Ósvífið og ódýrt, jæja?

Ekki var við öðru að búast en Steingrímur J. Sigfússon hlypi fram á völlinn eftir sprengjuregnið í Morgunblaðinu í dag.

Helzt hefði ég þó viljað sjá einhver raunveruleg viðbrögð við þeim fullyrðingum Davíðs Oddssonar, meginþemanu í viðtalinu við Agnesi Bragadóttur, að Íslendingum beri alls ekki að greiða þessar 500-1000 milljarða ofurskuldir við Breta og Hollendinga. Davíð vísar einkum í skýrslu evrópskrar nefndar undir stjórn Jean-Claude Trichet, á vegum OECD. Í skýrslunni mun sagt að innstæðutryggingakerfið gildi ekki ef um algjört bankahrun sé að ræða í viðkomandi landi.

Eins bendir Davíð á að fjálglegt og stöðugt tal um „skuldbindingar“ Íslendinga og hvernig staðið muni við þær, nánast án skilyrða, geti vart orðið til að bæta samningsstöðu okkar. Þessu getur fjármálaráðherrann ekki neitað. Það gengur enginn heilvita maður að samningaborðinu og byrjar á því að játa sök og eindreginn ásetning til bóta. Slíkt ferli hófst, og er haldið við, með yfirlýsingum forsætis- og fjármálaráðherra.

Það er alrangt að halda því fram að Davíð Oddsson sé að reyna að „snúa málinu þannig á haus að það sé allt saman í ábyrgð núverandi ríkisstjórnar“. Mér vitanlega hefur enginn reynt að færa ógöngurnar á ábyrgð einnar ríkisstjórnar. Ég hélt að menn væru horfnir frá þessum barnaskap, sem gengur út á að persónugera hremmingarnar og klína þeim á aðra en þá, sem sök bera, óábyrga og ósvífna banka- og fjármálamenn. Það eru þó helzt framámenn Samfylkingar og Vinstri grænna, sem spýja galli og tala um „óslitna tveggja áratuga valdatíð Sjálfstæðisflokksins“. 

Síðan spyr Steingrímur J.: „Ætlar hann með þessu að hjálpa þeim sem eru teknir við keflinu?“ Þetta er kjánaleg og óréttmæt spurning. Fyrrverandi Forsætisráðherra landsins spyr nærgöngulla spurninga; spurninga, sem varða þjóðarheill. Þeim verður ekki svarað með skætingi á borð við „[é]g var farinn að vona að hann væri sáttur við sitt hlutskipti, hættur í stjórnmálum og kæmist vel af en menn ætla seint að komast út úr þessari meðvirkni“. 

Það er enginn sáttur við þá stöðu, sem Ísland er í í dag. Þess vegna verður að hlusta á þá, sem hafa gagnrýni fram að færa. Það verður að finna gild svör. Skætingur dugar ekki.

 

 


mbl.is Ósvífin og ódýr afgreiðsla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Gagnrýni Steingríms á orð Davíðs, eru aumkunarverð. Hann sendir fullorðnu fólki í landinu tóninn, þegar hann segir að Davíð sé kominn á eftirlaun. Hann eigi því ekki að skipta sér af hvað Steingrímur er að bralla.

Að auki fer Steingrímur í hefðbundinn skotgrafa-hernað og reynir að klína fortíðinni á Davíð. Svona málflutningur um jafn alvarlegt málefni, hefði einhverntíma verið talinn lýsa skítlegu eðli !

Loftur Altice Þorsteinsson, 5.7.2009 kl. 14:46

2 Smámynd: Benedikta E

Tapararnir lifa í fortíðinni  Steingrímur er í þeirra liði - hann bíður eftir lestinni sem fór í gær..................

Steingrímur er á vitlausum stað og á vitlausum tíma með lygina sem sinn einasta vin............

Benedikta E, 5.7.2009 kl. 23:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband