Fyrir stuttu síðan hitti ég fimm kunningja, sem áttu viðskipti við gömlu bankana þrjá. Það, útaf fyrir sig, er svo sem ekkert til að undrast á, því ég held að þeir séu vandfundnir, sem ekki hafa haft einhver samskipti við þessar stofnanir. Landsbankinn var alltaf Landsbankinn; helzti forveri Íslandsbanka var Verzlunarsparisjóðurinn; Kaupþing á helzt rætur að rekja til Búnaðarbankans.
Slík var velvildin í garð þessara stofnana að ekki mátti halla á bankana þeirra í umræðum. Menn litu á bankana sem hálfgildings vini sína, jafnvel fjölskylduvini. Þeim var treystandi í einu og öllu af þeirri einföldu ástæðu að þeim, eða þá forverum þeirra, hafði alltaf verið treystandi í einu og öllu. Þar höfðu, mann fram af manni, verið geymdir fjármunir fjölskyldna. Þegar um var að ræða merka atburði þeirra yngstu í fjölskyldunum voru stofnaðir reikningar í þeirra nafni eða þá lagt inná reikninga, sem þeir áttu fyrir.
Nú er öldin, heldur betur, önnur. Enginn þessara fimm vill kannast við að hafa átt uppáhaldsbanka. Allir urðu þeir fyrir tjóni af völdum þessara fyrrum fjölskylduvina. Enginn kvaðst mundu leggja þar inn fjármuni til hátíðabrigða og fjórir (80%!) bíða óþolinmóðir eftir að fram á sjónarsviðið komi ný stofnun, sem hægt verður að treysta fyrir meðferð fjármuna. Ekki var á þeim annað að skilja en að með því ættu þeir við íhaldssamt og varfærið fyrirtæki, sem sæktist ekki endilega eftir því að koma sér upp útibúum í Lúxemburg, Makau eða Dubai. Helztu kröfurnar, sem þeir gera eru að þar megi geyma fjármuni á öruggan hátt, á viðunandi, hóflegum vöxtum.
Fyrir hönd þessara fimmmenninga spyr ég þá, án þess að hafa fengið til þess umboð: Hvað tefur MP banka?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.