23.8.2010
Orkuveita Reykjavíkur og vizka trúðanna
Það er í anda annars, sem unnið hefur verið á vegum trúðanna í borgarstjórn Reykjavíkur, að reka forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur og valda með því aukinni ólgu og óstöðugleika innan fyrirtækisins á viðkvæmum tímum.
Í raun er aðeins fært í stílinn með því að tala um að eitthvað hafi verið unnið á vegum borgarinnar af trúðagenginu því sannast sagna hefur ekkert verið gert, sem talizt getur til vitrænna verka. Nóg er um skæting, útúrsnúning, lélega brandara og almennan ræfildóm, sem látið er koma í stað raunverulegrar vinnu við stjórn Reykjavíkurborgar.
Nýr starfandi stjórnarformaður Orkuveitunnar ætlar svo heldur betur að sýna í verki að tekið verði á vandamálum fyrirtækisins með því að vísa forstöðumanni þess á dyr og látið er í veðri vaka að tekið verði til hendinni við að kippa í liðinn afleiðingum lélegrar stjórnar Sjálfstæðismanna í málum eins öflugasta orkuframleiðanda landsins.
Það er rétt að hafa í huga að öll þau vandamál, sem plaga Orkuveituna í dag eru arfleifð R-listans sáluga. Á hörmungatímum þeirra óstjórnar var ráðizt í fjárfestingar og framkvæmdir, sem eru að kaffæra fyrirtækið í dag. Þetta var unnið á vegum Samfylkingarinnar, sem leit með velþóknun til stjórnar snillingsins Alfreðs Þorsteinssonar, sérfræðings í eldi á risarækju og sérstaks velunnara LínuNets.
Fráfarandi forstjóri var verkstjóri erfiðrar vinnu, sem unnin var við endurfjármögnun Orkuveitunnar. Sú vinna hafði gengið vel þó við erfiðleika væri að etja. Stefnt hefur verið að því að leysa rekstrar- og fjárhagsvanda Orkuveitunnar þannig að áhrifin yrðu sem minnst hjá hinum almenna notanda.
Sú undirbúningsvinna féll ekki í kramið hjá núverandi meirihluta. Það vantaði allan brussugang og hávaða. Það var einungis unnið að því að bæta fyrir ákvarðanir R-listans og stóð til að gera það á yfirvegaðan hátt. Það dugði ekki. Trúðarnir vildu flugelda. Nú hafa þeir skotið þeim á loft og verður að vona að blysin fari ekki í andlit okkar borgarbúa, sem komum til með að standa undir kostnaðinum af flugeldasýningunni.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.