Bækur í gallabuxum

 Ég hef fylgzt með Kiljunni, þætti Egils Helgasonar, frá því hann fór fyrst í loftið. Hef aðeins farið á mis við tvo þætti í venjulegri dagskrá, en náði þeim síðar á netinu.

 Það, sem ég setti fyrir mig, svona framan af, var að þáttastjórnandi og annar „álitsgjafinn“ mættu gjarnan í stofuna hjá mér klæddir gallabuxum. Maður er ekki í nankinsfatnaði á hátíðarstundum, vilji maður láta taka sig alvarlega. 

 Ólíkt Silfrinu, sem Egill hefur haldið úti í mörg ár, fer Kiljan vaxandi. Skemmtilegar, yfirleitt vitrænar, og fræðandi umræður um bókmenntir og bækur af ýmsu tagi. Ekki spillir fyrir að snillingurinn Bragi Kristjónsson lætur í sér heyra í hverjum þætti með upplýst innskot um ýmislegt, sem skiptir máli, eða skiptir engu máli. 

 Bækur eru til þess að lesa og njóta og það á að fara vel með þær. Betri bækur koma íklæddar kápu, þó oft virðist kápan helzt til þess gerð að fela flausturslega unnin spjöld eða hráslagalegan kjöl. Þá eru það kiljurnar. Hvað mig varðar, eru kiljur bækur í gallabuxum. Ekki má skilja það sem svo að ég hafi neitt á móti gallabuxum, þvert á móti, enda um að ræða traustan klæðnað, sem unnt er að nota við flest tækifæri. Þó ekki í heimsóknum til ókunnugra. Og nú er hægt að fá Kiljan í kilju. Rakst á Sjöstafakverið nýútkomið í bókabúð, á spottprís, sem maður gæti búizt við að sjá á rýmingarsölu í Perlunni. Einhvern veginn held ég að meiri reisn hefði nú verið yfir Kiljan í bandi.   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband