Öll sagan? Langt í það

Það á vissulega eftir að skrifa alla söguna, eins og komizt hefur verið að orði. Stóran hluta hennar vitum við þó og það er sá hluti, sem snertir okkur flest.

Íslendingar bjuggu við ofþanið banka- og fjármálakerfi, sem ekki var í neinu samhengi við þjóðhagslegan raunveruleika. Kerfi, sem var að umfangi margföld VLF, fékk ekki staðizt til lengdar, sérstaklega ef kjör versnuðu á alþjóðamörkuðum. Með slíka stærð var ekki lengur um að ræða neinn lánveitanda til þrautavara. Seðlabankanum var langt um of að verja bankakerfið með þann mjög svo takmarkaða gjaldeyrisvarasjóð, sem bankinn hafði yfir að ráða.

Þegar erfiðara varð að afla ódýrs heildsölulánsfjár hófu viðskiptabankarnir víða stórsóknir á innlánsmarkaði án þess að baktryggja sig gegn áhlaupum. Þessar útrásir enduðu með skelfingu og nægir þar að benda á Icesave-ævintýrið.

Neyzlu- og fjárfestingaæði rann á venjulega Íslendinga. Innflutningur bíla og hvers kyns neyzluvarnings var löngu farinn út fyrir velsæmismörk. Við eyddum, fjárfestum og spanderuðum eins og við ættum lífið að leysa.

Þær stofnanir, sem hafa áttu eftirlit með bönkum og fjármálastofnunum voru, ljóslega, ekki starfi sínu vaxnar og gerðu lítið sem ekkert til að hemja þann stjórnlausa yfirvöxt, sem hlaupinn var í banka og fjármálastofnanir.

Fjármálasiðferði virtist ekki lengur til og nægir að benda á þann mikla fjölda skúffufyrirtækja, sem komið var á fót og höfðu þann tilgang einan að kaupa hlutabréf bankanna, sem veittu fyrirækjunum lán án nokkurra takmarkana og létu nægja að taka veð fyrir lánunum í hlutabréfunum. Oft á tíðum voru þessi eignakaup til þess eins hugsuð að blása út eignaverð til þess eins að bæta veðhæfi og hækka verð hlutabréfa.

Um hinn fjármálalega hluta hrunsins vitum við flest það sem við teljum okkur þurfa að vita og afleiðingarnar hafa, í einu orði verið skelfilegar. Nú er að því komið að greina hinar pólitíska þátt þessara hörmunga. Ein bók er þegar komin út, rituð af Ólafi Arnarsyni. Önnur, eftir Guðna Th. Jóhannesson, er í burðarliðnum. Margar fleiri verða eflaust ritaðar og er þeirra beðið með eftirvæntingu. Við viljum vita hvaða öfl, einstaklingar og atvik urðu til þess að þjóðfélag, sem verið hafði eitt hið bezt stæða í heimi komst á vonarvöl með öllum þeim erfiðleikum og hörmungum, sem slíkri stöðu fylgja. 


mbl.is Mesta umrót síðan í stríðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband