Enn af lífeyrissjóðum

Í pistli Agnesar Bragadóttur í sunnudagsblaði Morgunblaðsins er aðeins snert á þeim fjármálafurstum, sem flestir eru enn að, forsvarsmönnum lífeyrissjóðanna.

Undirstaða skrifanna er bók Jóns F. Thoroddsens, Íslenska efnahagsundrið, flugeldahagfræði fyrir byrjendur. Agnes er ekki yfir sig hrifin af vinnslu og frágangi bókarinnar og tínir til ásláttarvillur, málvillur, staðreyndavillur og hroðvirknislegan prófarkalestur sem helztu galla ritsins. Undir þetta tek ég sem og það að þegar slíka annmarka er að finna á riti um grafalvarlegt efni, fer ekki hjá því að stórlega dregur úr trúverðugleika þess.

Inntakið í skrifum Agnesar eru þó ekki tæknilegur ritdómur, heldur fer hún yfir þá þætti, sem nokkuð hafa verið í umræðunni undanfarna daga, málefni lífeyrissjóðanna. Fram kemur að a.m.k. þrír stærstu lífeyrissjóðir landsins, VR, LSR og Gildi, töldust til sérstakra vina Kaupþings. Áttu þeir mjög umfangsmikil viðskipti við bankann. Það er svo sem ekki í frásögur færandi, en í bók Jóns kemur fram og Agnes tíundar í grein sinni, að forsvarsmenn þessara lífeyrissjóða hafi þegið verðmætar gjafir og boðsferðir af Kaupþingi. 

Hlutverk stjórnenda lífeyrissjóða er fyrst og fremst að ávaxta fé okkar, sem hefur verið gert að greiða til þeirra iðgjöld. Eðli málsins samkvæmt þurfa þeir að hafa mikil samskipti við háttsetta starfsmenn banka, en það má ekki vera hægt að tengja þessi samskipti við neitt annað en hagsmuni okkar eigenda lífeyrissjóðanna, núverandi og verðandi lífeyrisþega. Við, þessir lífeyrisþegar, núverandi eða verðandi, gerum þá kröfu að samskiptin séu hafi yfir allan grun um neitt annað en eðlileg samskipti í okkar þágu. Við förum að hafa alvarlegar efasemdir um heilindi starfsmanna lífeyrissjóðanna, þegar sögur berast af utanlandsferðum, laxveiðiferðum og dýrum gjöfum.

Skondið er að við hlið greinar Agnesar Bragadóttur er pistillinn Staksteinar. Þar er fjallað um vandræðaganginn hjá Lífeyrissjóði starfsmanna Kópavogs. Kunnara er en svo að rekja þurfi nánar að Sjálfstæðismaðurinn Gunnar I. Birgisson, fyrrverandi bæjarstjóri, lét tímabundið af störfum bæjarfulltrúa vegna opinberrar rannsóknar á starfsemi sjóðsins. Nú er ljóst að tveir bæjarfulltrúar, sem hátt hafa haft um Gunnar með ásökunum um blekkingar, Framsóknarmaðurinn Ómar Stefánsson og Samfylkingarmaðurinn Flosi Eiríksson voru báðir með í ráðum þegar sendar voru upplýsingar til Fjármálaeftirlitsins og báðir vissu þeir að bókhald LSK myndi ekki standast skoðun FME. Samt sitja þessir heiðursmenn áfram í stjórn lífeyrissjóðsins. Gunnar I. Birgisson varð, að þeirra kröfu, að fara.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband