að því er varðar bankann, né heldur þriðjungseiganda gamla félagsins, sem til stendur að skilja eftir sem skel.

Þetta er með slíkum ólíkindum að maður á erfitt með að trúa að menn, sem væntanlega telja sig sæmilega viti borna athafnamenn, láti sér detta annað eins í hug.


mbl.is Skip og veiðiheimildir í nýtt félag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er búinn að taka af skarið

„Hann hafi sjálfur talið eðlilegt og kosið að víkja í öllum málum sem varða bankahrunið. Þau séu þó aðeins brot af því sem embættið fær til meðferðar“.

Þetta er sagt um Valtý Sigurðsson, ríkissaksóknara og kemur fram í viðtali hans við Morgunblaðið. Í viðtalinu segir hann að krafa um að hann víki alfarið úr embætti ríkissaksóknara sé ekki studd lögfræðilegum rökum. 

Ég leyfi mér að benda á að krafa Joly um að ríkissaksóknari víki frekar en hann hefur þegar gert er ekki studd neinum rökum, hvorki lögfræðilegum né almennum. Það eina, sem fram hefur komið þeirri kröfu til stuðnings eru fullyrðingar Joly. Þær fá, hreinlega, ekki staðizt. 

„Óheppilegar yfirlýsingar“ [Evu Joly], segir ríkissaksóknari. Ég leyfi mér að taka dýpra í árinni. Þetta eru ástæðulausar og barnalegar yfirlýsingar, auk þess að vera algjörlega ógrundaðar.


mbl.is Valtýr vill ráða Evu Joly
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Treysta skal á Sjálfstæðisflokkinn

Nú féllust mér hreinlega hendur. Þarna sitja hinir miklu leiðtogar, tveir saman og hnípnir, vegna þess að allar líkur eru á því að hinn glæsti samningur Svavars Gestssonar og Indriða H. Þorlákssonar um lúkningu Icesaeve-deilunnar hafi ekki þann meirihluta á Alþingi, sem á þarf að halda. Þessi glæsta ríkisstjórn, sem hefur sér það helzt til afreka unnið að koma litlu sem engu í verk frá því hún tók fyrst til starfa 1. febrúar sl.

Fyrst var stjórnin í minnihluta og naut þá stuðnings Framsóknarflokksins. Nú er hún aftur að komast í minnihluta og virðist þá telja einsýnt að hún muni njóta stuðnings Sjálfstæðisflokksins. Hér er, væntanlega, verið að tala um þingmenn, sem ekki var unnt að treysta fyrir upplýsingum um hvað hinn glæsti samningur snýst; hver eru hans helztu efnisatriði.

Stendur það ekki forsvarsmönnum ríkisstjórnarinnar nær að gera ráðstafanir til að tala við eigin þingmenn, þar af einn í hlutverki ráðherra og annan í hlutverki þingflokksformanns, áður en farið er að gráta utan í þingmenn annarra flokka?


mbl.is Sjálfstæðismenn til bjargar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sprengihætta?

Fréttamaður sagði að þjóðfélagið hafi nötrað í gær vegna þeirra skoðana, sem Joly lét hafa eftir sér.

Dómsmálaráðherra segir að það sé hlutverk Joly að segja sínar skoðanir og bætir því svo við að hún sé „bara dínamítkassi“.

Ég leyfi mér að vona að þessi nýskipaði angi framkvæmdavaldsins á Íslandi (virðist í raun vera orðin framkvæmdavald, ein og sér) sé ekki það ófyrirsjáanlega sprengiefni, sem dínamít í lausu getur verið.

 


mbl.is Eva Joly er dínamítkassi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Landsbankinn undan stjórn Breta - Tilkynning frystihússins

Eins og meðfylgjandi viðhengi ber með sér hafa brezk yfirvöld formlega lýst því yfir að Landsbankinn, og þar með Ísland, sé, frá 15. júní, ekki lengur á lista yfir þekkt hryðjuverkasamtök og glæpalýð víða um heiminn.

Þakki nú hver sem vill fyrir þetta vinsemdarverk Breta. 

Aðrir bölva upphátt, eða í hljóði, yfir þessum versta gjörningi, sem landið hefur orðið fyrir af hendi svokallaðrar siðmenntaðrar vinaþjóðar.

