„Sparðatíningur, upphrópanir og órökstuddar fullyrðingar“

Það er viðtal við Indriða H. Þorláksson, annan helzta Icesave-samningamanninn, í Morgunblaðinu í dag. Í viðtalinu lýsir Indriði undrun sinni á því að Íslendingar kunni ekki að greina aukaatriði frá aðalatriðum. Með viðtalinu er mynd þar sem samninganefndarmaðurinn virðist horfa góðlátlega til þessara kjána, sem hafi látið leiðast út í sparðatíning, upphrópanir og órökstuddar fullyrðingar.

Það má vel vera að tveir til þrír milljarðar króna, sem pukrazt hefur verið með, séu sparðatíningur í huga samninganefndarmannsins; aðrir, raunar flestir, deila ekki þessari skoðun með honum. Það er kannski þess vegna sem menn hafa lagzt í „upphrópanir“ og séu með „órökstuddar fullyrðingar“. 

Landsmenn eiga erfitt með að skilja hvers vegna mál á borð við þetta ríflega uppgjör við Breta er að koma upp á yfirborðið, svona rétt fyrir hendingu. Þess vegna koma upphrópanir.

Samninganefndarmanninum svíður það að sáð hafi verið „tortryggnisfræjum um hæfileika nefndarmanna á veikum grunni og í reynd rógsígildi“.

Ég get varla stillt mig um að spyrja samninganefndarmanninn hvað eigi að halda um öfluga og reynda nefndarmenn, sem láta bjóða sér aðra eins vitleysu og þennan gjörning. Hæfileika á hvaða sviði er samninganefndarmaðurinn að tala um?


mbl.is Niðurlægjandi ákvæði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Ég tek undir með þér, Gunnar. Í ákvæði 3.2 í uppgjörssamningnum við Breta segir svo, í þýðingu blaðamanns Mbl.:

„Afgangnum af öllum útborgunum vegna kostnaðar breska innstæðutryggingasjóðsins má hann halda eftir fyrir sjálfan sig.“

Og blaðamðurinn bætir sjálfur við, í lok fréttarinnar:

"Fari svo að kostnaðurinn verði níu milljónir punda hefur breski sjóðurinn því fengið milljón pund að gjöf frá þeim íslenska."

Milljón pund! Það hittist svo á, að þetta er SAMA upphæðin og Ingibjörg Sólrún tímdi ekki að eyða í lögfræðikostnað til að verja málstað okkar í Bretlandi í haust – hún vildi "spara" fyrir þjóðfélag sem lent hafði í kreppu!

Ekki þar fyrir, upphæðin, sem Bretar hefðu vegna þessa ákvæðis eins saman í hreinan gróða, gæti orðið miklu hærri en ein milljón punda!

Jón Valur Jensson, 25.7.2009 kl. 13:43

2 Smámynd: Gunnar Gunnarsson

Rétt, Jón Valur. Það er nú einmitt þessi vandlætingartónn, sem mér finnst leggja af viðtalinu við Indriða H. Þorláksson í Morgunblaðinu í morgun, sem varð kveikjan að þessari bloggfærslu minni. Með Svavar Gestsson í broddi fylkingar virðist sem allt hafi misfarizt, sem gat hugsanlega farið úrskeiðis, í störfum þessarar nefndar. Síðan kemur pukur, eins og með þessa hálfgildings gjöf til Breta, og loks koma kvartanir yfir því, hve illa sé talað um og farið með nefndarmenn. Ég, persónulega, hef aldrei minnzt á neinn utan Svavars og Indriða, enda er höfuðábyrgðin þeirra.

Gunnar Gunnarsson, 25.7.2009 kl. 14:08

3 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þakka þér gott svarið, Gunnar.

Jón Valur Jensson, 25.7.2009 kl. 14:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband