Kaup kaups

Það er langt síðan að alþingismaður hefur gengizt við því að hann og félagar hans séu að leitast við að kúga ríkisstjórn á þann veg, sem Þór Saari gerði í sjónvarpsviðtali í kvöld. Ég er ekki einu sinni viss um að þingmaður hafi nokkurn tíma áður játað því opinberlega að hann og félagar ætluðu sér að svíkja heiðursmannasamkomulag. Þess háttar samkomulag var gert var við annan stjórnarflokkanna, Samfylkinguna, til að tryggja framgang og meirihluta fyrir þingsályktunartillögu um aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

Auk þess að ganga á bak orða sinna við Samfylkinguna, svíkja þingmenn Borgarahreyfingarinnar (að Þráni Bertelssyni undanskildum) loforð við kjósendur sína. Fyrir kosningar hafði þeim verið heitið því að stutt yrði við þessa tillögu. Staða Þráins er skiljanleg í ljósi þess að hann er gamall vinur og ferðafélagi Össurar Skarphéðinssonar, sem gerði allt, sem í hans valdi stóð til að fegra verk félaga Össurar í dagbókarskrifum í Fréttablaðinu.

En, Borgarahreyfingin er til sölu. Verði eitthvað gert til að breyta umgjörð Icesave-samninganna og gera þá meira aðlaðandi, munu hæstvirtir þingmenn O-listans taka 180 gráðu beygju og standa sem klettur með stjórninni. Stórmannlegt.

Ég á svo sannarlega ekki erfitt með að skilja andúð O-listans á Icesave-klúðrinu, en mikil ósköp er þetta dapurleg frammistaða. Menn gera ekki svona.

Loforð er jú loforð og við það er staðið, vilji maður ekki verða talinn ómerkingur. Loforð er loforð ef það hefur verið gefið án nokkurs fyrirvara.


mbl.is Niðurstaða um ESB á hádegi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband