Færsluflokkur: Utanríkismál/alþjóðamál

Herfræði í Pakistan

Bandaríkjamönnum tókst það ekki í Viet Nam og Rússar urðu fyrir ómældum hörmungum í Afganistan, en nú telja talsmenn pakistanskra hersins sig þess umkomna að lýsa yfir sigri við skæruliða. Í tilviki Pakistana er um að ræða skæruliða Talibana á afmörkuðum svæðum í norðvestur hluta landsins, Buner-héraði, í liðlega 100 km fjarlægð frá Islamabad, höfuðborg landsins.

Samhliða yfirlýsingum um sigur á skæruliðum eru svo sýndar myndir af hermönnum um borð í skriðdrekum. Skriðdrekaliðarnir fagna mikið og veifa fánum fyrir myndatökumenn og sýna, svo ekki verður um villzt, að endanlegur sigur er í höfn. Mikilvægum áföngum hefur verið náð.

Raunar fylgja svona fréttum yfirleitt stuttar yfirlýsingar í þá átt að enn sé barizt við einangraða hópa á afmörkuðum stöðum. Slíkar skærur skipti þó ekki máli, því sigur hafi verið unninn og þetta séu bara hreinsunaraðgerðir.

Yfirmenn pakistanska hersins ættu að setja sig í samband við kollega sína í Washington og Moskvu, þó ekki væri nema til að segja þeim hvernig þeir hafi farið að því, sem Bandaríkjamenn og Rússar gátu ekki lært, semsé að vinna lokasigur á skæruliðum, sem berjast undir fánum trúarofstækis eða þjóðerniskenndar, nema hvort tveggja sé. Það verður áhugavert að sjá aðdáunarsvipinn á andlitum bandarískra og rússneskra herforingja þegar þeir þakka fyrir veittar upplýsingar um hvernig vinna skuli lokasigur á skæruliðum.

Við verðum að vona að þeir fari ekki að eyðileggja sigurvímuna með því að greina vinum sínum í Pakistan frá því að svona lokasigra hafi þeir upplifað mörgum sinnum. Megi Pakistan vegna vel í stríðinu sem framundan er og verður líklega aldrei lokið.

 

 


mbl.is Lýsa sigri á talibönum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband