Óhugnaður

Ég hef ekki fundið marga jarðskjálfta um ævina. Man ekki eftir nema tveimur, sem einhverju nemur. Þeir voru báðir hressilegir og ég er ekkert spenntur fyrir því að finna fleiri.

Í fyrra skiptið var ég ungur maður (já, þetta var fyrir löngu síðan) við vinnu á skrifstofum Reykjavíkurborgar. Skjálftinn kom, anzi snarpur, en mér fannst ekki viðeigandi að hlaupa út. Yfirmaður minn kom þá, náfölur og greinilega hálfsturlaður af hræðslu, stormandi með pappíra í hendinni og skipaði mér að yfirgefa bygginguna án tafar. Hún myndi örugglega hrynja. Lét ég ekki segja mér það tvisvar, en minningin um þennan, annars rólega og yfirvegaða mann, hlaupandi eins og hann ætti lífið að leysa, sýnir mér, enn í dag, mér hvaða ótta og skelfingu jarðskjálftar geta vakið með fólki. 

Hinn skjálftinn kom 17. júní árið 2000. Sá var myndarkippur, en einhvern veginn hafði ég ekki tíma til að verða sleginn ótta. Það var ekki fyrr en eftirá að þessi óhugnanlega og óvænta bylgjukennda hreyfing gerði mér ljóst að jarðskjálftar eru ekki eitthvað, sem ég mun nokkurn tíma geta tekið sem sjálfsögðum hlut.

Sennilega er það vegna þess að þarna er um að ræða fyrirbæri, sem enginn fær ráðið við eða stjórnað.

Mannskepnunni er víst ekki ljúft að vera í stöðu, sem hún veit fyrirfram að hún hefur enga stjórn yfir og er dæmd til að tapa. 

 

 

 


mbl.is Skjálftinn mældist 4,7 stig
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Elínborg Skúladóttir

Skil ég vel fyrstu hræðslu við skjálfta, enn í annað sinn er óttinn næsta engin, það besta er að fæðist maður í hressilegum skjálfta, hverfur óttinn með öllu, þetta var mér skaffað í fæðingargjöf, því hefur ótti aldrey verið tengdur jarðskjálfta í minni vitund, bjó í Hveragerði um tíma, aldrey liðið betur verst var að þar var ekki hægt að halda heimili vegna atvinnuleysis og of dýrt að sækja vinnu til Rvík.

Hef búið í Svíðþjóð, og leið ekki vel eitthvað vantaði í jörðina, svolítið líf? smá skjálfta? kanski!

En skil þig samt vel, svona þetta með óttann.

Elínborg Skúladóttir, 30.5.2009 kl. 01:28

2 Smámynd: Sólveig Þóra Jónsdóttir

Ég fann þennan skjálfta vel enda bý ég á Vatnsleysuströnd, ekki langt frá upptökunum. Ég óttast jarðskjálfta og skammast mín ekkert fyrir það.

Sólveig Þóra Jónsdóttir, 30.5.2009 kl. 03:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband