Meira af lífeyrissjóðum, meira af LSK

Nú er svo komið að heiðursmennirnir framsóknarmaðurinn Ómar Stefánsson og samfylkingarmaðurinn Flosi Eiríksson vilja ekki tjá sig um póstinn. Þetta kemur fram í frétt í Morgunblaðinu í dag. Hvaða póstur er það svo sem þessir öðlingar vilja ekki tjá sig um? Jú, það er tölvupóstur, sem framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs starfsmanna Kópavogs sendi einum stjórnarmanna, sem síðan framsendi á aðra meðlimi stjórnar, þ.á.m. ofangreinda tvo herramenn. Í þessum pósti kom fram að framkvæmdastjórinn hefði smitazt af hræðslu endurskoðandans við að Fjármálaeftirlitið gæti tekið upp á því að fara yfir bókhald sjóðsins.

Ástæða þess að FME gæti haft áhuga á að skoða bókhaldið var sú að lánveitingar til bæjarsjóðs Kópavogs voru komnar fram úr leyfilegu hámarki.

Báðir hafa heiðursmennirnir ofangreindu sakað Gunnar I. Birgisson, fráfarandi bæjarstjóra Kópavogs, og formann stjórnar lífeyrissjóðsins, um að hafa haft uppi blekkingar og sent Fjármálaeftirlitinu aðrar upplýsingar en stjórn LSK fékk í hendur. Með vísan til slíks ósóma væri, að sjálfsögðu, eðlilegt að krefjast þess að Gunnar hyrfi úr stóli bæjarstjóra og bæjarfulltrúa.

Nú er full vissa fengin fyrir því að öðlingarnir tveir voru að öllu leyti fyllilega meðvitaðir um þá þætti málsins, sem þeir telja svo andstyggilega að Gunnar I. Birgisson verði að taka pokann sinn sem bæjarfulltrúi. Það hefur hann nú gert, tímabundið, meðan á skoðun málsins stendur.

Spurningin, sem bíður svars er sú, hvort bæjarfulltrúarnir Ómar og Flosi sjái nú ekki sóma sinn í að fara að eigin ráðum og láti af störfum, tímabundið eða fyrir fullt og allt.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband