4.5.2009
Leikhús seinleikans
Það er ljóst af umræðunni að flestum er farið að ofbjóða seinagangurinn og sýndarmennskan hjá forystumönnum stjórnarflokkanna.Vika hefur farið í að ræða um ESB (þar hafa væntanlega átt sér stað fjörlegar og efnismiklar umræður um keisarans skegg) og gert er ráð fyrir að eitthvað verði orðið fast í hendi eftir aðra viku.
Rúm vika er liðin frá kosningum og þrátt fyrir að eldar logi um víðan völl, láta þeir, sem falið hefur verið að veita landinu forystu eins og ekkert sé. Tekin eru viðtöl í sjónvarpi og formenn Samfylkingar og vinstri grænna koma nánast af fjöllum yfir ölum þessum látum í landsmönnum. Það sé jú starfandi ríkisstjórn og allt sé á fullu. Ekki þurfi að hafa áhyggjur af neinu. Hvað það er, sem þessi starfandi ríkisstjórn er að gera er ekki ljóst.
Bent hefur verið á að stjórnarmyndunarviðræður hafi átt það til að teygjast á langinn. Helzt eru það einlægir aðdáendur Steingríms og Jóhönnu, sem bera þessu við. Þeir, sem bera slíku við hljóta að vera með endemum veruleikafirrtir, því aldrei hefur jafn mikil þörf fyrir skjót og markviss viðbrögð og nú; heimilin og atvinnuvegirnir, landið og þjóðin í heild sinni eiga allt undir þessu fólki komið.
Haft er eftir mætum hagfræðingi í Morgunblaðinu í dag að hann sé ...til dæmis alveg gáttaður á þessu leikriti úti í Norræna húsi. Uppsetningin er eins að þar séu á ferð þjóðhöfðingjar að semja um afnám kjarnorkuvopna. Þetta er fólk sem búið er að vinna saman í þrjá mánuði og veit að þess bíður samstarf. Þegar hér er þörf á stefnumarkandi pólitískum ákvörðunum þarf að bretta upp ermar og taka til hendinni.
Svo mörg voru þau orð.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:53 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.