19.9.2009
Furðuleg viðbrögð forsætisráðherra
Jóhanna Sigurðardóttir leggur það mat á viðbrögð Sjálfstæðisflokksins að hann, ásamt öðrum í stjórnarandstöðu, hafi rofið trúnað með viðbrögðum sínum við hugmyndum Breta og Hollendinga um fyrirvarana við ríkisábyrgð. Þá segir forsætisráðherra að viðbrögðin hafi valdið sér vonbrigðum og endurmeta þurfi samskipti við stjórnarandstöðuna.
Það er ýmislegt, sem þarf að endurmeta þessa dagana, en þörfin á endurmati nær ekki til eðlilegra viðbragða Sjálfstæðisflokksins. Það, sem þarf að endurmeta er geta þessa forsætisráðherra til að sinna störfum sínum, flestum falin og á eilífum flótta undan hverjum þeim, sem eiga vill við hana orðastað um það, sem er að gerast á landinu.
Ég læt hér fylgja með yfirlýsingu, sem Sjálfstæðisflokkurinn sendi frá sér um ásakanir Jóhönnu Sigurðardóttur. Þessi yfirlýsing segir það, sem segja þarf um ásakanir forsætisráðherrans:
Þegar Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra ber Sjálfstæðismönnum það á brýn að hafa rofið trúnað varðandi viðbrögð Breta og Hollendinga í Icesavemálinu, þá er hún trú gamla máltækinu, að betra sé að veifa röngu tré en öngvu. Ekkert getur verið fjær sanni en að Sjálfstæðisflokkurinn hafi rofið trúnað.
Fulltrúar ríkisstjórnarinnar kölluðu forystumenn stjórnarandstöðunnar á sinn fund í gær til þess að gera þeim grein fyrir viðbrögðum Hollendinga og Breta við ákvörðun Alþingis varðandi Icesavemálið. Síðar um daginn var Fjárlaganefnd Alþingis einnig kynnt þetta mál.
Í fréttum í gærkvöldi og á vefmiðlum lágu fyrir yfirlýsingar forsætisráðherra og fjármálaráðherra sem tjáðu sig um málið og lýstu yfir ánægju sinni með viðbrögð breskra og hollenskra stjórnvalda. Í fréttum voru tíunduð einstök efnisatriði sem sögð voru vera úr svari ríkjanna. Þingmenn stjórnarflokkanna hafa í gær og í dag fjallað efnislega um málið.
Varaformaður Sjálfstæðisflokksins, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir tjáði sig ekki um málið efnislega, til þess auðvitað að rjúfa ekki þann trúnað sem óskað hafði verið eftir að viðhafður yrði. Sama var að segja um ályktun Þingflokks Sjálfstæðisflokksins sem send var út að afloknum fundi í gærkvöldi.
Umfjöllun Sjálfstæðisflokksins um þetta mál var því í hvívetna þannig fram sett að virtur var sá trúnaður sem um hafði verið beðið. Yfirlýsingar Jóhönnu Sigurðardóttur í fjölmiðlum nú í kvöld eru því í senn ósannar og ómerkilegar.
Forsætisráðherra sagði að þessi atburðarrás yrði til þess að endurskoða þyrfti samskiptin við stjórnarandstöðuna og hélt því síðan fram að meira samráð hefði verið haft af hálfu ríkisstjórnarinnar en dæmi væru um. Þetta er furðulegur málflutningur.
Ríkisstjórnin hefur ekki fylgt þeirri leið samráðs og samstarfs sem hún ræddi um fyrr á árinu. Ríkisstjórnin hefur þvert á móti unnið í anda tilskipana. Ríkisstjórnin hefur helst leitað eftir samstarfi þegar hún hefur misst stjórn á atburðarrásinni og hefur ekki getað lokið þeim málum sem hún hafði skuldbundið sig til að ljúka. Er Icesavemálið gleggsta dæmið um það.
Yfirlýsingu forsætisráðherra ber hins vegar að túlka sem hótun af hennar hálfu og vísbendingu um að mál verði til lykta leidd með átökum, en ekki samstarfi. Því verður að sjálfsögðu mætt eins og tilefni er til. En þingflokkur Sjálfstæðisflokksins mun eftir sem áður vinna af heilndum og málefnalega að þeim úrlausnarefnum sem fyrir liggja með hagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi.
Trúnaðarbrestur stjórnarandstöðu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.