 


Með eina ríkisstjórn í vasanum

Það er varla nema von að ríkisstjórnin styðji Joly. Ríkisstjórnin er Joly.

Konukindin er búin að taka sér meiri völd en nokkur ríkisstjórn léti sér detta í hug og nú snýst hver um annan þveran við að gera henni til geðs.

Það sem ég átta mig ekki almennilega á, er það sem kemur fyrir sjónir sem sjúklegur þrælsótti við þessa konu. Þetta er komið út yfir velsæmismörk.


mbl.is Ríkisstjórn styður Joly
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver er vanhæfur?

Það er erfitt að sjá hvernig ríkissaksóknari, Valtýr Sigurðsson, kunni að hafa brugðizt því að verða við eðlilegum kröfum um vanhæfi. Þetta hafði hann einmitt gert, en sá/þeir, sem brugðust í málinu var ríkisstjórnin með því að draga úr hömlu að skipa saksóknara í hans stað eftir yfirlýsingu Valtýs um að rétt og æskilegt væri að annar yrði settur í hans stað.

Að láta taka sig svona í bólinu eftir allt masið um gegnsæi er lítt til þess fallið að vekja traust. Á þessu er ekki tekið fyrr en vakið er máls á því opinberlega með kvörtunum við sérstakan saksóknara og því borið við að hann sé ekki á vetur setjandi.

Aðgerðaleysi og klaufaskapur þessarar lítt hæfu ríkisstjórnar virðist ekki eiga sér nein mörk.


Ferli ákvarðana

Það hlýtur að vera ákvörðun íslenzkra stjórnvalda að ákvarða hvort einstakir embættismenn víki úr störfum sínum, ekki aðstoðarmanns/ráðgjafa Sérstaks saksóknara.

Við verðum að hafa það í huga að þó konan kunni að hafa unnið vinnuna sína við rannsókn á Elf, þá er hún ekki alvitur um rannsóknamál, hversu flókin sem þau kunna að vera.


mbl.is Vill að ríkissaksóknari víki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver styður Evu Joly?

Það verður ekki sakast við Sérstakan saksóknara þótt frú Joly vilji hætta ráðgjafarstörfum sínum. Það er ekki hans að ákveða hvort konunni er lagt til viðunandi húsnæði fyrir starfsaðstöðu eða hvort farið sé að ráðum hennar aða ekki.

Sökin, ef um sök er að ræða, liggur hjá ríkisstjórninni, sem hét gagnsæi í vinnubrögðum. Það gengur ekki að hella sér yfir embættismann og bera hann sökum, sem eru alls ekki hans.

Leitið viðbragða hjá Forsætisráðherra og ráðherrum fjármála og dómsmála. Úrskurðar- og aðgerðavald í málum á borð við óánægju Joly er hjá þeim.


mbl.is Góð og gagnleg skoðanaskipti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Já, verður hún ekki bara að fara?

Einn bloggari setur fyrirsögn á færslu sína í spurningarstíl: "Er vonarglæta réttlætis að fjara út?". Annar segir blákalt "Farið hefur fé betra".

Einhvers staðar á milli þessara póla er hugsanlega að finna fullyrðingu, sem passar við brotthvarf Evu Joly, ef af slíku brotthvarfi verður næstu daga eða vikur.

Það er allsendis með ólíkindum að láta sér detta í hug að þessi kona sé, eða geti verið, hin eina "vonarglæta réttlætis" á Íslandi. Hún var ráðin til að gegna ráðgjafarstörfum og var gengið út frá því að hún hefði dvöl á Íslandi einhverja fáa daga í mánuði. Nú kvartar konan yfir því að ekki sé farið að ráðum hennar, sem segir okkur að ekki sé tekið mark á henni. Ráðgjafar, sem þannig fer fyrir eiga ekki nema eina útgönguleið. Þeir hætta og fara heim.

Þar sem ekki er vitað um hvað deila Joly við Sérstakan saksóknara snýst, a.m.k. ekki í bili, verður ekki unnt að leggja dóm á réttmæti deilunnar. Frúin virðist þó ekki eiga nema einn kost.


mbl.is Eva Joly íhugar að hætta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband