14.4.2009
Fjölmiðlarýni Ólafs Teits
Hef verið að lesa nýútkomna bók Ólafs Teits Guðnasonar, Fjölmiðlar 2007 - Getur þú treyst þeim?, útgefin af Bókafélaginu Uglu. Þetta er fjórða bókin í ritröð, sem hófst árið 2005 með umfjöllun höfundar um fjölmiðla ársins áður.
Á bókinni, sem ég hef verið að lesa mér til mikillar ánægju, eða ritröðinni, öllu heldur, er þó einn alvarlegur annmarki, því ekki er annað að skilja á höfundi, í inngangi bókarinnar, en að hér sé á ferðinni síðasta heftið í gagnmerkri röð rita. Í raun er um að ræða einu raunverulegu umfjöllunina/úttektina, sem unnin hefur verið um fjölmiðla á Íslandi. Það er mjög miður að verið sé að leggja niður það sem vitnað hefur verið í sem eins manns fjölmiðlastofnun. Það er vissulega slæmt að ekki skuli lengur von á gagnrýnni úttekt á fjölmiðlum, sem raunveruleg þörf er á.
Undanfarna daga hefur berlega komið í ljós (og það er svo sem ekki í fyrsta sinn) að nauðsynlegt er að veita aðhald þessu s.k. fjórða valdi.
Í bók Ólafs er fjallað um fréttir frá ýmsum sjónarhornum: Áberandi fyrirsagnir sem lítið eða ekkert er á bak við, innantómur og samhengislaus fréttaflutningur, villandi framsetning, innantómar æsifréttir.
Þegar litið er til hins örlagaríka árs 2008 fer ekki á milli mála að þörf er á rækilegri úttekt á hlutverki fjölmiðla í umræðunni um efnahagshrunið. Ekki síður á það við um það sem liðið er af árinu í ár.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.