Fyrirsögn þessarar færslu er fengin að láni frá Staksteinum Morgunblaðsins í gær, föstudaginn 18. desember. Ekki var beðið sérstaklega um lánið, en vonandi verður sú yfirsjón virt til betri vegar.
Ástæða þess að fjallað er um þessa sérlega beittu útgáfu Staksteina er sú að skrifari á Facebook sá ástæðu til að birta niðurlag greinarinnar á heimasvæði sínu. Dáðst er jafnt að stíl sem innihaldi Staksteina.
Á þessu stigi málsins kemur Egill Helgason til sögunnar eins og hver önnur Silfurskotta og fer mikinn, en inntak viðbragða hans er taugatitringur og svekkelsi þegar fjallað er um jötusækni samfylkingarfólks. Segir hann að það sé sorgleg blinda og furðulegt að einhver skuli lepja þetta upp.
Það er nú svo. Hver er sú sorglega blinda, sem myndbirtist í því að m.a. er um það fjallað að einn af fyrrverandi starfsmönnum Landsbankans (hann sá um fjárstýringu á þeim bænum, góðu heilli) sé búið pláss á jötunni hjá samfylkingunni og því er velt upp hvort verið geti að sá hinn sami sérfræðingur í fjárstýringu hafi verið fenginn til að skrifa ræður fyrir ráðherra sinn, Árna Pál Árnason.
Ég fæ ekki stillt mig um að birta þetta niðurlag Staksteina, sem virðast hafa farið svo illa fyrir brjóstið á Agli Helgasyni, sérstaks hagsmunagæzlumanns samfylkingarinnar:
Skemmtilegast þætti þó Staksteinum að vita hver skrifar ræðurnar fyrir Árna Pál. Það þætti útgerðarmönnum og bændum gaman að vita líka. Skyldi það vera Yngvi Örn, sem sá um fjárstýringu fyrir Landsbankann gamla og þáði ekki nema sex milljónir á mánuði fyrir samkvæmt tekjublaðinu? Það hljóta að teljast bærileg laun, ekki síst með hliðsjón af því hvernig fór. Það er verulega gaman að því að sjá hvað þessir jafnaðarmenn hafa að jafnaði haft það jafnvel betra en almenningur og hvað þeir voru að jafnaði fljótir að jafna sig og rata á jötuna aftur. Það er eitthvað svo sætt og jólalegt við það að sækja svona fast í jötuna.
Svo mörg eru nú þau orð, sem eiga líklega eftir að valda ofannefndum Agli svefnleysi.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.