Fjármálasukk brezkra þingmanna

Horfði í kvöld á viðtöl við brezka þingmenn, þ.á.m. einn ráðherra, Shahid Malik, dómsmálaráðherra, engjast sundur og saman undir einföldum, en beinskeyttum, spurningum.

Malik þessum tókst að slá öllum öðrum við í svindli og svínaríi, a.m.k. enn sem komið er. Malik var kosinn á þing árið 2005 og síðan þá hefur honum tekizt af hafa af brezkum skattborgurum um 67.000 pund vegna kostnaðar við rekstur á heimili sínu í London. Það gera litlar 13 milljónir króna á núverandi gengi. Að heyra fullorðinn mann, sem kosinn var af samborgurum sínum til að gegna trúnaðarstöðu á þingi þeirra Breta, réttlæta sukkið er næstum grátlegt. Það var sama hvað spurt var um; allt var innan marka hófsemdar og fullkomlega eðlilegt. Það tók þó smá tíma að útskýra hvers vegna skattborgarar hefðu átt að standa undir kostnaði við heimabíó uppá 2.600 pund (500.000 kr.), en að lokum komst heiðursmaðurinn að þeirri niðurstöðu að þetta væri langt innan velsæmismarka. Þetta hlyti sjónvarpsmaður að skilja, þó hann væri greinilega að leitast við að ata sárasaklausan þingmanninn auri og ræna hann mannorðinu með andstyggilegum dylgjum og úrúrsnúningum.

Svo er það Elliot Morley, fyrrverandi ráðherra í stjórn Verkamannaflokksins, sem tókst að kría út lítil 16.000 pund (3 millj. kr.) úr sameiginlegum sjóðum þeirra Breta til greiðslu á húsnæðisláni. Það, sem helzt var aðfinnsluvert við þessar greiðslur, var að lánið hafði verið greitt upp 18 mánuðum áður.

Bær yfirvöld í Bretlandi telja þetta varða við lög um fjársvik og þjófnað. Þá er bara að vona að ofangreindur Shahid Malik komi hvergi að undirbúningi málsins.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband