Al-Kaida og Ísland

Ég hef um nokkurt skeið verið áskrifandi að orðsendingum frá þeirri deild brezka fjármálaráðuneytisins, Asset Freezing Unit (AFU), sem sá, og sér, um „praktísku“ þættina er vörðuðu beitingu hryðjuverkalaga gegn Landsbankanum og Íslandi. (Sagði kanadískum vini frá þessu áhugamáli mínu. Hans viðbrögð voru: „Get a life“).

Það er kunnara en frá þurfi að segja að þessi gjörningur hefur haft skelfileg áhrif á allan gang mála við að reyna að koma á eðlilegu sambandi við fjármálastofnanir erlendis. Með honum var Ísland í raun sett á lista með verstu hryðjuverkasamtökum heims, Al-Kaida og Talibönum, og glæpagengjum víðs vegar í heiminum, s.s. í Kongó, Zimbabve, Búrma, Líberíu, Íran, Írak og Fílabeinsströndinni.

Landsbankinn (les Ísland) var að vísu settur neðst á þennan lista yfir útvalda, en er þar engu að síður.

Af og til sendir AFU uppfærslur á þessum terroristalistum brezkra stjórnvalda og sú síðasta, sem barst, og varðaði Landsbankann, er dagsett 11. febrúar sl. Fram kemur að um er að ræða tilhliðranir vegna fjármálastofnana/aðila, sem telja sig þurfa að nálgast fjármuni, enda sé réttur viðkomandi til þessara fjármuni hafinn yfir vafa. Í sömu setningu er tekið fram að til þessara aðila megi ekki telja Landsbankann (segir sig væntanlega sjálft), neina þá stofnun, sem telja megi að erft hafi hagsmuni bankans og, takið nú eftir, íslenzk stjórnvöld og ríkisstjórn Íslands. Því er skeytt við þessa yfirlýsingu að með stjórnvöldum og ríkisstjórn sé átt við viðkomandi sem eigendur eða stjórnendur bankans eða eftirkomenda hans. Frá mínum bæjardyrum séð skiptir þessi fyrirvari engu máli því bankinn er í ríkiseigu og allt sem fram fer, og gert er varðandi bankann og málefni hans, er á vegum íslenzkra stjórnvalda. 

Ísland er þannig á lista yfir hryðjuverkasamtök og glæpagengi. Það skiptir engu hvort við erum neðst á listanum eða efst.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband